Hugsaðu Njóttu

Góðgæti beint frá býli

19. júlí, 2016

Ég og kærasti minn, Snorri, tókum smá ”sveita”rúnt fyrir stuttu. Það er svo gott að fara út fyrir höfuðborgarsvæðið og keyra um í fallegri náttúru. Tilvalið er að taka með sér smá nesti og stoppa á fallegum stað og snæða það. Mér finnst upplagt að taka daginn í þetta, stoppa á fallegum stöðum, kíkja á íslenskar gróðrarstöðvar og jafnvel kíkja í sund. Við vorum aðallega í leit að fallegu íslensku grænmeti og flökkuðum á milli gróðrarstöðva.

Það sem stakk mig mest í hjartað á rúnti okkar var að hversu mikið af umbúðum var notað á grænmetið og ávextina þrátt fyrir að maður sé að versla beint heim að býli. Ég skora á gróðrarstöðvar landsins að hafa bréfpoka og láta kúnnan versla eftir vigt þegar fólk er að versla heim að býli. Ég skil hinsvegar vel að grænmetið og ávextirnir þurfi að vera í umbúðum í stórmörkuðum til að aðgreina það frá öðru innfluttum afurðum.

Við stoppuðum á mörgum gróðrarstöðvum, sumt var á góðu verði, annað var á sama eða mjög svipuðu verði og maður kaupir út í búð. Ég ætla að telja upp þær gróðurstöðvar sem voru með grænmeti og ávexti á góðu verði og ég mæli með að kíkja á.

Silfurtún og Melar

Nokkrar gróðrarstöðvar bjóða upp á sjálfsafgreiðslu. Þá þarf maður að vera með pening í lausu á sér og setja hann í bauk. Mér finnst virkilega fallegt að það sé borið slíkt traust til kúnnans. Slíkt fyrirkomulag er t.d. á Silfurtúni og Melum, bæði staðsett á Flúðum.

Á Silfurtúni er hægt að fá gómsæt jarðaber og er stundum eru til 2. flokks jarðaber í 400g öskjum sem mér finnst tilvalið að frysta og nota í þeytinga. Ræktunin Á Silfurtúni er ræktunin vistvæn þar sem að býflugur sjá um frjóvgunina og þar er beitt lífrænum vörnum.

Á Melum fengum við stórglæsilegar kryddjurtir; basil, kóríander, og myntu. Þau eru einnig með fersk hindber, gúrkur, paprikur, salat og margt fleira. Líkt og á Silfurtúni, er ræktunin á Melum vistvæn og þar er lífrænum vörn beitt í baráttu við meindýr.

Lífræni markaðurinn á Engi

Ég hef aldrei áður séð íslensk kirsuber og hvað þá lífræn í þokkabót, þau voru himnesk á bragðið og myndi ég leggja leið mína alla leið aftur á Engi bara fyrir þau.

Á Engi er ekki bara gróðrarstöð með lífræna ræktun heldur er einnig skemmtilegt völdundarhús í garðinum. Við vorum sérstaklega ánægð með úrvalið hjá þeim og gengum út með tvo stútfulla poka. Við keyptum kirsuber, gulrætur, eggaldin, sellerí, grænkál, brokkolí og jarðaber hjá þeim. En margt fleira girnilegt var í boði og hefði ég vel getað keypt meira. Allt er að sjálfsögðu lífrænt ræktað sem gerir mig sérstaklega hamingjusama en Engi hefur verið með lífræna vottun í 20 ár. Ég er mjög ánægð með ræktunina á Engi og að það skuli vera svona fjölbreytt úrval af íslensku lífrænu grænmeti og ávöxtum. Ég vona svo innilega að þetta sé framtíðin og að við getum eftir nokkur ár keypt íslenskt lífrænt grænmeti og ávexti út í búð eins og ekkert sé sjálfsagðara. Lífræni markaðurinn á Engi er einungis opinn frá föstudegi til sunnudags frá kl. 12-18.

Processed with VSCO with f2 preset

Í fullkomnum heimi myndi ég vilja fá allt grænmeti og ávexti lífrænt og íslenskt en ég tala meira um mikilvægi þess að velja lífrænt í þessari grein hér. Ef ég finn vöruna ekki íslenska þá kaupi ég hana erlenda og lífræna. Margar gróðrarstöðvar hérna heima eru vistvænar og beita lífrænum vörnum þó þær séu ekki allar með lífræna vottun. Ég vildi óska þess að stutt væri meira við grænmetis- og ávaxta ræktun á Íslandi svo að það væri meira framboð af hágæða afurðum fyrir kúnnan á góðu verði.

Gleymum ekki að við sem neytendur höfum allt um það að segja hvað er í boði í búðunum en í hverri einustu búðarferð erum við að sýna hvað við styðjum við og hvað ekki. Ef við sýnum í innkaupum að það skipti okkur máli hvaðan varan kemur og hversu hrein hún er þá verður meira framboð af þeim vörum. Í hvert skipti sem við kaupum lífrænt styrkjum við bændurnar til að framleiða meira lífrænt. Þá sjá hinir bændurnir að við viljum lífrænt og framboðið eykst.

Hér á höfuðborgarsvæðinu hef ég stundum keypt íslenskt lífrænt grænmeti hjá Frú Laugu og Bændum í bænum en úrvalið og magnið er lítið. Ef þú ert á flakki eða ákveður að leggja af stað í sveitarúnt mæli ég hiklaust með að byrgja sig vel upp á gróðrarstöðvunum.

Ekki gleyma að njóta!

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply