Njóttu Góðgætis

Páskabomban í ár!

Þessi ómótstæðilega kaka er algjör bomba! Ég er ótrúlega ánægð með hana en bæði áferð og bragð eru upp á 10 þó ég segi sjálf frá. Það passar því vel að birta uppskrift af svona bombu þegar að páskarnir eru handan við hornið og mun hún una sér vel í hvaða páskasamkomu sem er. En þetta er frekar stór uppskrift en hún geymist vel í frysti svo ég er ekkert endilega viss um að ég myndi ráðleggja þér að minnka uppskriftina vegna þess hversu góð hún er. Að eiga þessa köku í frystinum er í alvörunni eins og að sitja á gulli. En ég er sérstaklega ánægð með karamellulagið en áferðin á því er fullkomið og bragðast það yfirnáttúrulega. Þessi kaka inniheldur enga unna sætu sem að mér finnst stórkostlegt afrek því að maður finnur það alls ekki á bragðinu.

Endilega lestu aðferðarlýsinguna skref fyrir skref þegar að þú útbýrð þessa köku. Hún er samt mjög einföld í framkvæmd en það eru nokkur atriði sem að þú vilt vita og hafa bakvið eyrað áður en þú útbýrð hana.

Vindum okkur í þetta!

Botn

  • 4 dl haframjöl
  • 5 msk möndlusmjör
  • 5 msk ljóst kakó
  • 50 g döðlur
  • 100 g möndlur
  • 100 g heslihnetur
  • 5 msk kókosolía
  • 3 msk kókospálmasykur
  • 1/4 tsk gróft salt
  1. Byrjaðu á því að rista möndlurnar og heslihneturnar í ofni við 150°C á blæstri í 10-15 mín. Þegar að heslihneturnar hafa kólnað þá nuddar þú hýðið af þeim en hefur möndlurnar bara eins og þær eru.
  2. Skelltu svo heslihnetunum, möndlunum og haframjölinu í matvinnsluvél í smá stund.
  3. Bættu svo hinum innihaldsefnunum saman við þar til að ágætlega fíngerður botn hefur myndast.
  4. Pressaðu svo botninum ágætlega fast niður í smelluform. Þú ræður hvort þú lætur hann vera upp á kantanna eins og ég gerði, ef ekki þá myndi ég geyma 1/3 af botninum og gera úr honum orkukúlur.
  5. Næst mátt þú setja smelluformið í frysti á meðan þú útbýrð karamelluna.

Þegar að ég gerði kökuna fyrst var ég ekkert smá ánægð með hana en fannst hún samt aðeins of sæt með döðlubotni svo ég gerði hana aftur með öðrum botni sem kom mun betur út. En myndirnar af fyrstu tilrauninni voru miklu flottari svo ég ætla að nota þær með þessari færslu þó að botninn í uppskriftinni sé annar en sá sem er á myndinni.

Karamella

  • 200g döðlur
  • 250 g kókosþykkni (þykki parturinn af kókosmjólk)
  • 50 g kasjúhnetur
  • 70 g kókospálmasykur
  • 60 g möndlusmjör
  • 1/2 tsk ljóst kakó
  • 1/4 tsk vanilluduft
  • 1/2 tsk gróft salt
  1. Ef að döðlurnar eru grjótharðar þá mæli ég með að leggja þær í bleyti í 10 mín í sjóðandi heitu vatni. En passaðu samt að þurrka þær vel áður en að þú notar þær.
  2. Annars skellir þú bara öllum innihaldsefnunum bara saman í blandara þar til að það hefur orðið til silkimjúk og bragðgóða karamella.
  3. Dreifðu karamellulaginu á botninn og komdu kökunni aftur fyrir í frystinum.

Þegar að karamellulagið er ágætlega stíft eða harnað, þá getur þú gert súkkulaðikremið. Ég myndi ekki gera það fyrr því að það á það til að skilja sig með tímanum; sérstaklega ef að kókosolían er of heit.

Súkkulaðikrem

  • 1/2 dl möndlusmjör
  • 1 dl ljóst kakó
  • 4 msk kókosþykkni (þykki parturinn af kókosmjólk)
  • 1 dl kókosolía
  • 3/4 dl döðlusíróp
  • smá gróft salt
  1. Ég mæli með að gera súkkulaðikremið með töfrasprota því að kókosolían á það til að skilja sig hratt frá ef að maður hrærir þessu saman í höndunum. Settu hana þess vegna bara smátt & smátt saman við.
  2. En EF að þú hrærir þessu saman þá mæli ég með að bræða kókosolíuna með því að láta heitt vatn renna á krukkuna í vaskinum. Byrjaðu svo á því að hræra öllu saman í skál með písk en settu kókosolíuna saman við í skömmtum, byrjaðu á 1/2 dl og sjáðu hvort þú komist upp með það.
  3. Settu svo súkkulaðikremið á karamellulagið með skeið og settu kökuna svo aftur í frysti.

Kakan þarf ekki að standa lengi við stofuhita þar til að hægt er að bera hana fram. En mér finnst hún líka ótrúlega góð bara beint úr frystinum. Ef að þú ert ekki að fara með hana í veislu eða neitt svoleiðis þá mæli ég með að frysta hana í nokkrum sneiðum og einnig í litlum konfektmolum sem er auðveldara að grípa í ef manni langar kannsi ekki í heila sneið. Svona kökur frysti ég í loftþéttum glerboxum sem að ég hef m.a. keypt í ikea.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply