Elskaðu Húðina

Hreinu snyrtivörurnar frá RMS Beauty

Fyrir nokkrum árum fór ég að finna fyrir einkennum af snyrtivörum. Ég varð þurr, rauð, verkjuð og glansandi í augunum. Þetta leiddi til þess að ég fór að skoða mikilvægi þess að velja hreinar og gæðamiklar snyrtivörur. Á síðustu árum hef ég prufað mörg eiturefnaminni snyrtivörumerki og alltaf stendur vörumerkið; RMS Beauty upp úr. En ég hef notað það í u.þ.b. 5 ár núna. Ég hef bloggað um þær áður en það var orðið löngu tímabært að gera nýja & ferska færslu um þessar mögnuðu vörur.

Af hverju að velja hreinar snyrtivörur?

Það getur verið mikið af kemískum efnum í snyrtivörum. Húðin er stærsta líffærið þitt og það sem þú setur á hana fer beint inn í blóðrásina og hefur þ.a.l. áhrif á líkamsstarfsemina þína. Það er greið leið fyrir kemísku efnin beint úr snyrtivörum og inn í líkama þinn. Það sem þú berð á húðina áttu því alveg eins að geta borðað. Það er meira að segja verra fyrir líkamann að setja eitrið á húðina heldur en að borða það. Við meltum matinn áður en hann fer í blóðrásina en snyrtivörur fara beinustu leið úr húðinni yfir í blóðrásina. Meira um þetta í þessari færslu hér.

Það er ekki nóg að það sé tekið fram framan á umbúðum að snyrtivaran sé lífræn, vegan eða náttúruleg. Það hefur enga merkingu því að það segir ekkert til um hvað sé í vörunni. Ég les því ávallt á innihaldslýsinguna til að sjá hvað er í henni. Þess vegna elska ég vörurnar frá RMS Beauty, þar eru fá innihaldsefni í hverri vöru og allt eru þetta gæða innihaldsefni.

Beauty oil

Þessi andlitsolía er frábær til þess að bera á sig eftir að maður hefur þrifið andlitið sitt á morgnanna og kvöldin. Hún er frábær undir Un cover-up farðann og er alls ekki feit. Ég ELSKA vanillulyktina af henni og gæti þefað af henni allan daginn. Hún inniheldur mjög flott innihaldsefni og finnst mér ég vera að dekra svo vel við húðina mína þegar að ég ber hana á mig.

Un cover-up farðinn

Ást mín á þessum farða er mjög mikil, ég get ekki verið án hans! Það sem ég elska við hann er að maður getur notað hann sem hyljara þegar að maður vill ekki mála sig of mikið. Einnig getur maður sett bara örlítið af honum yfir allt andlitið þegar maður vill bara mjög létta förðun. Svo getur maður sett meira af honum þegar maður vill þekja meira. Maður getur því leikið sér mikið með hann. Best er að byrja að setja lítið í einu og byggja hann þannig upp. Ég nota oftast lit númer 22 en stundum númer 11 þegar harðasti veturinn stendur yfir og sumarbrúnkan er algjörlega horfin. Ég ber hann á mig með skin2skin foundation burstanum sem að inniheldur engin dýrahár. En einnig er hægt að bera hann á sig með fingrunum, ég gerði það áður en að þessi geggjaði bursti bættist við í línuna.

Signature set – pop collection

Þessi pallleta er algjör snilld. Það er hægt að kaupa lip2cheek eina og sér í sömu stærð og un cover-up, en ég hef aldrei náð að klára þá eina og sér. Þeir eru því í fullkomnu magni í pallettunni því að maður nota svo ótrúlega lítið af þeim í einu. Lip2cheek stendur s.s. fyrir að þú getur notað þennan farða á kinnarnar og varirnar. Ég ber þá á með puttunum og dúmpa bara létt í einu og byggi þá þannig upp. Ég nota Buriti bronzerinn (brúna litinn) undir kinnbeinið til að fá smá skyggingu. Svo set ég luminizerinn (ljósa glans) á kinnbeinið þegar ég er að fara eitthvað fínt, það kemur svo fallegur gljái af honum. En þessa 2 liti má líka nota sem augnskugga. Svo nota ég bleika & rauða bæði á varir og kinnar. Neðst er svo virkilega nærandi og góður varasalvi.

Defining Maskari

Það skiptir mig mjög miklu máli að nota hreina maskara. En ég fæ strax einkenni ef ég prufa að nota annan maskara en þennan. Það eru þá sennilega ilmefni eða eiturefni sem að erta augun mín. Ég mæli heilshugar með þessum. Hann greiðir vel úr augnhárunum um leið og hann gerir þau bæði þykk og löng.

Augnskuggar

Loksins eru komnir fallegir eiturefnalausir augnskuggar! Hér áður fyrr þegar að maður var að prufa lífrænar og eiturefnaminni snyrtivörur þá voru litirnir á augnskuggunum alltaf alveg út úr kortinu. RMS Beauty er því algjörir brautryðjendur að mínu mati í að koma með fallega og gæðamikla augnskugga. Ég er búin að prufa þessa litina Garden Rose (GR-13) og Twilight Madness (TM-21) og fíla þá í botn. Mjög gaman að geta notað svona flotta augnskugga þegar að maður fer eitthvað fínt.

Varalitir

Það er dásamlegt að geta keypt svona fallega varaliti sem eru í álumbúðum og því ekki í plasti. Það gerir allavega mjög mikið fyrir umhverfishjartað mitt. En maður fær risastóran valkvíða að skoða litina á varalitunum frá RMS, enda hver öðrum fegurri. Ég nota persónulega mjög sjaldan varalit en ég elska að nota þá þegar að ég fer eitthvað spari.

Ég er svo þakklát fyrir að þessar vörur fáist hér á landi en þær fást allar í íslensku netversluninni mstore.is. Það sem heillar mig rosalega mikið við þessar vörur er hvað maður nær að farða sig fallega á náttúrulegan máta. Mér finnst líka svo skemmtilegt að farða mig með þeim, maður getur leikið sér endalaust. Eins þarf maður alls ekki að eiga margar vörur. Þessar sem ég er að deila með þér í færslunni núna er allt sem maður þarf til þess að nota daglega og einnig þegar að maður vill aðeins fínni förðun við skemmtileg tilefni.

Vörurnar eru því miður ekki merktar vegan vegna þess að það er notað býflugnavax í margar þeirra. En allar eru þær cruelty free sem að skiptir mig miklu máli. Þó að ég sé vegan þá tók ég þá ákvörðun fyrir mig að hvað snyrtivörur varðar þá skiptir það mig öllu máli að þær séu hreinar og gæðamiklar.

Ég þakka mstore.is kærlega fyrir traustið og samstarfið. En ég fékk vörurnar að gjöf fyrir færsluna. Ég vil þó taka það fram að ég myndi aldrei mæla með neinum vörum á síðunni minni sem hafa ekki reynst mér vel. Þar sem að það var mikið basl fyrir mig að finna góðar eiturefnalausar vörur á sínum tíma vil ég deila með lesendum mínum það sem virkar vel fyrir mig.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply