Góðgætis

Twix í hollari búning

19. desember, 2016

Ef ég mætti ráða þá væru allir dagar nammidagar en það er búið að vera svolítið svoleiðis fílingur á heimilinu í fæðingarorlofinu, það eru allir dagar laugardagar hjá okkur. Þar sem að ég sniðgeng unninn sykur (eins og t.d. hvítan sykur og hrásykur), glúten og mjólkurvörur – þá bý ég til mitt eigið nammi til að eiga þegar að mig langar í nammi. Auðvitað er það nammi ekki hollt sem slíkt og á að borða í hófi líkt og annað nammi. En kosturinn við að búa til sitt eigið nammi er að maður veit nákvæmlega hvað maður er að láta upp í sig. Þá er maður laus við öll þau aukaefni sem eru í ”venjulegu” nammi. Þannig að þegar að maður gerir sitt eigið nammi er það að sjálfsögðu hollara en það sem maður kaupir tilbúið. Það inniheldur þó oft fleiri hitaeiningar – enda er mikið af hnetum notuðar í hollustunammi. En ég pæli aldrei í hitaeiningum, tel þær ekki og mun aldrei gera. Aðalatriðið hjá mér er að borða hreina og holla fæðu sem mér líður vel af.

Ég er alltaf að útbúa eitthvað góðgæti til að eiga í frystinum en ekkert hefur klárast jafn hratt og þessi gómsætu twix sem ég bjó til um daginn. Botninn er stökkur eins og kex, karmellan er ”chewy” eins og alvöru karmellur eiga að vera og súkkulaðið setur algjörlega toppinn yfir i-ið. Upprunalega uppskriftin er ekki frá mér heldur má hana finna hér. Það er algjör snilld að vafra reglulega um pinterest til að detta niður á frábærar uppskriftir og fá nýjar hugmyndir. Það kom sér allavega mjög vel í þetta skiptið þegar að sykurpúkinn gerði vart við sig og ég sá þessa girnilegu uppskrift á pinterest hjá mér.

Twix

Botn

 • 5 dl haframjöl
 • 1 1/2 dl kókoshveiti
 • 1 dl kókosolía, brædd
 • 1/2 dl hunang
 • 1/2 tsk möluð vanilla
 • 1/8 tsk salt
 1. Byrjaðu á því að bræða kókosolíuna – mér finnst best að setja lokaða krukkuna bara undir heitt vatn í vaskinum.
 2. Malaðu haframjölið í matvinnsluvélina þangað til það hefur orðið að hálfgerðu ”hveiti”.
 3. Blandaðu öllum innihaldsefnunum varlega saman í skál.
 4. Þjappaðu deiginu niður í bökunarpappírsklætt form. Bakaðu í 12 mínútur við 180°C.

Þegar að botninn hefur kólnað er komið að því að gera karmelluna.

Karamella

 • 1 1/2 dl kókosolía, brædd
 • 1 1/2 dl möndlusmjör
 • 1/2 dl hnetusmjör
 • 1 1/4 dl hlynsíróp
 • 2 tsk vanilla
 • 1/4 tsk salt
 1. Skelltu öllum innihaldsefnum saman í matvinnsluvél/blandara og settu karmelluna ofan á kaldan botninn.
 2. Settu þetta nú inn í frysti þangað til að karmellan er orðin frosin.

Súkkulaði

 • 1 dl kókosolía, brædd
 • 1 dl kakó
 • 1/2 dl hunang
 • 1/6 tsk salt

Þú ræður hvort að þú skerð þetta niður í bita þegar að karmellan er frosin og súkkulaðihúðar bitana eða hvort þú hafir súkkulaðið sem topplagið á þessu.

 1. Hrærðu öllum innihaldsefnunum saman.
 2. Ef að þú ætlar að súkkulaðihúða bitana skaltu láta súkkulaðið kólna aðeins áður en þú byrjar að húða. Hrærðu vel í því milli bita svo að hunangið skilji sig ekki frá.

Þú getur notað þá sætu sem þú kýst og þér líkar best við í uppskriftina. Þú getur t.d. notað hlynsíróp eða kókossíróp í staðin fyrir hunangið.

Njóttu vel!

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply

Vantar þig hugmyndir að hollum og bragðgóðum mat?

Þá er rafræna uppskriftarbókin mín eitthvað fyrir þig og þú getur skoðað hana í hvaða tæki sem er. Í uppskriftarbókinni eru hugmyndir fyrir allar máltíðir dagsins ásamt ýmsu girnilegu góðgæti.

Uppskriftirnar eru vegan, glútenlausar og lausar við unna sætu.

Verslaðu bókina hér