Þegar ég og kærasti minn, Snorri vorum á flakki um heiminn síðastliðið vor þá fengum við æðislegan hrísgrjónarétt eftir að hafa gengið um í hitanum á phiphi eyjum í leit að gistingunni okkar. Ég var ekki sérstaklega hrifin af tælenska matnum svona almennt en þessi réttur á alltaf sérstakan stað í hjarta mínu. Mig langaði svo ótrúlega mikið í þennan rétt um daginn að ég ákvað að reyna að búa hann til og kom það bara mjög vel út. Ég ætla því að deila uppskriftinni með þér og vona að þú njótir góðs af.
Kínóagrænmetisréttur í ananasskál Fyrir 2-3
- 100g kínóa
- 1/2 chilli
- 50 gr vorlaukur (2 stilkar)
- 1 rauðlaukur
- 2 hvítlauksrif
- 2 msk tamarisósa
- 3 msk limesafi
- 1 tsk karrý
- 1/2 tsk túrmerik
- 1/2 tsk salt + pipar
- 100g sveppir
- 1 rauð paprika
- 70g kasjúhnetur
- 200g gulrætur/sæt kartafla
- 1 lúka af lífrænum ljósum rúsínum
- 200g ananas
- Ferskt kóríander
- Byrjaðu á því að skera niður sætu kartöfluna/gulrætur í litla teninga og baka þá í ofni við 180°C.
- Næst skalt þú sjóða kínóað í potti; settu 100g af kínóa og settu í pott ásamt 2,5 dl af vatni. Saltaðu og pipraðu. Þegar að suðan er komin upp slekk ég á hellunni en hef pottinn áfram á henni og hef lokið á. Gott að hræra af og til í svo að kínóað brenni ekki við pottinn.
- Skerðu niður restina af grænmetinu og hafðu það tilbúið áður en þú ferð að elda það.
- Ef þú ætlar að bera réttinn fram í ananasskál skalt þú græja hann áður en þú ferð að elda. Mjög sniðugt myndband hér til þess að sjá hvernig maður gerir það.
- Byrjaðu á því að steikja chilli, vorlauk, rauðlauk og hvítlauksrif á pönnu upp úr steikingarólífuolíu eða kókosolíu.
- Bættu tamarisósu, limesafa, karrýi, túrmeriki, salti og pipar saman við.
- Næst skalt þú setja paprikuna, sveppina og kasjúhneturnar saman við.
- Næst bætir þú kínóanu saman við ásamt, sætu kartöflunum/gulrætunum, rúsínunum og ananasnum. Blandaðu þessu vel saman á pönnunni.
- Þá er komið að því að skella þessu í ananasskálarnar eða gera eins og ég gerði, notaði einn ananas undir allan réttinn og bar fram með skeið. Síðan fékk hver og einn sér á sinn disk. En það er líka hægt að skera ananasinn í tvennt og nýta hann sem tvær skálar.
- Borið fram með fersku kóríander.
Þá er ekkert annað eftir en að njóta, verði þér að góðu.
Ást og friður,
-Anna Guðný
No Comments