Ég velti því fyrir mér á meðgöngunni hvort við Snorri ættum að fara á einhver námskeið áður en krílið okkar kæmi í heiminn. Það varð aldrei neitt úr því en ég man að ég rakst á brjóstagjafanámskeið og hugsaði með mér að brjóstagjöf gæti varla verið það flókin að maður þyrfti að fara á sérstakt námskeið fyrir hana. Þegar að dásamlegi molinn okkar kom síðan í heiminn fékk ég að sjá að brjóstagjöfin er ekki alveg eins einföld og ég hélt. Ég lærði t.d. að maður þurfti að nota sérstaka tækni til að barnið myndi taka brjóstið rétt og til að koma í veg fyrir sár. Eins þurfti að hafa í huga að maður væri í góðri stöðu svo að þetta yrði afslappað fyrir okkur bæði. En ef að móðirin er stressuð í brjóstagjöf hefur það áhrif á flæði mjólkurinnar.
Ég fékk slæm sár þegar að Hinrik Berg var aðeins nokkra daga gamall og kveið mér mikið fyrir hverri gjöf. Gjafirnar gengu því hálfbrösulega hjá mér og var ég mjög hrædd að setja elskulega son minn á brjóstið. Ég titraði af sársauka meðan ég gaf og tók það oft margar tilraunir að láta hann taka brjóstið. Við mæðginin grétum oft saman á þessu tímabili og var maður stundum nálægt því að gefast upp á brjóstagjöfinni. Við vorum ótrúlega þakklát fyrir aðalljósmóðurina okkar, Arneyju frá Björkinni, sem vildi allt fyrir mig gera og var ég í stöðugu sambandi við hana. Hún útvegaði mér brjóstagjafaráðgjafa hingað heim sem að fór yfir tæknina með mér og sýndi mér nokkrar aðferðir. Allar þessar mismunandi aðferðir við að leggja barn á brjóst flæktu mig þó mjög mikið í ríminu og kvíðinn fyrir gjöfunum jókst. Ég skildi ekki hvernig þetta gat verið svona flókið og af hverju ég hafði aldrei heyrt neinn minnast á það.
Sárin tóku langan tíma að gróa sem að reyndi mikið á þolinmæðina. Það mátti ekkert snerta geirvörturnar svo ég var á brjóstunum fyrstu vikurnar sem er mjög fyndið þegar ég hugsa til baka. Ég fór lítið sem ekkert út á þessum tíma og var ómetanlegt að eiga góða að sem að studdu við bakið á mér. Það hefði verið mjög auðvelt að tapa geðheilsunni og enn auðveldara að gefast upp á brjóstagjöfinni. En ljósmæðurnar okkar lýstu þessu fyrir mér sem fjalli sem ég væri að klífa og að ég myndi komast yfir það. Ég var mjög ákveðin í því að komast yfir þessa hindrun.
Eftir að hafa prufað allskonar krem og lítið gerðist var mér ráðlagt að prufa mexíkanahatta. Ég veit að það eru mjög misjafnar skoðanir á mexikanahöttum enn í okkar tilviki var þetta síðasta úrræði og björguðu þeir brjóstagjöfinni hjá okkur. Það var ekki svona sárt að gefa lengur og það var ekkert mál að leggja Hinrik Berg á brjóstið. Sárin greru loksins og þegar að ég var tilbúin að prufa að gefa án hattanna var það ekkert mál. Ég hætti með þá eftir nokkrar vikur og hafa sárin ekki komið upp aftur.
Ein af ástæðunum fyrir því að ég var svo ákveðin í að láta brjóstagjöfina ganga upp er að brjóstamjólk er gríðarlega mikilvæg fyrir ónæmiskerfi barnsins. Brjóstamjólkin er fullkomin næring fyrir nýbura og er sérsniðin að þroska barnsins hverju sinni. Barnið fær mótefni frá móður með brjóstamjólkinni sem eru mikilvæg bæði fyrir slímhúðir barnsins og yfirborðsvernd þess. Ég er svo þakklát fyrir að brjóstagjöfin hafi gengið upp hjá okkur. Það munaði mjög litlu að ég hafi gefist upp og skil ég þær konur fullkomlega sem hafa reynt allt en þurft að hætta brjóstagjöf vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Það er alls ekki sjálfsagt að þetta gangi vel né að þetta gangi upp yfir höfuð. Ég veit að allar mæður reyna sitt besta og vilja allt gera fyrir barnið sitt.
Hinrik Berg er að nýorðin 6 mánaða og er ennþá einungis á brjósti. Þegar að hann byrjar að borða mun ég síðan halda brjóstamjólkinni inni eins lengi og við bæði getum. Mér finnst oft gleymast í fæðingarorlofsumræðunni hversu mikilvæg brjóstagjöf er fyrir ónæmiskerfi barnsins og þ.a.l. að mamman geti verið frá vinnu a.m.k. fyrstu 6 mánuðina til að sinna brjóstagjöfinni. Því miður þurfa margar mömmur að fara snemma aftur út á vinnumarkaðinn vegna þess hve mikil tekjuskerðing fylgir því að vera í fæðingarorlofi sem er virkilega sorglegt að mínu mati. Ég man sjálf hvað mér fannst fyrst bindandi að vita af því að sonur minn þyrfti að drekka hjá mér á 2-3 klst fresti og ég gæti því ekki farið langt. En í dag finnst mér þetta sjálfsagt mál og er brjóstagjöfin í miklum forgangi. Það er ekkert mikilvægara en að sinna næringarþörfum sonar míns og getur allt annað beðið fyrir mér. Hann verður bara lítill einu sinni og finnst mér mikilvægt fyrir okkur bæði að njóta þessa tíma.
-Anna Guðný
No Comments