Njóttu Góðgætis

Sætkartöflu brúnkur

3. desember, 2016

Bloggið, delicouslyella.com, hjá bloggaranum Ellu Woodward er einstaklega fallegt og ekki eru bækurnar hennar síðri. En það er nýbúið að þýða eina af þeim yfir á íslensku sem ber nafnið Ómótstæðileg Ella. Vinsælasta uppskriftin hennar á blogginu eru sætkartöflu brúnkur sem ég hef alltaf verið á leiðinni að prufa. Nú á dögunum birti hún endurbætta útgáfu af þessari uppskrift sem ég ákvað að prufa og er ég ennþá gáttuð hvað þessar dásamlegu sætkartöflu brúnkur eru dásamlega góðar. Það hljómar kannski ekkert sérstaklega vel að troða grænmeti í baksturinn en manni snýst alveg hugur þegar að maður prufar þessa uppskrift sem má upprunalega finna hér.

Sætkartöflu brúnkur

Brúnkur

 • 500g sætar kartöflur
 • 12 döðlur
 • 100g möndlumjöl
 • 100g malað haframjöl
 • 6 msk hlynsíróp
 • 6 msk kakó
 • 2 msk kókosolía
 • smá gróft salt
 1. Byrjaðu á því að kveikja á ofninum, stilltu hann á blástur við 180°C.
 2. Afhýddu síðan kartöflurnar og láttu þær gufusjóða í ca. 20 mín.
  Ef þú átt ekkert til að gufusjóða er líka hægt að setja þær heilar inn í ofn við 180°C í ca. 40 mín eða þangað til þær eru mjúkar í gegn. Þá afhýðir maður þær þegar þær eru bakaðar í gegn – þetta er aðeins meira maus svona en fínasta redding.
 3. Malaðu haframjölið í matvinnsluvél eða blandara og leggðu það til hliðar.
 4. Blandaðu þurrefnunum saman í skál og blandaðu þeim vel saman.
 5. Settu sætkartöflumaukið í matvinnsluvél ásamt döðlunum og láttu það vinna í dágóða stund.
 6. Bættu kókosolíunni og hlynsírópinu út í sætkartöflublönduna. Bættu svo loks þurrefnunum saman við og láttu matvinnsluvélina um að blanda þessu vel saman.
 7. Settu þetta í bökunarpappírsklætt form og bakaðu í 45-50 mín.

Krem

 • 2 msk fljótandi kókosolía
 • 2 msk kakó
 • 2 msk möndlusmjör
 • 1 msk hlynsíróp
 1. Á meðan að kakan er í ofninum er upplagt að gera kremið. Ég setti öll innihaldsefnin í matvinnsluvél og smurði kreminu á þegar að kakan hafði kólnað. Ég sé samt núna að Ella setur kremið í frysti í 15 mín. og síðan í ísskáp í 15 mín. áður en hún smyr því á kökuna svo það stífni aðeins.

Mmm þær eru svo góðar með ískaldri möndlumjólk!

Ég hvet þig til að prófa því að þessi uppskrift kemur svo skemmtilega á óvart.

Njóttu vel!

-Anna Guðný

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply