Njóttu Góðgætis

Karamellufyllt páskaegg

Það er enginn vandi að útbúa sitt eigið páskaegg og í rauninni er það virkilega skemmtilegt. Maður getur leikið sér endalaust í páskeggjagerð og leyft sköpunarkraftinum að njóta sín í botn.

Hvernig bragð vill maður hafa af súkkulaðinu? Hvað vill maður hafa inni í páskaegginu? Vill maður heilt egg? Gera fyllingu inn í það? Setja málshátt innan í? Möguleikarnir eru allskonar og er lítið mál að gera allskonar útgáfur sem að allir á heimilinu eru sáttir með.

Aðalástæðan fyrir því að ég kýs að gera mitt eigið egg er að páskaegg úti í búð innihalda mikið af aukaefnum, unnum sykri og innihaldslýsingin er mjög löng. Ég sneiði framhjá unnum sykri í mínu mataræði til að forðast þreytu, pirring og ónot í líkamanum. Öll svona auka fyrirhöfn, eins og það að gera sitt eigið páskaegg, er svo innilega vel þess virði fyrir bæði bragðlaukana mína og vellíðan.

Páskaeggin sem ég gerði í ár ákvað ég að hafa hálf með karamellufyllingu sem kom ótrúlega vel út. Þau eru algjört lostæti og mjög saðsöm, sem gerir það að verkum að maður getur ekki borðað mikið af því í einu. Ég skar þau niður í litla mola til að eiga með túrmeriklatte, matcha latte eða tei. Fullkomið svona um miðjan daginn þegar maður er að skrifa bloggfærslu eins og þessa.

Hvernig gerir maður sitt eigið páskaegg?

Það sem þarf að hafa í huga þegar gera skal sitt eigið páskaegg er að verða sér úti um páskaeggja sílikonform. Ég keypti mitt fyrir mörgum árum í söstrene grene en sambærileg form fást einnig í alltikoku.is. Það sem maður byrjar á því að gera er að útbúa súkkulaðið, ég gerði einfalt súkkulaði í ár sem að þarfnast ekki margra innihaldsefna.

Einfalt súkkulaði

  • 1,5 dl kakósmjör (fæst m.a. í bónus)
  • 1,5 dl kakó (ljóst, lífrænt)
  • 3/4 dl hlynsíróp
  • 1/3 tsk gróft salt
  1. Byrjaðu á því að bræða kakósmjörið í potti og leyfðu því svo að kólna aðeins.
  2. Hrærðu því svo rólega saman í skál saman við kakóið, hlynsíróp og saltið.
  3. Settu 1 msk af súkkulaðinu í formið og veltu því aðeins um svo það dreifist jafnt.
  4. Frystu formið og settu svo annað lag.
  5. Gerðu þetta jafnvel 1 x enn í viðbót svo að páskaeggið verði jafnt og með ágætlega þykka kanta.

Karamella

  • 150g döðlur (ferskar eða lagðar í bleyti)
  • 4 msk hnetusmjör
  • 6 msk kókosþykkni (þykki parturinn af kókosmjólk)
  • 1/4 tsk vanilluduft
  • gróft salt
  1. Skelltu öllum innihaldsefnunum saman í matvinnsluvél og láttu hana vinna lengi, lengi, lengi. Alveg þar til þetta verður silkimjúkt.
  2. Taktu svo eggin úr frystinum og fylltu þau með karamellunni.
  3. Settu svo súkkulaði yfir og aftur í frysti.

Leyfðu eggjunum að vera í frysti í 4-5 klst áður en þú nýtur þeirra. Sniðugt er að setja þau í loftþétt glerílát og geyma þau þannig í frysti eða kæli.

Njóttu í botn elsku gull, vona að þú eigir gleðilega páska <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply