Eins og það er mér mikilvægt að kaupa inn lífrænt í matinn þá hafði ekki hvarflað að mér að það væri eitthvað sem ég þyrfti að huga að í fatainnkaupum. Þegar ég var ólétt af Hinriki Berg rakst ég oft á lífræn barnaföt sem fékk mig til að leiða hugann að því hvað væri það besta fyrir litla kroppa. Eftir að hafa lesið mér síðan til um hvað það þýði að versla lífræn föt, og hvort það sé sölubrella eða ekki, ætla ég að deila með þér því helsta sem málið varðar.
Litlir kroppar viðkvæmari fyrir eiturefnum
Við vitum að húðin er stærsta líffæri mannsins og allt sem við setjum á hana fer beint inn í blóðrásina okkar. Það er afar mikilvægt að hafa þetta í huga með litla kroppa en þeir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir eiturefnum þar sem að húðin þeirra er þynnri og búkurinn minni. Það skiptir því máli hvaða föt við klæðum börnin okkar í, hvernig og úr hverju þau eru framleidd. Auk þess skiptir máli hvaða þvottaefni við notum til að þvo barnafötin en ég mæli með því að nota hrein og gæðamikil þvottaefni sem fást m.a. í heilsubúðum landsins. En auðvitað skiptir þetta okkur öll máli, stór og smá.
Hefðbundin bómullarframleiðsla
- Bómullaruppskeran er sú mengaðasta í heiminum
Þó að einungis 2,5-3% af landsvæði jarðar sé notað í bómullaruppskeru er gríðarlega hátt hlutfall af varnarefnum notað á uppskeruna. Bómullaruppskeran er talin vera ein sú mengaðasta í heiminum vegna mikillar notkunar skordýraeiturs sem er skaðlegasta varnarefnið fyrir bæði heilsu manna og dýra. En 25% af því skordýraeitri sem til er í heiminum er notað á bómullaruppskeruna. Fyrir hvert pund af framleiddri bómul þá er notað í kringum 1/3 pund af varnarefnum og tilbúnum áburði. En til að átta sig á því hversu mikið það er þá þarf rétt undir 1 pund af bómul til að búa til stuttermabol. - Umhverfisáhrif vegna hefðbundinar bómullarframleiðslu
Hefðbundin bómullarframleiðsla hefur mjög slæm áhrif á umhverfið. Það er mjög hættulegar vinnuaðstæður fyrir þá sem vinna á lúsarlaunum á bómullarökrunum svo ekki sé minnst á afleiðingarnar af henni fyrir þá sem búa nálægt henni. Mikill varnarefnaúði fer út í loftið sem að fólk andar síðan að sér en úðin getur dreifst í allt að 2 mílur frá uppskerunni. Það þýðir að varnarefnunum sem úðað er á bómullina ferðast yfir á önnur ræktunarlandssvæði og gætu þ.a.l. lent á matnum okkar. - Ósanngjarnar vinnuaðstæður
Samkvæmt WHO deyja 20.000 manns árlega vegna slysa í kringum varnarefni í hefðbundnum bómullarlandbúnaði. Auk þess þjást milljón manns árlega vegna langvarandi eitrunar af völdum varnarefna. Einnig er sjálfsmorðstíðni hjá bómullarbændum há vegna þess hve ósanngjarnar og lágar upphæðir þeir fá fyrir bómullina. Flest föt sem eru búin til úr bómull eru framleidd í fátækum löndum í þrælabúðum þar sem konur og börn eru að vinna langt fyrir neðan lágmarkslaun. - Eiturefni í fataiðnaði
Allavega helmingur þeirra varnarefna sem notuð eru á bómullaruppskeruna hafa verið merkt sem möguleg eða líkleg krabbameinsvaldandi efni. Ekki nóg með að varnarefnum sé úðað á bómullaruppskeruna sjálfa þá eru ýmis önnur eiturefni notuð í fataframleiðslunni sjálfri sem eru þekktir krabbameinsvaldar ásamt því að geta ollið ertingu í húð og augum. Þessi efni, sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér, hindra m.a. að fötin krumpist, mygli, blettir festist og að litir haldist illa.
Innihaldslýsing á fötum
Við erum vön að líta á innihaldslýsingar á matvælum en ættum kannski að vera að gera það á flíkunum okkar líka. Hvaða efni er í fötunum okkar og hversu náttúruleg eru þau? Það sem að bómullin hefur fram yfir gerviefni er að megnið af skaðlegum efnum er fjarlægð úr henni í framleiðslunni. Gerviefni sem notuð eru í fataiðnaðinum innihalda plast og eiturefni sem eru ekki fjarlægð í framleiðslunni. Þessi skaðlegu efni eiga greiðan aðgang í líkamsstarfsemina okkar í gegnum húðina. Eins eru gerviefni sérstaklega óumhverfisvæn þar sem að þau brotna ekki niður í náttúrunni. Þetta hefur slæm áhrif á lífríki jarðar.
Mörg gerviefni eru búin til úr jarðolíu, plasti og öðrum efnum sem hafa verið tengd við innkirtlatruflun, hormónaójafnvægi, og hugsanlega einhverjar tegundir krabbameina. Til að setja þetta í samhengi þá er gott að leiða hugan að öllum vandamálunum sem tengjast almennri plastnotkun og áhrif þess á umhverfið. Ýmindaðu þér að hafa plast upp við líkamann þinn allan daginn, alla daga.
Hvað þýðir að velja föt úr lífrænt vottaðri bómull?
Engin varnarefni, áburður né önnur kemísk efni eru notuð þegar lífræn bómul er ræktuð. Til að bómullin fái lífræna vottun þarf hún að vera í jarðvegi sem hefur verið án skaðlegra efna í a.m.k. 3 ár. Með því að velja flík úr lífrænni bómul ert þú því að taka jákvætt skref fyrir umhverfið, starfsfólkið sem vinnur við ræktunina og þá sem búa nálægt henni. En þegar að þú kaupir flík sem er úr lífrænni bómul ertu þó ekki örugg/ur um að þú sért að kaupa 100% hreina vöru. Þú getur keypt flík sem er úr lífrænni bómul sem hefur verið meðhöndluð með skaðlegum litarefnum eða öðrum skaðlegum efnum í framleiðslunni. Framboð á flíkum úr lífrænni bómul er stöðugt að aukast og þá sérstaklega í barnafatnaði og í sumum tilfellum er þetta því miður sölubrella þar sem að fyrirtækin eru ekki að búa til eins hreina vöru og maður heldur.
Oeko-Tex vottun
Er vottun sem leyfir ekki hundruði skaðlegra efna í fataiðnaði EN fötin þurfa ekki endilega að vera lífræn til að fá þessa vottun. Það þýðir að maður er ekki að koma í veg fyrir að varnarefnum sé úðað á bómullina sem hefur slæm áhrif á umhverfið, fólkið sem vinnur við bómullina og þá sem ganga í henni. Auðvitað er oeko tex vottunin betri en engin vottun en hún er samt ekki besta vottunin þarna úti.
GOTS vottun
GOTS (Global Organic Textile Standard) er aðalvottunin fyrir lífrænan og eiturefnalausan fatnað. Þegar að maður kaupir GOTS vottaða flík getur maður einnig verið öruggur um að starfsfólk vinni við sanngjarnar vinnuaðstæður ásamt því að það fái sanngjörn laun. Eins er dýraníð ekki leyft. Öll GOTS vottuð föt eru merkt með GOTS merkinu og er þetta strangasta og besta vottunin.
Það er að sjálfsögðu dýrara að kaupa gæðavörur sem eru GOTS vottaðar heldur en að fara í H&M. En hvaða framleiðslu vilt þú styðja? Það er ástæða fyrir því að ódýrar skyndifatakeðjur eins og t.d. H&M eru jafn ódýrar og þær eru. Þó að það sé þægilegt fyrir veskið okkar að kaupa gommu af ódýrum flíkum þá er því miður þeir sem unnu að vörunni sem fá að gjalda fyrir það. Það er eins í þessu og öllu öðru, markaðurinn annar eftirspurn kúnnans og því meðvitaðari og kröfuharðari sem neytendur eru, því meiri breyting mun eiga sér stað í iðnaðinum og framboðið á gæðavörum aukast.
Ég hef m.a. séð barnaföt með GOTS vottun í iglo+indi, Petit.is og Lindex.
Hvað með að kaupa notað?
Það er jákvætt fyrir umhverfið að versla sér notuð föt sem eru ekki úr gerviefnum í stað þess að vera stöðugt að kaupa nýjar flíkur. Þannig minnkar maður þörfina fyrir að nýtt efni sé búið til og þ.a.l. framleiðsluna á nýjum flíkum. En best væri náttúrulega að kaupa notaðar flíkur með GOTS vottun til að vera viss um að vera laus við skaðleg efni í fatnaði. En það getur tekið allt að 50 þvotta til að ná öllum skaðlegum efnum úr fatnaði sem er ekki með GOTS vottun.
Það besta fyrir barnið
Það er eitthvað svo brenglað hvað það er margt leyfilegt í fataiðnaðinum sem getur haft skaðleg áhrif á okkur og umhverfið. Það snýst allt um að gera allt á sem þægilegastan og ódýrastan hátt. En með því að neytendur vakni til vitundar og taki meðvitaðar ákvarðanir í fatakaupum mun þetta breytast. Mestu máli skiptir að vera meðvitaður um hvað maður er að kaupa og hvaða framleiðslu maður er að styðja. Það skiptir mig allavega mjög miklu máli að kaupa fáar en endingagóðar og gæðamiklar flíkur á barnið mitt. Í fullkomnum heimi þá myndi ég einungis vilja klæða barnið mitt í GOTS vottuð föt og losa mig við þau föt sem eru ekki með þessa vottun. En ég geng þó ekki alveg svo langt með þetta en mun þó klárlega leggja áherslu á að kaupa GOTS vottuð föt héðan í frá á son minn. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og gerir alltaf sitt besta, meira getur maður ekki ætlast til af sjálfum sér.
-Anna Guðný
No Comments