Njóttu Safa og Þeytinga

Grænn & frískandi

Það er mikilvægt að huga vel að því að fá nóg af grænni næringu allt árið um kring. Á kaldari mánuðunum hér heima þá minnkar löngunin gjarnan í fersk salöt og þá er bráðsnjallt að setja salatið sitt í frískandi drykki og fá það inn í kerfið sitt þannig. Regluleg neysla á grænum káltegundum er talið hafa jákvæð áhrif á ónæmiskerfið og minnka eða koma í veg fyrir bólgur í líkamanum. Mér persónulega finnst mjög gott að gera mér græna drykki reglulega en ég finn að það frískar mig ekki bara við heldur fær það mig líka til að velja hollari fæðu yfir daginn og hugsa betur um mig.

Grænir drykkir þurfa alls ekki að vera bragðvondir og alls ekki eitthvað sem maður ætti að vera að pína ofan í sig. Það er mjög skemmtilegt að gera sér bragðgóða drykki út frá þeim hráefnum sem maður á til hverju sinni. Ég ætla að deila núna með þér uppskrift af einum grænum & frískandi sem er það þunnur að hann er í raun eins og grænn safi. Sem er algjörlega upplagt til að gera ef maður á ekki safavél og langar kannski í smá hressingu en ekki mikla fyllingu eins og þegar maður gerir grænan þeyting sem inniheldur meira af hráefnum og er þá þykkari.

Uppskrift

 • 5 dl kalt vatn
 • 1/2 lúka frosinn ananas
 • 1 lúka ferskt spínatkál
 • 1/4 gúrka
 • 1-2 cm ferskur engifer, helst lífrænn
 • 1/4 lífræn sítróna (nota börkin líka)
 1. Skelltu öllum hráefnunum saman í blandara þangað til að þú allt er vel blandað saman.
 • Ef þú notar ekki lífræna sítrónu endilega taktu börkinn þá af.
 • Ef þú notar ferskan ananas endilega skelltu þá klökum í drykkinn.
 • Ef þig langar í meira sætt bragð þá getur þú sett meiri ananas, ferska döðlu eða jafnvel frosinn banana.
 • Ef þig langar að fá meiri fyllingu þá er mjög sniðugt að setja 1/4 af avacado í drykkinn.
 • Ég mæli með að nota eins mikið og þú getur af engiferi, en endilega smakkaðu það til. Engifer hefur mjög góðan ávinning fyrir heilsuna sem ég mæli mikið að þú kynnir þér og finnir áhrifin á eigin heilsu. Lífrænan engifer kaupi ég í frú Laugu eða Nettó.

Ef það verður afgangur af drykknum er mjög sniðugt að setja hann í stál-/glerflösku og njóta seinna sama dag eða næsta morgunn. En drykkurinn er að sjálfsögðu langbestur nýlega eftir að þú býrð hann til. Mér finnst hann mjög góður til að vekja mig í upphafi dags en það má auðvitað njóta hans hvenær sem er yfir daginn.

Ég skora á þig að prufa að útbúa þennan drykk fyrir káta krakka og leyfa fólkinu í kringum þig að smakka. Það má einnig frysta drykkinn í íspinnaformum og þá er maður kominn með græna frostpinna.

Njóttu í botn elsku gull, það væri gaman að heyra frá þér ef þú prufar að útbúa þessa dásemd og hvernig þér fannst uppskriftin.

Ást & hlýja,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply