Hugsaðu

Af hverju nota ég ekki örbylgjuofn?

25. maí, 2016

Það er nú ekki svo langt síðan að djúpsteikingarpottar voru til á öllum heimilum landsins eins og ekkert væri sjálfsagðara. Í dag er fólk sem betur fer aðeins heilsusinnaðara og djúpsteikingarpottarnir eru sjaldséð sjón, enda árið 2016. En þrátt fyrir að það sé árið 2016, virðast samt örbylgjuofnar vera algjör staðalbúnaður á heimilum, skólum og vinnustöðum landsins.

Fannst ég skemma matinn í örbylgjuofni

Örbylgjumáltíðir má græja á þremur mínútum og geta verið mjög hentugar. Eins getur verið þægilegt að taka afganga með sér í nesti og hita þá upp í örbylgjuofninum í vinnunni eða í skólanum. Örbylgjuofn var alltaf það fyrsta sem ég gáði að á nýjum vinnustað eða skóla sem ég byrjaði í. Bara svona svo ég vissi hvar ég hefði hann því ég notaði hann mjög mikið, enda alltaf með afganga frá kvöldinu áður í nesti. Eftir því sem ég varð síðan heilsusinnaðari og fór að pæla í því hvað ég var að láta ofan í mig fannst mér ég bókstaflega skemma matinn minn með því að hita hann upp í örbylgjuofni. Það var eitthvað inni í mér sem sagði mér að það gæti ekki verið gott fyrir mann að hita matinn upp á þremur mínútum með örbylgjum. Ég hætti því alveg að nota örbylguofn og seldi þann sem var til hérna heima svo hægt væri að nýta plássið í eitthvað nytsamlegra eins og t.d. fyrir matreiðslubækur.

Er verið að segja þér eitthvað?

Það er til mikið af greinum og rannsóknum til á internetinu um örbylgjuofnanotkun. Ég hvet þig til að lesa þig um sjálf/ur ef þú vilt taka upplýsta ákvörðun um hvort að þú eigir að minnka eða jafnvel hætta örbylgjunotkun. Oft er maður að gera nákvæmlega sömu hlutina dag frá degi án þess að taka þá til skoðunar og pæla í því af hverju maður geri þá svona og hvort það væri betra að gera þá öðruvísi. Ég fæ oft tilfinningu um að ég sé ekki að gera hlutina á réttan hátt og reyni að hlusta ekki á þá tilfinningu þangað til að hún bókstaflega öskrar á mig. Ég fékk endurtekið tilfinningu um að ég væri ekki alveg að gera það rétta þegar ég var að nota örbylgjuofn og það tók mig alveg tíma að bregðast við þessari tilfinningu og hætta allri örbylgjunotkun. Maður veit oftast innst inni hvað er rétt fyrir mann ef maður bara vill hlusta á þessa innri rödd sína. Það sem hefur alltaf virkað best fyrir mig er að hlusta á innsæið mitt/hina svokallaða ”gut feeling”og fara eftir því þó það taki mig stundum tíma að ranka við mér.

Það sem þarf að hafa í huga við örbylgjunotkun

Ég tók ekki ákvörðun um að hætta að nota örbylgjuofn útfrá rannsóknum og greinum á netinu, heldur fylgdi ég hjartanu mínu og mínu innsæi. En það sem hefur m.a. komið fram í þeim greinum sem ég hef lesið eftir að ég hætti að nota örbylgjuofn er m.a. að:

 • Næringargildið minnkar
  Það er gjarnan talað um að örbylgjuofnar minnki næringargildið í matnum, það er reyndar það sem gerist þegar maður hitar mat á hvaða hátt sem er. En það segir sig sjálft að þegar þú hitar matinn þinn á lágum hita í langan tíma þá hlýtur það að viðhalda meiri næringarefnum í matnum heldur en þegar maður setur eitthvað í örbylgjuofninn í þrjár mínútur.
 • Skaðleg geislun
  Það er talið að örbylgjuofnar geti losað út skaðlega geislun á heimilinu, ekki bara í matinn sem þú ert að hita upp.
 • Ójöfn hitun
  Örbylgjuofnar hita matinn ójafnt og er því í mörgum greinum talað um að það sé t.d. stórhættulegt að hita pelamjólk í örbylgjuofninum fyrir ungabarnið. Mjókin er þá misheit í pelanum og hætt við því að barnið brenni sig.
 • Skaðleg efni leka í matinn okkar ef hitað er upp í plasti
  Hvort sem þú ákveður að hætta að nota örbylgjuofn eða ekki, þá hvet ég þig til að hita ekkert upp í plastíláti. Þegar að plastílát (líka þau sem eru merkt örugg fyrir örbylgjuofnanotkun) eru hituð í örbylgjuofni leka þau BPA og öðrum skaðlegum efnum í matinn okkar. BPA hefur m.a. áhrif á eðlilega hormónastarfsemi. Ófrjósemi, lítil kynhvöt, hjartasjúkdómar, geðsjúkdómar, ofnæmi, hár blóðþrýstingur og þyngdaraukning eru einnig skaðleg áhrif af völdum BPA.

Einn af kostunum við það að hætta að nota örbylgjuofn er að maður hættir þá að kaupa sér tilbúnar örbylgjumáltíðir sem eru m.a. stútfullar af sykri og aukaefnum. Ef að örbylgjumatur út í búð freistar þín ennþá þá ættir þú allavega að fjarlægja matinn úr plastbakkanum áður en þú hitar hann upp í örbylgjuofni. Annars mæli ég með að reyna að kaupa eins lítið af vörum í plasti og hægt er yfir höfuð því þær eru gríðarlega skaðlegar fyrir umhverfið okkar.

photo-1458917524587-d3236cc8c2c8Það sem er fljótlegt og þægilegt er ekki alltaf besti valkosturinn

Örbylgjuofnar eru þægilegir og hentugir en það sama á t.d. við um skyndibita. Skyndibiti er alls ekki góð uppspretta næringarefna og vítamína fyrir okkur, það vitum við. Það sem er þægilegt og fljótlegt er því miður ekki alltaf sem er besti valkosturinn fyrir okkur. Þegar að maður gerir sér máltíð frá grunni gerir maður það ekki bara af ástríðu og væntumþykju heldur veit maður einnig nákvæmlega hvað er í matnum. Þetta allt skiptir máli fyrir þann sem borðar matinn. Ég tala nú ekki um hvað það er góð hugleiðsla og róandi að dúlla sér í eldhúsinu, við höfum öll gott af því og allir ættu að gefa sér tíma í það. Þegar maður leyfir einhverju að malla í pottinum í góðan tíma þá ná bragðefnin að þróast og maturinn verður bragðbetri fyrir vikið. Það er ekki alveg það sama sem gerist þegar að maður tekur frosna máltíð úr frystinum og skellir henni í örbylgjuofnin í þrjár mínútur auk þess sem maður er alls ekki að fæða sig á ástríkan og ábyrgðarfullan hátt, heldur á fljótlegan og þægilegan hátt. Það gæti komið sér illa seinna að hugsa ekki um heilsuna núna og vera alltaf að taka fljótlegu og þægilegu leiðina. Ég hvet þig því til að taka ábyrgð á heilsu þinni, þú munt uppskera í formi vellíðunar og betri heilsu.

Ég sakna örbylgjuofnsins ekkert

Ég sakna örbylgjuofnsins ekki neitt og það var mjög auðvelt að hætta að nota hann. Ég lærði að búa mér til nesti sem ekki þurfti að hita upp og í sumum tilfellum borðaði ég bara kalda matarafganga, þessar breytingar trufluðu mig alls ekki neitt. Á núverandi vinnustað hita ég matinn minn upp á hellu í potti ef ég þarf að hita eitthvað upp. Ef ég er heima og þarf að hita eitthvað upp geri ég það annaðhvort í ofninum eða í potti/á pönnu á helluborðinu. Eins þegar að mig langar í popp, poppa ég í potti og poppa upp úr kókosolíu og grófu salti. Það er miklu betra en örbylgjupopp, trúðu mér.

Nú þarf hver að meta fyrir sig og taka vel upplýsta ákvörðun. Best er þó að fylgja alltaf hjartanu og hlusta á innsæið sitt, maður veit innst inni hvað er rétt fyrir mann og hvað ekki. Það hefur allavega alltaf reynst mér best í gegnum tíðina.

Ást og friður,

-Anna Guðný

Hér eru tvær greinar sem ég mæli með að þú lesir ef þú vilt vita meira:

 • http://wellnessmama.com/3736/microwave/
 • http://www.mercola.com/article/microwave/hazards2.htm

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply