Nú styttist óðum í jólin og eru því margir farnir að leita eftir girnilegum og spennandi smákökuuppskriftum. Ég er ekki mikið fyrir að baka brjálæðislega margar sortir í desember enda vil ég frekar einblína á það að njóta í staðin fyrir að eyða öllum tímanum í eldhúsinu. Einnig er allt í lagi þó að smákökurnar klárist löngu fyrir jól, það verður nóg af öðru til að gæða sér á yfir jólin og enginn hætta á að maður svelti. En ef við komum okkur að máli málanna þá hef ég í mörg ár verið að reyna að fullkomna uppskrift af súkkulaðibitakökum og er ég gríðarlega sátt við útkomuna í ár. Það er svo gaman að gera einhverja árlega uppskrift eins og t.d. súkkulaðibitakökur og sjá hversu mikið maður hefur bætt sig í uppskriftargerð sem nýtist manni til að þróa uppskriftirnar sínar enn frekar. Súkkulaðibitakökurnar eru svo stökkar, bragðgóðar og fullkomnar að njóta með ískaldri heimagerðri möndlumjólk eða heitu súkkulaði. Mmmm!
Ómótstæðilegar súkkulaðibitakökur
- 2 msk möluð chia fræ + 4 msk vatn
- 6 dl haframjöl
- 2 dl möndlumjöl
- 1,5 dl kókospálmasykur
- 1 dl kókosolía
- 2 dl möndlusmjör
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk eplaedik
- 150 ml möndlumjólk
- ¼ tsk vanilluduft
- ½ tsk gróft salt
- 40 g ristaðar kasjúhnetur
- 100 g 70% vegan súkkulaði
- Byrjaðu á því að mala chia fræ í kaffikvörn og hræra vatninu saman við þau í bolla. Settu til hliðar. Það er líka hægt að kaupa þau möluð í Krónunni og Nettó frá merkinu Now.
- Næst skalt þú setja haframjöl, möndlumjöl og kókospálmasykur í matvinnsluvél og láta vinna þar til að haframjölið verður að hveiti.
- Að lokum bætir þú restinni af innihaldsefnunum saman við fyrir utan súkkulaðið og lætur þetta vinna vel saman. Ekki gleyma chiagelinu, skelltu því útí líka.
- Ef að smákökudeigið er heitt skaltu kæla það aðeins áður en þú setur súkkulaðibitana saman við.
- Svo mótar þú bara smákökur með höndunum og setur á bökunarplötu.
- Bakaðu í ofni við 180°C í u.þ.b. 15-20mín. Leyfðu þeim að kólna alveg áður en þú hreyfir við þeim
Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.
No Comments