Það er svo ótrúlega gaman að ferðast til annara landa og máta sig við aðra matarmenningu en hér heima. Bæði til að læra eitthvað nýtt en líka til að leyfa sér að njóta ástríðu annara. Sjálf lifi ég mig svo mikið í gegnum mat að ég held ég gleymi í alvörunni aldrei neinum mat sem ég hef borðað. Ég á það til að hugsa aftur & aftur um einhvern mat sem ég borðaði fyrir mörgum árum síðan. En ég fór til Ítalíu í haust og fékk þar gnocchi sem ég hef einhvernveginn aldrei skilið hvað væri. En þarna var það fáranlega gott, svo ferskt og svo einfalt. Auðvitað hugsaði ég um það aftur & aftur eftir að ég kom heim. Ég lét því verða að því að kaupa glútenlausa gnocchi-ið sem er búið að vera toga í mig við afgreiðslukassan í Melabúðinni í marga mánuði og ákvað að útbúa það með sósu sem er geysivinsæl á Tik-tok og eflaust margir kannast við. En það er ótrúlega einfalt að útbúa hana, þú einfaldlega setur nokkur hráefni í eldfast mót, bakar og blandar það svo með töfrasprota eða litlum blandara/matvinnsluvél.
Sósa
Það sem fer inn í ofn í eldföstu móti við 180°C á undir & yfir hita:
- 400 g kirsuberjaómatar
- 3 hvítlauksrif
- 30 g laukur
- ½ kite hill rjómaostur (keypti í veganbúðinni)
- 1 lúka fersk basil
- Þegar að þetta er orðið vel bakað þá leyfir þú þessu að kólna aðeins.
- Taktu smá af tómötunum til hliðar, ca. 2 msk, til að bera fram með Gnocchiinu
- Maukaðu annars allt hitt ásamt 2 lúkum af ferskri basil með töfrasprota, blandara eða matvinnsluvél.

Svo er bara að sjóða 1/2 pakka af gnocchi, ég keypti mitt glútenlaust í melabúðinni sem kom mjög vel út og var alls ekki slæmt í maga en aðalinnihaldsefnið var kartöflur. Gnocchiið er alls ekki soðið lengi, leiðbeiningar á pakkningu segja nákvæma lengd. Þegar það er klárt þá blandar þú sósunni saman við, berð þetta fram með grænum ólífum, ristuðum furuhnetum og enn meira af ferskri basil ef vill.

Í alvörunni eins einfalt og það er að útbúa þetta, þá er bragðið svo ruglað gott að þetta gæti vel verið flottur réttur í matarboði eða til að njóta yfir hátíðarnar. Mæli svo innilega með að allir prufi og njóti hvers einasta bita með bros á vör og hlýju í hjarta.


Endilega deildu með mér í athugasemd hér fyrir neðan ef þú prufar þessa uppskrift, það væri virkilega gaman að heyra hvað þér finnst um hana 🙂
Ást til þín,
Anna Guðný
No Comments