Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Yljandi vetrarsúpa

Þegar að það er orðið bókstaflega ískalt í veðri og maður leitar meira í heitan mat, þá er þessi súpa hér skotheld. Það er einfalt að útbúa hana , hún er stútfull af heilnæmri næringu og er auk þess virkilega góð. Það er eitthvað við það að skella sér í hlýja sokka, fá sér heita súpu með góðra vina hópi og hlusta á kósý tónlist í leiðinni. Mjög mikið ,,hygge“ eins og daninn segir.

Uppskriftin er alls ekki heilög og ég hvet þig til að nota þau hráefni sem þú átt hverju sinni. Það er hægt að nota hvaða kryddjurtir sem er og það væri hægt að leika sér með hvaða grænmeti sem er líka. Þessi uppskrift er aðallega til að sýna þér hversu einfalt það er að útbúa súpu án mikillar fyrirhafnar.

Hraustleg haustsúpa

  • 120 gr laukur
  • 300 g kartöflur
  • 200 g gulrætur
  • 200 g sætar kartöflur
  • 150 g brokkolí
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 lúka ferskur timían
  • 1 lúka fersk steinselja
  • 4 msk hýðishrísgrjón
  • 1,2 l vatn
  • 1,5 msk miso mauk*
  • 2 msk tamarisósa
  • 1 cm ferskur engifer
  • salt
  • pipar

Svona gerir þú:

  1. Byrjaðu á því að skera niður öll hráefnin sem þarf að skera niður.
  2. Hitaðu svo laukinn með smá salti í potti og örlitlu vatni. Leyfðu honum að eldast aðeins á meðalhita. Bættu svo kartöflunum og gulrótunum saman við. Bættu við smá salti í viðbót og leyfðu þessu að svitna aðeins með lauknum. Ef þetta er að festast við þá skvettiru smá vatni út í.
  3. Passaðu þig að salta ekki of mikið til að byrja með, bættu frekar við salti seinna því að það er líka mikið saltbragð af miso maukinu og tamari sósunni.
  4. Bættu hvítlauknum, kryddjurutunum, miso, engifer og pipar saman við.
  5. Því næst mátt þú bæta vatninu saman við og skella hýðishrísgrjónunum út í líka.
  6. Að lokum bætir þú brokkolíinu út í.
  7. Leyfðu þessu svo að malla og smakkaðu til með salti og pipar.

    *Misio mauk fæst m.a. í veganbúðinni, melabúðinni og heilsuhúsinu.

Það sem mér finnst mjög sniðugt að gera með súpur eins og þessa er að gera stóran skammt í einu og eiga hana til að hita upp í hádeginu eða jafnvel kvöldmatinn aftur næsta dag. Svona súpur eru alltaf svo miklu betri daginn eftir þegar súpan hefur tekið inn allan kraftinn úr jurtunum, grænmetinu og kryddunum. Þannig það er alls ekki vitlaust að skella í hana eitt kvöldið og þá er maður með kvöldmatinn næsta dag kláran án þess að hafa mikið fyrir því.

Súpan var borin fram með ekta súrdeigsbrauði frá The Cooco’s Nest, en það er eitt af fáum brauðum sem að ég mæli virkilega með. Við settum grænt pestó á brauðið og passaði það fullkomlega með súpunni.

Njóttu í botn elsku gullmoli!

Ást,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply