Featured Njóttu Morgunsins

Súkkulaði granóla

Nýtt líf hafði samband við mig í fyrrasumar um að birta nokkrar uppskriftir í blaðinu þeirra. Þau birtu m.a. þessa uppskrift hér eftir mig og er hún of góð til að birta hana ekki líka hér á blogginu. Ég er reyndar búin að breyta henni aðeins og þróa síðan þá. En þetta súkkulaði granóla geri ég mjög oft í tvöföldu magni og geymi í stórri krukku ofan í skúffu. Ég nota það mikið ofan á þeytinga þegar ég borða þá í skál, það er minn uppáhalds morgunmatur í augnablikinu. Hér finnur þú uppskrift af góðum berjaþeytingi sem passar vel með granólanu.

Súkkulaði granóla

 • 200g haframjöl
 • 50g kókosflögur
 • 50 g kasjúhnetur (má sleppa)
 • 50g þurrkaðir bananar (má sleppa)
 • 4 msk kakó
 • 2 msk kókospálmasykur
 • 1 dl kókosolía
 • 100g döðlur
 • 1 tsk möluð vanilla
 • ½ tsk salt
 1. Láttu kókosolíuna bráðna með því að setja krukkuna í skál með heitu vatni.
 2. Blandaðu öllu nema döðlunum vel saman í stórri skál. Mér finnst best að baka döðlurnar ekki svo þær verði ekki grjótharðar. Ég sker þær niður og blanda þeim saman við þegar að granólað er tilbúið og það hefur kólnað.
 3. Settu bökunarpappír á ofnplötu og dreifðu granólanu jafnt yfir hana.
 4. Bakaðu við 150°C í 15 mín. Fylgstu vel með þessu og hrærðu aðeins í þessu eftir 7 mínútur.
 5. Skerðu döðlurnar niður og blandaðu þeim saman við þegar að granólað hefur kólnað.
 6. Granólað geymist við stofuhita í vel lokaðari loftþéttri krukku.

Njóttu vel og lengi <3

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply