Featured Njóttu Morgunsins

Sælkeragrautur

Þegar kólna fer í veðri er svo huggulegt að hita sig upp fyrir daginn með því að fá sér hafragraut í morgunmat. Hafragrautur er nefnilega ekki bara hafragrautur. Það er hægt að leika sér endalaust í grautargerðinni og þarf enginn grautur að vera eins. Með því að gera fjölbreyttar útgáfur af hafragrautnum fær maður síður leið á honum og hlakkar manni til að prufa eitthvað nýtt á hverjum degi. Þessi uppskrift sem ég ætla að deila með þér núna er af kakóhafragraut sem er algjört sælgæti. Þessi grautur er algjört spari og því tilvalin þegar maður vill gera vel við sig eins og t.d. um helgar.

Ég nota glútenlaust haframjöl í hafragrautinn minn þar sem að ég kýs að sniðganga glúten. En það er samt ekki glúten í haframjöli heldur er það oft unnið á sama stað og vörur sem innihalda glúten eins og t.d. hveiti. Þannig að þegar maður kaupir glútenlaust haframjöl þá er maður alveg pottþéttur á því að það séu engin smit af glúteni á því. Þetta er eitthvað sem að flestir þurfa ekki að hafa áhyggjur af nema að þeir séu hreinlega með glútenofnæmi eða glútenóþol.

Kakógrautur – fyrir 2-3

 • 2 dl glútenlaust haframjöl
 • 6 dl vatn
 • 2 msk kakó
 • 2 msk kókosmjöl
 • 2 msk chiafræ
 • 2 msk sólblómafræ
 • 7 döðlur – skornar gróflega niður
 • 1 lífrænt epli/pera/banani
 • 1 msk kókosolía
 • Smá biti af kakósmjöri, ca. 4g
 • 1 tsk vanilla
 • 1 tsk kanill
 • 1 tsk salt
 1. Byrjaðu á því að skera döðlurnar og ávöxtin gróft niður
 2. Skelltu öllum hráefnunum í pott og kveiktu á hellunni. Hrærðu vel í grautnum og ekki fara frá honum.
 3. Þegar að grauturinn er tilbúinn er mjög gott að bera hann fram með heimagerðri möndlumjólk.

Endilega vertu dugleg/duglegur að prufa þig áfram í grautargerðinni og leika þér með það hráefni sem þú átt til hverju sinni. Ég var t.d. svo heppin að eiga frosin bláber í frystinum sem ég týndi í sumar, þau settu punktinn algjörlega yfir i-ið.

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply