Njóttu Jólanna

Engifersmákökur

Það er alltaf að koma mér meira og meira á óvart hversu auðvelt það er að baka smákökur án þess að nota hvítt hveiti, hvítan sykur og smjör. Um leið og maður kemst upp á lagið með að baka á þennan máta þá er þetta ekkert mál. Það mætti segja að það opnist fyrir manni nýjar dyr og möguleikarnir verða endalausir. Ég fékk þá hugmynd um daginn að útbúa engifersmákökur sem að eru vegan, glútenlausar og innihalda ekki hvítan sykur. Eftir nokkrar tilraunir varð til þessi uppskrift sem ég ætla að deila með þér hér að neðan. Það er engin vandi að útbúa þær; það eina sem þú þarft er matvinnsluvél, uppáhalds tónlistina og góða skapið.

Engifersmákökur

 • 4 dl haframjöl
 • 2 dl möndlumjöl
 • 1/2 dl döðlusíróp
 • 1/4 dl vatn
 • 1/2 dl kókosolía
 • 3/4 dl kókospálmasykur
 • 2 tsk engifer
 • 1 tsk kanill
 • hnífsoddur negull
 • 1/4 tsk múskat
 • 1/2 tsk gróft salt
 1. Þú byrjar á því að setja öll þurrefnin í matvinnsluvélina og láta hana vinna í dágóða stund eða þar til að haframjölið er orðið að ”hveiti”.
 2. Því næst bætir þú döðlusírópinu, vatninu og kókosolíu.
 3. Þegar að það hefur myndast flott deig þá er um að gera að kæla það áður en þú mótar úr því kökur.
 4. Ef að þú nennir ekki að kæla það þá er það allt í lagi. Deigið getur verið pínu klístrað ef maður kælir það ekki og þá bleytir þú bara hendurnar með vatni á milli þess sem þú mótar smákökur úr deiginu.
 5. Mótaðu kúlur, pressaðu þær svo niður í lófanum og mótaðu smákökuna fallega.
 6. Settu kökurnar í ofn við 175°C í 10-12 mín á blæstri. Fylgstu vel með þeim.
 7. Leyfðu þeim að kólna.

Eitt ráð:
Stundum finnst mér smákökur mýkjast við það að fara í lokað ílát. Ef það gerist þá geymi ég þær bara á fallegum kökudisk nokkrar í einu til að gæða sér á yfir daginn eða næsta dag. Þannig verða þær mátulega harðar og stökkar á ný.

Ég vona innilega að þessi uppskrift eigi eftir að koma að góðum notum á þínu heimili. Það væri gaman að heyra hvernig þér líkar þær ef þú ákveður að baka þær.

Megir þú annars eiga yndislega aðventu og hlúa einstaklega vel að þér, dýrmæta þú.

Ást,
Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply