Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Bakað eggaldin með unaðslegu pestói

Það þarf ekki að vera flókið að elda góða grænmetisrétti og er mjög auðvelt að útbúa eitthvað fljótlegt og bragðgott. Það er mikið af skemmtilegu hráefni í ísskápnum hjá mér núna eftir að hafa kíkt á rúntinn um daginn og verslað úrvalsgrænmeti beint af býli. Ég keypti t.d. þetta fallega lífræna eggaldin á lífræna markaðinum Engi og er það algjört sælgæti.

Þessi máltíð var gríðarlega einföld ásamt því að vera afar bragðgóð. Eggaldinið var bakað í ofni en það hefði líka verið tilvalið að grilla það. Það var borið fram með grænu pestó, tómatsalsa ásamt snöggstektum sveppum, grænkáli og piparrót. Þetta var hin fullkomna máltíð og var maður pakksaddur á eftir.

Mig langar til að deila með þér uppskrift af pestóinu sem ég gerði en mér finnst það alveg ómissandi á eggaldinið. En auðvitað má nota pestóið á hvað sem er. Ég elska að nota ferskar kryddjurtir og ekki skemmir það fyrir þegar að þær eru íslenskar.

Processed with VSCO with f2 preset

Grænt pestó

  • 100g kasjúhnetur – ristaðar í ofni við 210°C í ca. 7 mín
  • 1,5 dl ólífuolía
  • 65g klettasalat
  • 20g steinselja
  • 15g basillika
  • 1/2 lífræn sítróna – börkur + safi
  • 1 hvítlauksgeiri
  • 1 1/2 tsk salt
  1. Ristaðu kasjúhneturnar í ofni við 210°C í ca. 7 mín. Fylgstu vel með þeim.
  2. Rífðu börkinn af sítrónunni og passaðu að rífa bara efsta lagið af berkinum. Þú vilt bara þetta gula en ekki þetta hvíta.
  3. Að lokum eru öllu skellt saman í matvinnsluvél og látið vinna í dágóða stund þangað til að þetta er orðið fallega maukað saman.
  4. Geymdu pestóið í lokaðri krukku í ísskápnum.

Verði þér að góðu og njóttu vel.

-Anna Guðný

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply