Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Heilsubætandi Miso-súpa

21. október, 2018

Ég fór í 1.skipti á Ramen Momo um daginn og fékk bestu súpu sem ég hef á ævi minni smakkað. Síðan þá hef ég varla getað hugsað um annað en þessa blessuðu súpu og varð ég því að reyna að útbúa mína eigin. Eftir 5 tilraunir er ég loksins sátt og get því deilt með ykkur uppskriftinni þrátt fyrir að hún eigi langt í land með að vera nákvæmlega eins og sú sem ég smakkaði. En þessi súpa er mjög góð, kraftmikil og er akkurat sem að við þurfum núna í haustviðrinu. Hún er stútfull af innihaldsefnum sem hafa heilsubætandi áhrif og efla bæði ónæmiskerfi og meltingu.

Engifer og hvítlaukur eru mikilvæg innihaldsefni í haustmatargerðina en þetta eru innihaldsefni sem hafa mjög góð áhrif á ónæmiskerfið okkar. Eitt skot af lífrænum engifersafa í morgunsárið er t.d. mjög góð leið til að fyrirbyggja pestir. Einnig er mjög gott að lauma hvítlauk í matargerðina þegar það á við. En í þessa súpu notaði ég einnig eitt innihaldsefni sem að býr einnig yfir heilsubætandi eiginleikum. Í súpuna notaði ég misomauk sem að er mitt nýja uppáhalds innihaldsefni til að nota í eldhúsinu. Miso þýðir gerjaðar baunir á japönsku og er miso því búið til úr gerjuðum sojabaunum og korni & er mjög gott fyrir heilsuna. Þekkt er að gerjuð fæða hafi jákvæð áhrif á meltinguna okkar en góð melting er lykilþáttur í því að upplifa andlega og líkamlega vellíðan. Japanir hefja einmitt margir daginn á miso súpu til þess að koma meltingunni af stað og til að fara inn í daginn fullir af orku. Einnig er miso góð uppspretta af ýmsum B vítamínum, E vítamíni, K vítamíni og fólinsýru. Ekki nóg með það heldur inniheldur það allar þær amínósýrur sem að eru okkur lífsnauðsynlegar, en amínósýrur eru byggingareiningar prótína.

Miso-súpa

 • 150 g laukur
 • 250 g sveppir
 • 2 L vatn
 • 6 msk shiro miso
 • 3 msk tamari sósa
 • 3 msk engifersafi
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 tsk harissamauk frá biona
 • 100g pok choi
 • 1 tsk gróft salt
 1. Byrjaðu á því að svissa laukinn í potti með örlitlu vatni.
 2. Bættu svo sveppunum, vatni, tamari sósunni, engifersafanum, hvítlauksrifunum, harissamaukinu og salti saman við.
 3. Þegar að suðan er komin upp lækkar þú hitann á súpunni og leyfir henni að malla.
 4. Þá er gott að taka smá vökva úr súpunni með ausu og hræra misomaukinu saman við hann með písk. Skelltu þessu svo út í súpuna og láttu hana áfram malla þar til að sveppirnir eru tilbúnir.
 5. Ég hvet þig til að smakka súpuna til og bæta t.d. út í hana engiferi, harissamauki og tamarisósu eftir þínum eigin bragðlaukum.
 6. Bættu svo pok choi saman við rétt í lokin áður en þú berð hana fram.

Ég bar súpuna fram með glútenlausum hrísgrjóna núðlum sem ég keypti í krónunni og líta svona út. Ég tek það fram að ég er ekki að auglýsa þessar núðlur. Ég sauð þær sér, skolaði þær með köldu vatni og bar þær fram með súpunni.
Einnig er sniðugt að bera hana fram með nori blöðum, sesamfræjum og vorlauk ef þú vilt hafa hana í algjörri lúxus útgáfu.

Það eru til margar gerðir af misomauki og notaði ég shiro-miso í þessa súpu. Það er milt með smá sætum keim og gerir súpuna svo fallega ljósa á litinn. Það fæst t.d. í heilsuhúsinu.

               Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply