Nú er íslenskt grænkál mikið í búðum og er meira að segja lítið mál að rækta það sjálfur ef maður hefur landsvæði til þess. En það er t.d. gott í þeytinginn, í salatið, á pönnu með grænmeti eða sem snakk. Þegar að grænkálið er orðið hálfslappt í ísskápnum er kjörið að dekra aðeins við það og breyta því í gómsætt snakk sem slær alltaf í gegn. Það er hægt að leika sér endalaust með grænkálssnakk og setja saman skemmtileg brögð. Ég ætla að deila með þér minni uppáhaldssamsetningu til þessa og kenna þér um leið grunnaðferðina við grænkálssnakk.
Grænkálssnakk
- 2 msk möndlusmjör
- 1 msk ólífuolía
- 1 msk tamarisósa
- 1/2 msk döðlusíróp
- 1 msk næringarger
- 1 tsk lífr. sítrónubörkur
- Ferskt íslenskt grænkál
- Stilltu ofninn á 150°C við undir og yfir hita með blæstri.
- Byrjaðu svo á því að hræra hráefnunum sem þarf í mareninguna saman.
- Taktu grænkálsblöðin af stilkunum og settu í skál. Reyndu að hafa blöðin í sæmilega stórri stærð og helst öll jafnstór.
- Nuddaðu mareningunni saman við grænkálið. Myndi byrja með lítinn skammt af grænkáli og bæta svo við eftir því sem þér þykir þurfa. Vilt frekar hafa of mikla mareningu á snakkinu frekar en of litla.
- Taktu síðan 2 ofnplötur og settu á þær bökunarpappír. Dreifðu svo úr grænkálinu á þessar plötur og reyndu að hafa það slétt.
- Settu svo plöturnar inn í ofn og fylgstu með grænkálinu. Það fer eftir stærð snakksins hversu lengi það þarf að vera í ofninum en hjá mér var það í u.þ.b. 15-20 mín.
![](https://heilsaogvellidan.com/wp-content/uploads/2019/08/Photo-20-08-2019-12-33-30-1200x800.jpg)
Snakkið er gott eitt og sér en það má líka einnig borða það með mat. Það er gott í salatið, með pasta, á pizzuna eða með hverju öðru sem þér dettur í hug.
![](https://heilsaogvellidan.com/wp-content/uploads/2019/08/Photo-15-08-2019-10-10-52-1-1200x800.jpg)
Þessi færsla er gerð í samstarfi við heildverslunina heilsu
![](https://heilsaogvellidan.com/wp-content/uploads/2019/07/Heilsa-Logo-BW_2-300x95.jpg)
No Comments