Hugsaðu

Fyrstu matarstundirnar

17. október, 2017

Þegar að maður hugsar vel um sig með hollri og hreinni næringu líður manni svo vel á bæði líkama og sál. Síðustu ár hef ég fengið að sjá á eigin líðan hversu stórt hlutverk mataræði spilar inn í líðan manns og er það mér því mjög mikilvægt að borða hollt. Að sjálfsögðu er það mér því alveg jafn mikilvægt að gefa syni mínum holla fæðu til að hann geti upplifað þessu sömu vellíðan og hlakka ég mikið til að kynna honum áfram fyrir hollum mat næstu árin. Það er á ábyrgð okkar foreldranna hvað börnin okkar setja ofan í sig og er það því okkar hlutverk að koma upp hollum matarvenjum.

Ég man hvað ég hélt að það yrði mikið vesen og mjög flókið að byrja að gefa barninu mínu að borða. En í dag þegar að ég lít til baka þá var þetta ekki neitt mál og veit ég ekki hvað ég var að mikla þetta fyrir mér. Mig langar því að deila með öðrum hvernig ég gerði þetta til að geta hjálpað þeim sem eru að klóra sér í hausnum yfir þessu.

Dásamlegi sonur minn, hann Hinrik Berg, er rúmlega eins árs og er hann nú þegar farin að borða helling af allskonar gómsætum mat. Ég veit ekkert skemmtilegra en að sjá hann borða eitthvað sem að honum þykir gott. Hann verður greinilega mikill mataráhugamaður líkt og foreldrar sínir. Það sem ég hef gefið syni mínum að borða er alltaf samhliða brjóstagjöf en ég hef mjög mikla trú á brjóstagjöf og ætla að halda henni áfram þar til að hann er tilbúinn að hætta. Við erum svo heppin að við eyðum ennþá öllum dögum saman og fær hann því gjafir ennþá yfir daginn líka. Brjóstagjafastundirnar eru yndislegar fyrir okkur bæði og njótum við þeirra í botn ennþá. En brjóstagjöfin gekk alls ekki vel í byrjun, meira um það hér.

Skipulag

Ég hélt að það yrði mikið vesen að útbúa alltaf sérstaklega mat fyrir Hinrik Berg en það var það alls ekki. Við eyðum svo miklum tíma í eldhúsinu hvort sem er að maður græjaði bara fyrir hann um leið og maður var að elda. Ef við vorum að fara eitthvað út, eins og t.d. í veislu eða á kaffihús, þá tókum við alltaf með nesti fyrir hann. Það þarf alls ekki að vera flókið né að taka mikinn tíma, að hugsa fyrir því er aðalmálið. Við tökum t.d. með okkur þurrkuð ber, smoothie, avacado eða bara hvað sem okkur dettur í hug.

Lífrænt

Ég legg mikla áherslu á að kaupa inn lífræna matvöru en ég vel íslenskt fram yfir það sem er erlent&lífrænt. En það er að sjálfsögðu toppurinn þegar að við komumst í íslenskt og lífrænt grænmeti, ég vona að það sé framtíðin og að úrvalið af því muni aukast. Fyrir okkur er mikilvægt að kaupa inn lífræna matvöru og eru það miklu meiri gæði fyrir líkamann okkar og enn mikilvægara fyrir litla kroppinn hans.

Hvernig byrjaði ég?

Þegar að ég var ólétt komst ég í bókina; Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? eftir yndislegu Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttur og mæli ég mjög mikið með henni. Aftast í bókinni er listi þar sem að maður getur séð hvenær maður á að kynna hverja fæðu fyrir sig fyrir barninu. En það skiptir miklu máli eftir aldri barnsins hvaða fæðu er æskilegt að gefa því.

Í kringum 6 mánaða aldurinn byrjaði ég að mauka fyrir hann og þá aðallega grænmeti. Þá gufusauð ég fyrir hann og maukaði svo með góðri olíu. Ég maukaði aldrei í stórum skömmtum og frysti heldur græjaði ég alltaf fyrir hann um leið og við vorum að elda okkur mat. En við eyðum líka miklum tíma í eldhúsinu. Þær samsetningar sem ég var mikið að vinna með voru:

  • Avacado og ólífuolía
  • Sæt kartafla og kókosolía
  • Sæt kartafla, brokkolí og ólífuolía
  • Blómkál, sæt kartafla og kókosolía
  • Gulrætur, epli og kókosolía
  • Avacado, brokkolí og ólífuolía

Ég nota alltaf kaldpressaðar og lífrænar olíur í maukið, stundum set ég vatn með ef mér finnst þetta allt of þykkt fyrir hann. Þær olíur sem ég notaði hvað mest voru lífræn kaldpressuð kókosolía og lífræn kaldpressuð ólífuolía. Ég mæli með því að setja ekki of mikið af olíu í maukið og smakka maukið til þegar að henni er bætt út í. Sérstaklega þegar maður er að nota ólífuolíu því að hún getur verið mjög bragðsterk, ef að maukið er mjög þykkt mæli ég með að þynna það út með vatni. Eins ber að hafa í huga að salta alls ekki matinn hjá svona ungum börnum.

Sjálfstæði

Ég reyni eins og ég get að leyfa honum að gera sjálfur þó að það endi oftast á því að hann sé búinn að klína sig og allt í kringum sig út. Það er mikilvægt fyrir hann að fá að kynnast áferðinni og lyktinni af matnum. Ég fylgist vel með honum og er ekki að þröngva upp á honum mat ef hann sýnir merki um að hann vilji ekki meira, ég treysti honum alveg til að vita sjálfur hvenær hann er saddur.

Það sem að við borðum

Hinrik Berg byrjaði fljótt að smakka það sem við vorum að borða samhliða maukinu við borðum. Honum hefur alltaf fundist mjög spennandi að fá eins og við erum að borða og hef ég nýtt hvert tækifæri til að gefa honum eins og við þegar að það á við. Við fáum okkur t.d. mjög oft grænan þeyting í morgunmat og hefur hann fengið svoleiðis með okkur. Eins geri ég stundum berjaþeyting sem honum finnst líka mjög góður. Hann hefur líka verið mjög hrifin af chiagraut sem að ég geri úr heimagerðri möndlumjólk og chiafræjum og læt liggja í bleyti yfir nótt. Ég set oft lífræn frosin hindber út í hjá honum því það er svo þægilegt að brjóta þau út í. Eins er mjög sniðugt að setja lífræn bláber líka vegna þess hve smá þau eru. Hann hefur einnig fengið hafragraut sem hefur legið í bleyti yfir nótt og fundist það mjög gott. Svo er auðvitað voðalega spennandi að fá vatn og/ eða heimagerða möndlumjólk í glas.

Eftir eins árs

Í dag er ég ekki mikið að mauka fyrir hann lengur heldur rétt stappa ég eða sker niður mjög smátt fyrir hann það sem hann fær og aðstoða hann við að setja það upp í sig þegar þörf er á. Ég þarf ekki að pæla eins mikið í því og áður að útbúa sérstaklega mat fyrir hann. Núna borðar hann oftast bara það sem við erum að borða nema að það sé eitthvað sterkt, þá græjum við sér fyrir hann. Honum finnst grænmetissúpur t.d. algjört æði sem er algjör snilld enda eru súpur ein besta leiðin til að borða mikið grænmeti í einu. Núna er hann kominn á þann aldur að vilja borða nákvæmlega það sama og við – sem hvetur mann ennþá meira til að borða mjög hollt.

Ég vona að þetta hafi komið einhverjum að gagni.

Ást og friður,

Anna Guðný

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply