Elskaðu Húðina

Íslenska snyrtivörumerkið rå oils

Ég er mjög kröfuhörð á snyrtivörur og ber ekkert á mig nema mjög hreinar & gæðamiklar snyrtivörur. Líkt og á matvörum les ég á innihaldslýsinguna á snyrtivörum og vil ég sjá þar fá innihaldsefni sem að ég þekki. En allt sem að við látum á húðina, okkar stærsta líffæri, fer beint inn í blóðrásina sem að hefur að sjálfsögðu áhrif á líkamsstarfsemina okkar. Þegar að ég frétti af íslenska snyrtivörumerkinu rå oils varð ég því eðlilega mjög spennt og er ég mjög hrifin eftir að hafa fengið að prufa nokkrar vörur frá þeim. En vörurnar eru einmitt það hreinar og gæðamiklar að maður gæti þess vegna borðað þær.

Sagan á bak við rå oils

Mæðgurnar Elín og Fríða eru á bakvið snyrtivörumerkið rå oils en þegar að ég heyrði af þessum húðvörum tengdi ég rosalega mikið við söguna hennar Fríðu sem er ástæðan fyrir því að rå oils varð til. En Fríða var búin að vera að glíma við bóluvandamál í langan tíma, eða í rúm 10 ár. Hún prufaði endalaust af húðvörum sem ætlaðar voru til að meðhöndla bólur sem að eru hver annarri dýrari. Einnig fór hún til húðlæknis þar sem að hún fór tvisvar sinnum á mjög sterkan lyfjakúr. Hún reyndi bókstaflega allt og m.a. neitaði hún sér um alla þá fæðu sem mögulega gæti tengst bólum. En þrátt fyrir allt, hurfu bólurnar ekki og Fríða sat eftir með ör eftir lyfin. Þá ákvað Elín, sem að er bæði snyrti – og ilmolíufræðingur, að taka mál dóttur sinnar í sínar hendur og byrjaði að þróa olíu fyrir bólur. Eftir margar tilraunir voru mæðgurnar komnar með lausn við bóluvandamálum Fríðu og var það fljótt að spyrjast út og hafa þessar mögnuðu olíur hjálpað mörgum sem að hafa verið að glíma við ýmis húðvandamál. Í dag eru þær komnar með sitt eigið snyrtivörumerki sem að heitir rå oils og fer vörulína þeirra stækkandi.

Vörurnar eru ekki bara ætlaðar þeim sem eru að glíma við húðvandamál, heldur eru þær með eitthvað fyrir alla. Þar sem að Fríða býr í London ákváðu þær að einblína á markaðinn í Bretlandi en vörurnar eru einnig strax farnar að spyrjast út hérna heima af þeim sem að hafa prufað þær. Ég fæ gæsahúð að lesa yfir sögurnar frá viðskiptavinum þeirra á heimasíðunni, raoils.com þar sem sjá má fyrir og eftir myndir. 

Hvað hafa vörurnar fram yfir hefðbundnar húðvörur?

Vörurnar innihalda hágæða olíur og eru lausar við bæði fylli- og rotvarnarefni. Mæðgurnar vanda mikið valið á olíunum sem að fara í vörurnar og er hver olía valin út frá einstökum eiginleikum þeirra til að meðhöndla ákveðin húðvandamál. Ég elska innihaldslýsingarnar á vörunum, þær eru mjög stuttar og þekkir maður hvert einasta innihaldsefni. Hver vara er blönduð og pökkuð hér á Íslandi af Elínu og eru vörunar því ekki búnar að standa á lager í langan tíma þegar að maður fær þær í hendurnar. Vörurnar eru ekki prufaðar á dýrum og eru vegan. Mæðgurnar versla einnig við birgja sem að hafa umhverfisvæn, siðferðisleg og sjálfbær gildi að leiðarljósi. Ég var einnig sérstaklega ánægð að sjá endurvinnanlegu & umhverfisvænu umbúðirnar sem að eru einnig hugsaðar til að vernda ilmkjarnaolíurnar frá ljósi til að halda í virkni þeirra.

Mín reynsla

Ég hef verið að prufa nokkrar vörur frá rå oils núna og er ég mjög hrifin af þeim. Það sem að ég er þakklát fyrir að svona flottar og gæðamiklar vörur skulu vera framleiddar hér á landi. Það eru algjör forrréttindi. En það sem að kom mér mest á óvart við vörurnar er hve fljótt áhrifin komu fram. Oft er maður að rembast við að prufa nýjar vörur í mánuð eða meira til að sjá einhvern mun en þessar vörur eru mjög öflugar og sá ég strax mun á fyrstu viku. Ég er með frekar blandaða húð og á það til að fá stundum bólur og ákvað því að prufa bóluvörurnar þeirra og ætla ég að deila með ykkur reynslu minni á þeim.

Clear skin cleanser


Ég er algjörlega heilluð af þessum húðhreinsi en maður finnur vel fyrir virkni hans þegar að maður er að maka honum á sig. En hann inniheldur m.a. moringa olíu sem að er þekkt fyrir að vinna á bólum og fílapenslum. Ég elska að setja heitan þvottapoka á húðina eftir að hafa makað hreinsinum á mig og að anda að mér ilmkjarnaolíunum til að hámarka virkni þeirra. Húðhreinsirinn hefur staðið sig vel í að fjarlægja allan farða hjá mér – meira að segja maskara sem er nú ekki alltaf auðvelt að ná af. Þessi húðhreinsir hentar öllum, en er bestur fyrir þá sem eru að glíma við bólur & óhreinindi í húð. Hreinsirinn hentar meira að segja karlmönnum mjög vel þar sem að þeir eru með þykkari húð og virkari fitukirtla.

Rose water mist

Þetta rósavatn finnst mér algjörlega æðislegt og eitthvað sem að er snilld að hafa í veskinu. Ég úða því á mig eftir að hafa hreinsað húðina en einnig finnst mér það frábært yfir farða. Það gefur farðanum fallega áferð ásamt því að halda honum betur yfir daginn. Rósavatnið er mjög frískandi og er því gott að spreyja því á sig til að hressa sig við yfir daginn. Einnig hafa farið góðar sögur af því erlendis í sól þar sem að það gefur húðinni góðan raka sem kemur í veg fyrir að hún brenni. Rósavatnið er 100% lífrænt.

Acne therapy

Þessi olía er algjörlega mögnuð. Hún fer svo vel inn í húðina og er maður alls ekki glansandi feitur eftir að hafa borið hana á sig eins og gerist svo oft með svona andlitsolíur. Mér líður mjög vel í húðinni eftir að hafa borið hana á mig. Acne therapy olían er hugsuð sem bólumeðferð sem að maður notar í ákveðinn tíma til að sigrast á bóluvandamálum en eftir það notar maður hana ekki á hverjum degi. Hver finnur út fyrir sig hversu mikið maður notar hana eftir að maður hefur tekið törn á henni. Sem dæmi væri hægt að nota hana þá 1-3x í viku eða 1x á dag á móti eternal radiance olíunni.

Radiance clay mask

Húðin verður svo mjúk og fersk eftir að hafa notað þennan dásamlega leirmaska en hann gefur bæði fallegan ljóma ásamt því að vera andoxandi. Mesta snilldin við leirmaskann er að maður blandar hann sjálfur með lífrænu rósavatni og getur þ.a.l. stjórnað hversu þykkan maður vill hafa hann. Ástæðan fyrir því að maður blandar maskann sjálfur er til þess að koma í veg fyrir að nota rotvarnarefni eða önnur efni sem sjá til þess að maskinn endist lengi í dollunni. Ég elska að finna fyrir rósaberunum í maskanum en þau eru gróf sem gerir maskann einnig að hinum fullkomna líkamsskrúbb. Maskinn kemur í fallegu pappaboxi og fylgir þessi dásamlega mjúki lífræni þvottapoki með.

Hair serum

Þetta er nýjasta varan frá rå oils og er bara nýkomin á markað. Hair serumið er unnið í samstarfi við Nadiu Jönning sem er mjög flott hárgreiðslukona í London. Þar sem að ég er með mjög þurrt og viðkvæmt hár er þetta hárserum algjör himnasending fyrir mér. Ég set nokkra dropa í endanna eftir sturtu þegar að ég greiði mér og verður hárið alls ekki fitugt af því. Hárið verður mjúkt og vel lyktandi á eftir.

Ég mæli með þessum dásamlegu snyrtivörum af öllu mínu hjarta. En rå oils snyrtivörurnar fást m.a. á raoils.com, beautybox.is, Epal Laugavegi & Hörpu, Alena og Aqua Spa.

Uppfært 9.5.2018

Ég nota vörurnar enn kvölds og morgna og get ekki verið án þeirra. Ég keypti mér eternal radiance olíuna og nota hana á morgnanna en nota acne therapy olíuna á kvöldin. Þessi blanda finnst mér gera húðinni minni ofboðslega gott og líður mér svo vel í húðinni á eftir. Eternal radiance olían er betri en nokkurt andlitskrem sem ég hef prófað og verður maður alls ekki feitur af henni ef maður passar sig að nota ekki of mikið. 

Ég tek það fram að ég myndi aldrei skrifa grein um vörur sem að hafa ekki reynst mér vel. Vörurnar fékk ég að gjöf og fæ ég engar tekjur af því að fjalla um þær.

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply