Njóttu Góðgætis

Páskakakan í ár

Ég elska að leika mér að útbúa hrákökur í eldhúsinu og fá útrás fyrir sköpunarkraftinum í leiðinni. Það er hægt að leika sér endalaust með hrákökur og láta allskonar skemmtilegar bragðtegundir koma saman. Eins er mjög skemmtilegt að leika sér að skreyta þær og skemmtilegast af öllu er að deila sköpun sinni með öðrum. Því ætla ég að deila með þér uppskrift af hráköku sem á eftir að slá í gegn um páskana.

En byrjum á byrjuninni.

Hvað er hrákaka?

Hrákaka er s.s. kaka sem að er ekki bökuð heldur er hún í staðin oftast sett í frysti. Þær hrákökur sem að ég útbý eiga allar það sameigilegt að innihalda aðallega kasjúhnetur og eru þær því mjög saðsamar. Það er að mínu mati mesta snilldin; að upplifa það að finna fyrir seddutilfinningu eftir köku. Það er því engin hætta á að maður borði yfir sig og getur maður notið hvers bita fyrir sig vel & lengi.

Uppskrift

Botn

 • 125 g döðlur
 • 100 g haframjöl
 • 125 g kókosmjöl
 • 1,5 msk kókosolía
 • Gróft salt
 1. Ef að döðlurnar eru harðar þá mæli ég með því að leggja þær í bleyti áður en þú notar þær.
 2. Skelltu svö öllum hráefnunum í matvinnsluvél þar til að þetta er orðið blandað vel saman.
 3. Þjappaðu botninum niður í smelluform og skelltu honum í frysti.

Grunnur að lagi 1 & 2

 • 400 g kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
 • 2 dósir af coconut cream (fæst í veganbúðinni)*
 • 3/4 dl kókosolía
 • 3/4 dl hlynsíróp
 • gróft salt
 1. Skelltu öllum hráefnunum saman í blandara og blandaðu þar til að blandan er alveg silkimjúk.

Hvítsúkkulaðilag

 • 3/5 hluti af grunnlagi
 • 2 msk kakósmjör (bráðið)
 • 1/2 tsk vanilluduft
 1. Taktu 3/5 hluta af grunnlaginu og settu í skál.
 2. Bræddu kakósmjör í potti og hrærðu því ásamt vanilludufti saman við grunnlagið með sleif.
 3. Taktu botninn úr frysti og helltu hvítsúkkulaðilaginu yfir botninn.
 4. Settu formið aftur í frysti.

Sítrónu & mangólag

 • 2/5 grunnlag
 • 400 g frosið mangó
 • Börkur af 1 lífrænni sítrónu
 • Safi úr 1/2-1 sítrónu (fer eftir stærð, gott að smakka til)
 • 2 msk hlynsíróp
 1. Hafðu ennþá 2/5 af grunnlaginu í blandarakönnunni.
 2. Bættu frosnu mangói, sítrónuberki, sítrónusafa og hlynsírópi saman við og blandaðu þar til að þetta er orðið alveg silkimjúkt og fallega gult.

*Ef þú finnur ekki coconut cream sem að er í grænu dósunum á myndinni hér að neðan, þá getur þú notað hefðbundna kókosmjólk en bara hellt vatninu af. Þú notar s.s. bara þykka kremaða hlutan og þá er best að kæla dósina áður en þú notar hana til þess að þykka sé búið að skilja sig frá vökvanum. En þessi vara frá vegan búðinni er algjör snilld því þá getur þú skellt þessu strax saman við og ert 100% örugg/ur um að fá þykkt kókoskrem. Maður lendir nefnilega stundum í því með venjulega kókosmjólk að það sé ekki auðskiljanlegur þykkur partur þó maður kæli.

Færslan var gerð í samstarfi við veganbúðina en þar er að finna bókstaflega allt sem að þú þarft til þess að búa til eitthvaðskemmtilegt í eldhúsinu. Í frystikælinum þeirra má m.a. finna frosið mangó og átti ég erfitt með að mynda það því að það er fáranlega gott að borða það frosið.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply