Ég gerði hnetusmjörskúlur um jólin og notaði þessa uppskrift hér. Nú erum við systur aðeins búnar að betrumbæta þessa uppskrift þar sem þessar kúlur þóttu of þurrar á heimilinu.
Við systur erum duglegar að deila uppskriftum með hvor annarri. Á meðan ég hef allt hárnákvæmt og skrifa niður hlutföllin á meðan ég geri uppskriftina þá er hún öll í dassinu og slumpinu. Hún sagði mér að hún hafi búið til svo ótrúlega gott hnetusmjörsnammi út frá detoxinista uppskriftinni að það væri ekki hægt að láta það í friði. Ég, í öðru landi, var auðvitað ótrúlega forvitin um uppskriftina og reyndi ég að gera mitt besta eftir slump og dass uppskrift systur minnar. Hér er þetta komið í hárnákvæmt form og vona ég að þetta sé eitthvað í líkingu við það sem systir mín gerði. Þessir eru allavega hrikalega góðir, þó ég segi sjálf frá.
Þetta nammi er upplagt sem laugardagstrít! Þó þetta sé nammi í hollari gerðinni er það samt langt frá því að vera hollt. Þetta er einfaldlega bara skárra en margt annað. Það er sykur í þessu þó það sé ekki hvítur sykur, hunang er bara minna unnið og náttúrlegra en hvíti sykurinn. Ég kýs að nota hunang í þessari uppskrift einmitt vegna þess að það er minna unnið en hvíti sykurinn og maður þarf ekki eins mikið af því. Ég persónulega fæ svakaleg óþolsviðbrögð af hvíta sykrinum og þoli ég hunangið mun betur. Ef við borðum of mikið af sykri sest hann utan á okkur í formi fitu sama hvort sem það er ávaxtasykur, hrásykur, hvítur sykur, kókospálmasykur eða hunang.
Ómótstæðilegir hnetusmjörsbitar – 30 stk.
Hnetusmjörsfylling
- 1 bolli gróft hnetusmjör frá himneskt
- 1 msk hunang (má sleppa)
- 4 msk fljótandi kókosolía
- 3 msk kókoshveiti
- ¼ tsk vanillaAllt sett í blandara/matvinnsluvél
- 40 g grófmalaðar möndlur (má sleppa – hafði þær bara til að hafa þetta extra crunchy- smekksatriði)
- Hrærðar saman við hnetusmjörsblönduna með sleif
- Settu hnetusmjörsfyllinguna á ofnplötu með bökunarpappír á. Ég notaði 2 teskeiðar og bjó til kúlur með þeim. Ef þið elskið að dunda ykkur þá kemur einnig vel út að búa til kúlur með höndunum.
- Ég setti plötuna svo bara út á svalir í snjóinn og þegar þetta var orðið vel hart og kalt þá var hægt að fara að hjúpa þetta. Ef snjórinn og svalirnar hafa svikið þig þá getur þú að sjálfsögðu bara skellt þessu í frystinn í hentugu íláti.
Súkkulaðihjúpur
- 125 ml kókosolía
- 50 ml kakósmjör
- 150 ml kakó
- 70 ml hunang
- 1/2 tsk vanilla
- ¼ tsk salt
- Bræddu kókosolíuna og kakósmjörið yfir vatnsbaði eða skelltu því í vel lokaða krukku og settu í heitt vatn í vaskinum.
- Hrærðu restinni varlega saman við og leyfðu súkkulaðihjúpnum að kólna.
- Það skiptir máli hversu þykkur súkkulaðihjúpurinn er. Því heitari sem hann er því þynnri og þá verður hann gegnsær og rennur auðveldlega af hnetusmjörsfyllingunni. Því er gott að þegar þetta er orðið kalt að prufa að dýfa einni ískaldri hnetusmjörsfyllingu í súkkulaðihjúpinn. Ef hjúpurinn lekur auðveldlega af og er gegnsær þá skaltu setja hann í ískápinn eða frystinn í smá stund.
- Fylgstu vel með hjúpnum og hrærðu í honum reglulega. Prufaði síðan aftur að dýfa í einni hnetusmjörsfyllingu þangað til þú ert sátt með útkomuna.
- Ef þú ert búin að kæla súkkulaðihjúpinn of lengi þá setur þú heitt vatn í vaskinn og tappan ofan í. Láttu skálina aðeins í vatnið bara í ca 10 sek og hrærir í á meðan. Þá bráðnar hann strax og þynnist.
- Þegar hjúpurinn er komin í rétta þykkta þá dýfir þú hnetusmjörsfyllingunni ofan í súkkulaðihjúpinn með gaffli og lætur þetta svo á bökunarpappírinn. Þegar allt er hjúpað og fínt skaltu setja þetta aftur inn í frysti. Bitarnir eru bestir beint úr frystinum.
Verði þér að góðu!
-Anna Guðný
No Comments