Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Einföld og fljótleg máltíð

19. júní, 2017

Það þarf ekki að vera neitt merkilegt og flókið í kvöldmatinn. Það má alveg útbúa eitthvað fljótlegt og þægilegt sem er gott. Maður heldur svo oft að maður þurfi að hafa svaka hugsun á bakvið kvöldmatinn og mikil vinna. En fyrir mér er eina markmiðið með kvöldamatnum að fá inn holla og góða næringu. Þar sem að ég hef ekki alltaf mikinn tíma til að útbúa kvöldmat þá finnst mér voða gott að henda í fljótlega og holla máltíð sem þessa. Ég ýminda mér að það séu fleiri þarna úti sem vilja hugmyndir að fljótlegum, bragðgóðum og hollum kvöldmat svo að ég ætla að deila þessu með þér. En ég geri mér þennan kvöldmat vandræðalega oft og finnst mér hann alltaf jafn góður.

Quinoa

 • Ég sauð kínóa í potti; 1 bolli kínóa á móti 2 bollum af vatni. Þegar að suðan kemur upp slekk ég á hellunni, set lokið á pottinn og leyfi þessu að vera í ca. 40 mín. Ég saltaði það, setti 1 msk af ólífuolíu saman við og bar það fram með ferskum kóríander.

Bakað grænmeti

 • Notaðu þitt uppáhaldsgrænmeti og það sem þú átt til, ég notaði gulrætur, brokkolí, papriku, rauðlauk og sveppi. Ég skar grænmetið fallega niður, setti það á ofnplötu með bökunarpappír og setti á það ólífuolíu og salt. Bakaði grænmetið síðan í ofni.

Salat

 • Notaðu þitt uppáhalds salat, það  er svo gott fyrir kroppinn okkar.

Fræ

 • Ég poppaði graskersfræ á pönnu sem kom rosalega vel út. Þá setti ég graskersfræ, ólífuolíu og salt á pönnu á hæsta hita. Leyfði þessu að poppa og notaði sleif til að hræra í þessu svo að þetta myndi ekki brenna. Ekki nauðsynlegt að útbúa fræin kannski en þetta kom mjög skemmtilega út.

Hnetusósa

 • 50 ml vatn
 • 3 msk hnetusmjör
 • 1 tsk Tamarisósa
 • 2 tsk sítrónusafi
 • 1/4 tsk chillimauk
 • 1/2 tsk hlynsíróp
 • hnífsoddur salt

Settu allt saman í litla matvinnsluvél og láttu þetta blandast vel saman. Þú getur auðvitað líka notað gaffal til að hræra þessu saman.

Svo skar ég auðvitað saman við þetta avacado – það toppar alltaf allt hjá avacadoelskanda eins og mér. Mér líður alltaf ofboðslega vel eftir þessa máltíð, mér finnst kínóa fara mjög vel í magann. Sniðugt er að eiga soðið kínóa og bakað grænmeti í ísskápnum til að eiga til að hafa með sér í nesti eða þegar að maður hefur lítinn tíma til að útbúa sér máltíð. Maður getur sparað sér svo mikla fyrirhöfn með því að elda mikið í einu sem maður getur borðað næstu 2 daga í hádegismat eða kvöldmat.

Njóttu vel <3

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply