Njóttu Góðgætis Jólanna

Vegan sörur

Ég gæti skrifað heila bók um það hversu mikið ég elska sörur og hversu stóran part þær spila í jólastemminguna hjá mér. En ég er hæstánægð með útkomuna á sörunum í ár og eru þær dásamlegar á bragðið. Þessi uppskrift er laus við unninn sykur ásamt því að vera glútenlaus og vegan. Það skiptir mig mjög miklu máli að geta notið alls konar góðgætis þrátt fyrir að ég sniðgangi margt í fæðunni. Ég legg mikið á mig að útbúa uppskriftir sem eru lausar við þessu hefðbundnu bökunarefni, ekki bara fyrir mig, heldur fyrir alla þá sem að eru í svipuðum pælingum og ég.

Þar sem að ég er hætt að borða egg þá fór ég að velta fyrir mér hvernig ég gæti gert sörurnar eggjalausar. Í fyrra reyndi ég að útbúa sörubotna úr aquafaba, safan af kjúklingabaunum, í fyrsta skipti og gufuðu þeir bókstaflega upp í ofninum. Ég gafst strax upp og reyndi ekki meira við þá. En í flestum uppskriftum af svona marengsbotnum er notuð unninn sæta eins og t.d. hvítur sykur eða flórsykur. Ég var því algjörlega búin að afskrifa þetta þar sem að ég vildi ekki nota unna sætu. En í ár var ég full af eldmóði að láta þetta ganga og ákvað að prufa að mala döðlusykur í kaffikvörn og viti menn, það tókst. Mér líður svolítið eins og ég hafi unnið í lottóinu, ég er að springa úr gleði yfir að sörudraumurinn minn verði að veruleika í ár.

Í fyrra stóð ég með handþeytara að þeyta kjúklingabaunasafan og er það mögulega ástæðan fyrir því að sú uppskrift fór í ruslið. Það er alls ekki málið að nota handþeytara og missir maður næstum því hendurnar á því að reyna það. Það er því lykilatriði að nota hrærivél í uppskriftina því að það þarf að þeyta kjúklingabaunasafan í dágóða stund. Mér finnst æðislegt að geta nýtt kjúklingabaunasafan í eitthvað svona dásamlega gott eins og sörur en hingað til hef ég alltaf fleygt honum. Það mun ég ekki gera aftur. En ég nota kjúklingabaunir mjög mikið og þá aðallega í hummus.

Það er smá kúnst að gera botnana en það er ekkert mál ef þú lest leiðbeiningar mínar með uppskriftinni. Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að útbúa hana. Aðalmálið er bara að hafa þolinmæði að bíða eftir botnunum í ofninum, en það tekur 2 klst að baka þá. En maður getur útbúið kremið og súkkulaðið á meðan og gert eldhúsið hreint og fínt á meðan.

Vegan Sörur

Botnarnir

  • 1 dl kjúklingabaunasafi
  • 1,5 dl döðlusykur
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 100g hakkaðar möndlur
  1. Byrjaðu á því að þeyta kjúklingabaunasafann í hrærivél. Byggðu hraðan hægt og rólega upp í mesta hraðan og bættu þá vínsteinslyftiduftinu saman við. Þeyttu svo áfram á hæstu stillingu.
  2. Á meðan getur þú undirbúið bökunarplöturnar með því að setja á þær bökunarpappírinn og kveikt á ofninum. Stilltu hann á blástur og settu hitann á 100 gráður.
  3. Malaðu síðan döðlusykurinn í kaffikvörn þar til hann er orðin að dufti.
  4. Þegar að kjúklingabaunasafinn er orðinn stífur þá bætir þú döðlusykrinum rólega út í hrærivélaskálina með því að setja 1 msk í einu og hefur hrærivélina á aðeins minni hraða á meðan.
  5. Því næst bætir þú möndlunum saman við mjög varlega með sleif.
  6. Svo setur þú deigið á bökunarplötuna með tveimur teskeiðum. Það þarf ekkert að vera svo mikið pláss á milli þar sem að botnarnir fletjast ekki mikið út. Bakaðu botnana í 2 klst – ég mæli með að stilla klukku svo þú steingleymir þessu ekki. Leyfðu botnunum svo að kólna alveg í ofninum.
  7. Á meðan að botnarnir eru í ofninum er gott að gera súkkulaðið og kremið þar sem að það þarf bæði að kólna áður en þú lætur það á sörurnar.

Kakó&kaffikrem

  • 2 dósir biona kókosmjólk,
    notar bara þykka hlutan – ekki vatnið (kæld fyrir notkun)
  • 150g kasjúhnetur (lagðar í bleyti )
  • 1/2 dl kókosolía, bráðin
  • 80 ml hlynsíróp
  • 1/2 dl hrákakó
  • 3 msk sterkt uppáhelt kaffi (má sleppa, smekksatriði)
  • 1/4 tsk gróft salt
  1. Kremið krefst smá undirbúnings. Settu kókosmjólkina í ísskáp yfir nóttu eða í frystin í klst ef að þú hefur lítinn tíma. Einnig er betra að leggja kasjúhneturnar í bleyti yfir nóttu.
  2. Settu öll innihaldsefnin saman í blandara og láttu hann vinna í dágóða stund, eða þar til kremið er orðið að silkimjúkri blöndu og þú finnur ekki fyrir kasjúhnetunum.
  3. Settu kremið í frystirinn þar til að það verður að þykkt og stíft, þá má færa það yfir í ísskápinn. 
  4. Þegar að kremið hefur stífnað skalt þú smyrja því á kökurnar með hníf eða pönnukökuspaða.
  5. Settu kökurnar út í frostið ef þú getur, eða í frystirinn, í smástund áður en þú ætlar að súkkulaðihjúpa þær.

Súkkulaðihjúpur

  • 70 ml kókosolía
  • 30 ml kakósmjör
  • 1 dl hrákakó
  • 50 ml hlynsíróp
  • 1/2 tsk vanilla
  • smá gróft salt
  1. Bræddu kakósmjörið og kókosolíuna. Hrærðu síðan öllum innihaldsefnunum vel saman.
  2. Leyfðu súkkulaðiblöndunni að kólna vel áður en þú setjur hana á sörurnar. Ef súkkulaðiblandan er of heit þá rennur hún auðveldlega af og þá sést í kremið.
  3. Dýfðu sörunum ofan í súkkulaðið og láttu súkkulaðið hylja kakókremið. Mér  finnst best að dýfa en sumir setja súkkulaðið á með skeið. Frystu kökurnar aftur.
  4. Settu sörurnar í flottan dall og láttu bökunarpappír á milli laga. Geymdu þær síðan í frysti.
    Gott er að leyfa þeim að standa aðeins (15 mín ca.) á borðinu áður en maður borðar þær.

Með von um að þú eigir gleðileg jól

-Anna Guðný

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply