Njóttu Safa og Þeytinga

Bláberjaþeytingur

12. október, 2015

Nú veit ég ekki hvort að þú hafir náð að byrgja þig upp af bláberjum fyrir veturinn, þau eru svo sannarlega fjársjóður og sífellt erfiðara að finna vegna slæms veðurfars. Ég missti af bláberjatímabilinu heima í ár vegna flutninga svo ég veit ekki hvort það hafi verið góð uppspretta. En síðustu sumur hef ég pínt fjölskyldumeðlimi með mér í berjamó og er ég svo þrjósk að ég neita að fara heim fyrr en ég er komin með ágætan skammt í frystirinn. Það hefur vakið litla kátínu og geri ég ráð fyrir að ég fari eins míns liðs hér eftir. Það sparar heilmikið matarkostnaðinn að eiga lager af bláberjum í frystinum því ég nota þau mjög mikið, m.a. í þeytinga eins og þennan.

Þeytingurinn sem ég ætla að kynna fyrir þér í þetta sinn er bragðgóður og stútfullur af orku. Þennan þeyting fæ ég mér mjög oft því mér líður svo stórkostlega vel á eftir. Hann dugar mér lengi og verður maður þægilega saddur af honum. Líkami minn bósktaflega öskrar reglulega á hann og vantar mig þá greinilega holla fitu í kroppinn, því þeytingurinnn inniheldur hana svo sannarlega.

Holl fita

Það er gömul mýta að fita sé fitandi og er þetta fast í hausnum á mörgum. En fita er ekki það sama og fita. Við þurfum hóflega mikið af hollri fitu sem styður við uppöku og flutning vítamína ásamt því að auka efnaskipti og brennslu í líkamanum. Holl fita er nauðsynleg fyrir sterkt ónæmiskerfi, framleiðslu hormóna, smurningu liða, til styrktar frumuveggja, verndun líffæra og rétta heilavirkni. Heilavirknin þín ræðst mikið af því hversu mikið og hvernig fitu þú ert að borða. Holla fitu má m.a. finna í grænmeti, fisk, hnetum og fræjum.

Kókosolía, eitt af innihaldsefnum bláberjaþeytingsins, eykur m.a. brennslu, er græðandi, gefur manni aukna orku og er góð fyrir húðina. Mikilvægt er að kókosolían sé kaldhreinsuð og lífræn. Hún býr yfir miklum jákvæðum eiginleikum fyrir heilsuna og getur þú lesið meira um það hér ef þú hefur áhuga.

Slæm fita

Fitu sem ber að forðast og er slæm fyrir okkur er transfitan sem er m.a. í sykurríkum vörum. Þá erum við t.d. að tala um skyndibita, bakkelsi og sælgæti sem maður leitar gjarnan í til að fá snögga orku. En í rauninni keyrir þessi fita orkuna þína enn frekar niður. Transfitur mynda bólgur í líkamanum, sem eru m.a. tengdar við hjartasjúkdóma, heilablóðfall og sykursýki. Þær geta skaðað heilsuna þó þeirra sé neitt í litlu magni; fyrir hver 2% af kaloríum frá transfitum sem innbyrt er daglega, aukast líkurnar á hjartasjúkdómi um 23%. Transfitur eru búnar til og þarf líkaminn ekki á þeim að halda í neinu magni, þær má finna á innihaldslýsingum sem herta jurtaolíu. Áhugaverð grein um transfitur hér.

Bláberjaþeytingur                                                                                Uppskrift fyrir 2

 • 1/2 avacado (50 gr)
 • 150 gr frosin bláber
 • 1 msk möndlusmjör
 • 4 brasilíuhnetur
 • 1 msk kókosolía
 • 8 gr kakósmjör
 • 1 msk sítrónusafi
 • 1/2 tsk kanill
 • 1/2 tsk möluð vanilla
 • 70 ml kókosmjólk í fernu
 • 210 ml vatn
 1. Skelltu þessu öllu saman í blandara og helltu svo í tvö glös. Þeytingurinn er langbestur strax, ég mæli ekki með að geyma hann til að drekka síðar.

Njóttu vel <3

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply