Ég elska að útbúa mat í stórum skömmtum og nýta afganganna á skemmtilegan hátt. Oftar en ekki koma afgangarnir sér mjög vel þegar að maður á annríkt eða þarf að vera á ferðinni, þá er maður kominn með auðvelt nesti án fyrirhafnar. Afgangar þurfa nefnilega alls ekki að vera eitthvað óspennandi, mér finnst þeir oftast miklu betri en upphaflega máltíðin. Það er svo auðvelt að dekra við þá og setja þá á allt annað stig. Eitt sem að ég geri mjög oft er að nýta afgang af hafragraut, en ég virðist alltaf gera of mikið af hafragraut. Þessi uppskrift sannar það að afgangar geta breyst í hið í besta gúmmelaði á örskömmum tíma með réttum hráefnunum. En þessi grautur og þessi samsetning er eins og eftirréttur, samt inniheldur hann enga sætu né óhollustu.
Möndlusmjörsgúmmelaði
- 1,5 msk möndlusmjör
- 3 msk kókosolía
- örlítið salt
- Láttu heitt vatn renna á kókosolíukrukkuna.
- Hrærðu öllum inniheldsefnunum saman með gaffli í bolla.
- Settu gúmmelaðið rétt í botninn á krukkunum, skiptu því jafnt á milli.
Kaldur hafragrautur með sítrónu og vanillu
- 250 g afgangur af hafragraut
- 1/2 dl möndlumjólk (eða önnur plöntumjólk)
- 1/2 dl kókosmjöl
- 1 msk chiafræ
- 1/3 tsk vanilluduft
- 1/2 tsk rifinn börkur af lífrænni sítrónu
- Gættu þess að hafragrauturinn sé kaldur.
- Hrærðu öllum þessum innihaldsefnum saman með písk í þægilega stóra skál.
- Settu grautinn í krukkurnar ofan á möndlusmjörsgúmmelaðið.
Skreyttu svo með frosnum berjum, ég notaði hindber og bláber sem passa rosalega vel við bragðið á sítrónuberkinum í grautnum.
Krukkur eru ekkert tískuæði heldur frábær leið til þess að geyma afganga því að þær eru loftþéttar og mun matvaran því ekki missa sjarmann sinn né gæði. Ég hvet þig til þess að fríska upp á gamlar krukkur með því að leggja þær í bleyti og nudda límmiðann af þeim. Þær eru frábærar til þess að skella grautum sem þessum í og til að grípa síðan með sér í nesti. Eins nota ég oft glerflöskur undir þeytinga til að grípa með mér í nesti ef ég er að fara eitthvað út af heimilinu.
Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.
No Comments