Jæja, hvar á ég að byrja?
Ég gæti í alvörunni skrifað heila bók um þessa mögnuðu og unaðslega köku. En þessi Snickershrákaka er algjörlega málið um jólin eða við hvaða sparitilefni sem er. Ég get alveg lofað þér því að hún mun slá í gegn og það gæti líka alveg farið þannig að þú munt ekki tíma að deila henni með neinum.
Ég er ótrúlega stollt af þessari uppskrift og er kakan nákvæmlega eins og ég hafði hugsað mér. En þegar að ég fæ hugmyndir af uppskriftum sé ég alveg skýrt fyrir mér hvað ég ætla að búa til. Ég veit nákvæmlega hvað ég vil í bragði, áferð og útliti. Það var algjörlega tilfellið með þessa uppskrift og er svo skemmtilegt þegar manni tekst að skapa það sem byrjar sem hugmynd í kollinum á manni.
Snickershrákaka
Botn:
- 300g haframjöl
- 5 msk möndlusmjör
- 4 msk kókosolía, bráðin
- 3 msk kókospálmasykur
- örlítið gróft salt
- Öllum hráefnunum er skellt í matvinnsluvél og hún látin vinna þar til að botninn er vel blandaður saman.
- Því næst er gott að pensla smelluform með bráðinni kókosolíu.
- Botninum er svo þjappað ofan í og reynt er að hafa hann alveg sléttan.
- Botninn er svo settur í frystirinn.
Vanillulag
- 400 g kasjúhnetur (best ef lagðar í bleyti í a.m.k. 3 klst)
- 400 g kókosþykkni (þykki parturinn í köldum kókosmjólkurdósum, ca. 3 dósir)
- 2/3 dl hlynsíróp
- 1/2 dl kókosolía, bráðin
- 2 msk sítrónusafi
- 1 tsk vanilluduft
ATH! Taktu 2 dl af vanillulaginu og settu til hliðar.
- Byrjaðu á því að leggja kasjúhneturnar í bleyti yfir nótt eða allavega í 3 klst. Ef þú ert með mjög kröftugan blandara þá er í lagi að sleppa þessu.
- Passaðu að kókosmjólkurdósirnar séu vel kældar annaðhvort í frysti í nokkrar klst. eða í ísskáp yfir nótt. Þá er auðvelt fyrir þig að ná kókosþykkninu sem er þá alveg aðskilið kókosvatninu.
- Öllum hráefnunum er komið fyrir í blandaranum.
- Gott er að byrja á að láta blandarann fara í gang við lægstu stillingu og svo auka hraðan. Blandarinn mun kannski ekki virðast geta unnið á þessu til að byrja með en um leið og blandan fer að hitna þá verður þetta leikur einn.
- Blandaðu þar til að blandan er silkimjúk.
- Taktu 2 dl af blöndunni og settu til hliðar. Þarft þetta í súkkulaðilagið.
- Náðu í formið í frystirinn og helltu vanillulaginu yfir botninn. Formið er svo aftur sett í frysti. Gott er að passa upp á að það sé alveg slétt undirlag undir forminu í frystinum.
Þegar að vanillulagið er alveg frosið smyrð þú 1,5 krukku af lífrænu & grófu hnetusmjöri yfir kökuna.
Súkkulaðilag
- 2 dl af vanillulaginu
- 1 1/3 dl lífrænt kakó
- 20 g kakósmjör, brætt (má sleppa og setja meira af kókosolíu í staðin)
- 1 dl kókosolía
- 1/4 dl hlynsíróp
- örlítið gróft salt
- Gott er að gera súkkulaðilagið með töfrasprota. Annars ætti það líka að vera hægt í matvinnsluvélinni.
- Þegar að það hefur kólnað má skella því yfir hnetusmjörið á kökunni.
- Stráðu svo salthnetum yfir kökuna og ýttu létt á þær ofan í súkkulaðilagið svo þær séu ekki lausar ofan á kökunni.
- Settu kökuna aftur í frysti.
Ég tek það fram að þetta er stór uppskrift. Kakan ætti að duga fyrir alveg 15-20 manns ef að þú skerð kökuna fyrirfram. Það átta sig kannski ekki allir á því að svona kökur eru alveg rosalega saðsamar og því getur maður ekki torgað jafnstórri sneið og af hefðbundinni tertu. Ég mæli því með að skera kökuna í litlar sneiðar áður en að þú berð hana fram.
Mér finnst alltaf gaman að hafa kökur sem glæsilegastar og þar sem að mín kaka var ekki nálægt því að klárast þá skar ég hana bara niður í sneiðar og frysti í loftþéttu glerformi. Markmiðið er að eiga hana til þess að njóta um jólin (gangi mér vel). En svo má líka útbúa uppskriftina helmingi minni og setja í kassalaga form. Þá er upplagt að skera kökuna niður í litla kassalaga konfektmola til að eiga með heitu súkkulaði.
Ég vona að þessi uppskrift muni koma þér að gagni og væri gaman að heyra frá þér hér fyrir neðan í athugsasemdum eða á instagram (heilsaogvellidan) ef þú útbýrð hana!
Ást frá mér til þín,
Anna Guðný
No Comments