Ég ætla að vera dugleg í græna safanum yfir jólahátíðina. Þið haldið kannski að ég sé orðin galin að blogga um grænan safa í desember þar sem allir verða á þeytingi úr einu jólaboðinu yfir í annað. Það er einmitt þá sem maður þarf á græna safanum að halda, til að vera í jafnvægi. Maður þarf hollustu til að vega upp á móti öllu sukkinu sem fylgir jólunum. Ég tala nú ekki um þegar sumir borða mikið af söltu og reyktu kjöti sem gjarnan veldur bjúgmyndun í líkamanum.
Eins og ég hef talað um áður finnst mér ólýsanlega gott að byrja daginn á heimagerðum safa. Best er að hafa hann grænan vegna þess að þá er ekkert verið að rugla í blóðsykrinum okkar. Þessi safi er algjör vítamínbomba fyrir líkamann og manni líður svo vel á eftir. Grænn safi getur verið virkilega góður þegar maður kemst upp á lagið með að búa hann til. Mig þyrstir oft í grænan safa eftir sukkmiklar helgar þar sem maður hefur borðað of mikið af allskyns gotteríi. Þá er um að gera að sporna strax við ósk líkamans og fá sér einn ískaldan grænan safa. Líkaminn er nefnilega sífellt að gefa okkur vísbendingar um hvað hann vill og hvað hann vill ekki. Það borgar sig sko að hlusta á hann áður en það stefnir í óefni. Líkaminn minn er búinn að læra hversu góður grænn safi er fyrir mig því mér líður meiriháttar eftir að hafa drukkið hann. Mér líður eins og hann skoli öllum eiturefnum burt úr líkamanum og ég sé eins og ný á eftir. Ég á ekkert alltaf til allt í safan og er hann þ.a.l. ekkert alltaf rosalega góður, ég drekk hann samt með bestu lyst því ég veit hvaða vellíðan fylgir honum.
- Engiferið hefur marga stórkostlega eiginleika fyrir líkamann okkar; það er gott fyrir meltinguna, bólgueyðandi, gott við kvefi, vinnur á ógleði, dregur úr vindgangi og er hreinsandi.
- Margir fá sér sítrónuvatn í byrjun dagsins og ég hef oft reynt það án árangurs, of súrt fyrir minn smekk. Þess vegna finnst mér mjög gott að troða sítrónu í safan minn og ég set hana án djóks í alla safa sem ég bý til. Sítrónur eru bakteríudrepandi, C-vítamínríkar, hreinsa lifrina og eru þvagræsandi. Einnig eru þær basískar og koma jafnvægi á sýrustigið í líkamanum okkar.
- Grænkál er vinsælt um þessar mundir, sem er ekkert nema gott vegna þess að það er gríðarlega hollt fyrir líkamann. Það er bólgueyðandi, gott fyrir hjartað, járnríkt, andoxunarríkt, inniheldur A-,C- og K-vítamín, hátt í kalsíum og hjálpar líkamanum að afeitra sig.
- Einnig set ég oftar en ekki sellerí í safan minn, fyrst til að byrja með setti ég lítin stöngul og núna er ég alltaf að stækka skammtinn. Mér finnst það orðið mjög gott og gerir safan ferskan og góðan. Það er bólgueyðandi, hjálpar þér að slaka á, er gott fyrir meltinguna og er blóðþrýstingslækkandi o.fl.
Græni góði – fyrir 1
- 1 lúka grænkál
- 3 myntustönglar
- 1/2 lífræn sítróna
- 1 lífrænt epli
- 1/2 gúrka
- 1/2 kúrbítur
- 1-2 cm engifer
- 1 lífrænn sellerístöngull
- Skolið og skerið niður innihaldsefnin. Skellið í safavél eða blandara og síið hratið frá.
- Ég mæli með því að smakka selleríið og engiferið til ef þið eruð óvön því.
- Skellið í flott ílát og hafið nóg af klökum með.
Skál!
No Comments