Þegar að ég var nýbúin að komast að því að ég væri með fæðuóþol, þurfti móðir mín aldeilis að taka u-beygju í matarinnkaupunum og versla miklu meira inn af grænmeti, ávöxtum og allskyns hollustu. Þar sem ég var í námi á þessum tíma tók ég lítinn sem engan þátt í matarinnkaupunum og fannst mér alveg ömurlegt að mamma þyrfti að eyða svona mikið í mat útaf mér. Svo þegar ég sjálf var komin með vinnu og fór að kaupa í matinn var ég alltaf jafn grjótpirruð þegar ég kom heim eftir matarinnkaupin.
Af hverju ég? Afhverju þurfti ég að vera með þetta óþol? Af hverju gat ég ekki bara keypt mér núðlur og pasta? Jafnvel tvennutilboð á dominos?
Í dag er viðhorf mitt allt annað, matarinnkaupin eru nr. 1, 2 og 3 í forgangi hjá mér í dag. Ég lít svo á að ég sé að fjárfesta í heilsunni, þú ert það sem þú borðar svo afhverju ætti ég að vilja kaupa mér Cocoa puffs og kexpakka? Ég vil eyða meira í mat og vita að ég sé að gera gott fyrir heilsuna, kaupa inn einungis hreinan mat og ekkert ruslfæði. Ég pæli mjög mikið í innihaldslýsingum á matnum sem ég kaupi og læt vöruna aftur í hilluna ef hún inniheldur E-eitthvað og rotvarnarefni. Ég hef fjarlægt hvítan sykur alveg úr mínu matarræði og það kom virkilega á óvart hvað það er búið að troða sykri í gjörsamlega allt. Því er mjög mikilvægt að maður sé vel á varðbergi til að átta virkilega sig á því hvað þú ert að láta ofan í þig.
Ég hef oft heyrt ,, Anna, ég er ekki með óþol eins og þú. Ég get alveg borðað sykur, mjólk og hveiti”. Já gott og vel, en ertu að gera þér grein fyrir því hversu slæmt það er fyrir líkamann þinn? Það gæti vel verið að þetta fari illa í þig en þú hvorki vilt sjá það né taka eftir því. Þú heldur kannski að þú sért með mígreni, vöðvabólgu, bjúg, verki í liðum eða jafnvel kvef, og við þessu ertu jafnvel að eyða pening í lyf og bryðja í tíma og ótíma. Ég er alveg handviss um að matarræði getur í mörgum tilfellum verið rót ýmissa heilsutengdra vandamála okkar. Ég er nú samt ekki að ráðast á fólk og láta það iðrast þess hvað það er að borða, það er algjörlega ákvörðun viðkomandi og mér ber að virða hana. En ég hef þó fundið fyrir því hvað það pirrar mig mikið að þeir sem eru mér næstir séu að láta ýmislegt óhollt ofan í sig. Ég veit að það er einfaldlega vegna þess hversu mikið mér þykir vænt um viðkomandi, allir í okkar lífi eru til að kenna okkur eitthvað. Ég held að ég sé t.d. í lífi foreldra minna einmit til að fá þau til að átta sig á því hvað hollt matarræði sé mikilvægt.
Þetta er okkar val, þú getur eytt meira í mat og keypt það allra besta fyrir þig og þína heilsu. Þú getur líka látið matarkostnaðinn mæta afgangi og keypt þér núðlur svo þú eigir nóg fyrir víni, djammi, nýjustu fötunum í 17 og allt það flottasta í iittala línunni. Það geta allir keypt hollt í matinn ef þeir vilja, maður þarf bara að skipuleggja matarinnkaupin vel og hafa lífsstílinn sinn í forgangi. Það er komið helling af heilsuvörum í lágvöru matvöruverslanir, t.d. Bónus, Nettó og Krónunni. Vörumerkið H-Berg er sífellt að aukast við sig heilsuvörum eins og t.d. chiafræ, hampfræ og ýmislegt fleira. Því er mikilvægt að festast ekki í sama vörumerkinu og kaupa allt þar því það er svo þægilegt að það sé á sama staðnum. Maður þarf að vera vakandi fyrir verðinu, sumt er ódýrara og betra hjá Himneskt, annað hjá H-berg og sumt í Nettó og sumt í Krónunni. Það sem hækkar matarkörfuna mest hjá mér er þegar að ég ætla að kaupa mér vörur til að búa til hollustunammi, því reyni ég að hafa það sem algjört spari.
Sumt kaupi ég lífrænt, sumt ekki. Ég vil eyða aðeins meira pening í lífræn epli t.d. heldur en að kaupa þau ólífræn og hafa ekki hugmynd um hvað búið er að sprauta á þau. Þar sem við búum á lítilli eyju úti á hafi er ekki besta framboð í heiminum af lífrænum ávöxtum og grænmeti, en þó er úrvalið sífellt að aukast sem ég er gífurlega þakklát fyrir. Það er búið að sprauta svo mikið af eitri á grænmetið okkar og ávextina til að halda þeim sem ”ferskustum” á ferð sinni til landsins. Fæðan okkar í dag er svo miklu meira unnin heldur en t.d. hjá ömmum okkar og afa þegar þau voru ung. Einnig eru lífstílstengdir sjúkdómar sífellt að færast í aukana og held ég að fæðan spili þar eitt af lykilhlutverkum. Við getum fyrirbyggt sjúkdóma og veikindi með því að hugsa um heilsuna NÚNA, valið okkur heilsusamlegan lífsstíl og farið eftir honum.
-Anna Guðný
1 Comment
Amen, systir! Þarna hittirðu naglann á höfuðið vinkona!
Ég, fyrrverandi mesti nammigrís í heimi, er til allrar hamingju með sífellt minnkandi sykurþol og mun vonandi enda svona næstum sykurlaus allavega.
Ást og kærleikur, áfram þú <3