Ég elska að finna leiðir til að njóta allskyns góðgætis sem er laust við mjólkurvörur, unna sætu og glúten. Það skiptir mig miklu máli að vita hvað ég er að láta ofan í mig og er það mér mikilvægt að búa matinn minn til sjálf. Það vissulega kostar mann meiri fyrirhöfn en að fara að kaupa sér tertusneið á kaffihúsi en það skilar sér margfalt í betri líðan. Ég er algjör sælkeri og mun ég alltaf vera opin fyrir leiðum til að njóta sætinda í lífinu. En mig hefur lengi langað að útbúa djöflaköku, sem við þekkjum flest, á hollari og þolanlegri máta. Ég prufaði nokkrar uppskriftir og er ég loksins komin með fullkomna útgáfu sem mig langar að deila með þér.
Kakan
- 4 chia egg (4 msk möluð chia fræ + 10 msk vatn)
- 250 ml möndlumjólk
- 1,5 tsk eplaedik
- 3 tsk matarsódi
- 1 dl hlynsíróp
- 1 1/4 dl kókosolía
- 1 tsk möluð vanilla
- 500g ávaxtamauk
- 1 tsk salt
- 1,2 dl kakó
- 170 g möndlumjöl
- 200g glútenlaust hveiti
- Byrjaðu á því að stilla ofninn á 175°C og á blástur.
- Næst útbýrð þú ávaxtamaukið ef þú átt það ekki til nú þegar, en hægt er að nota t.d. eplamauk. Ég útbjó mitt eigið og notaði þroskaðar lífrænar perur (ca.400g) og lífræna banana (ca. 100g) og maukaði saman í matvinnsluvél. Leggðu maukið til hliðar.
- Hrærðu saman möndlumjólk og eplaediki í skál með píski. Leyfðu þessu að standa aðeins.
- Síðan býrðu til chia eggin með því að mala chia fræ í kaffikvörn og hræra þeim síðan saman við vatn í stórri skál. Það má líka nota hörfræ í staðin fyrir chiafræin og útbúa eggin á sama hátt. Leyfðu þessu að jafna sig í 5 mín.
- Hrærðu matarsóda saman við möndlumjólkur- og eplaediksblönduna. Hrærðu síðan þessari mjólkurblöndu saman við chia eggin ásamt hlynsírópi. Hrærðu vel til þar til að þetta er vel blandað saman.
- Bættu síðan ávaxtamaukinu, vanillu, bráðinni kókosolíu og salti saman við. Hrærðu vel.
- Bættu síðan þurrefnunum saman við og hrærðu vel.
- Næst klæðir þú tvö bökunarform með bökunarpappír og skiptir deiginu jafnt í formin með sleif.
- Bakaðu í 35-40 mínútur og leyfðu kökunni síðan að kólna alveg áður en þú setur kremið á.
Kremið
- 2 lífræn avacado
- 1,5 dl kakó
- 1 dl hlynsíróp
- 2 msk bráðin kókosolía
- 2 msk sterkt uppáhellt kaffi
- 1/2 tsk vanilla
- 1/4 tsk gróft salt
- Settu fyrst avacadoin í matvinnsluvél þangað til að þau eru orðin að silkimjúkri blöndu.
- Bættu restinni af innihaldsefnunum saman við og láttu þetta blandast vel saman. Skafaðu niður af hliðunum jafnt óðum.
- Smyrðu kreminu á kökuna.
Kakan geymist í ísskáp í nokkra daga en hún er best beint úr ísskápnum með heimagerðri möndlumjólk að mínu mati. Kakan geymist mjög vel þrátt fyrir að kremið innihaldi avacado. Einnig er sniðugt að frysta helmingin til að eiga seinna ef maður sér ekki fram á að klára hana alla á næstunni.
Ég tek það fram að ég á ekki heiðurin af þessum frábæru uppskriftum. Uppskriftin af súkkulaðikökunni kemur af blogginu minimalistbaker en ég breytti henni aðeins til að hún myndi ekki innihalda unna sætu. Uppskriftin af súkkulaðikreminu er algjör snilld og á ég eftir að útbúa þetta krem aftur&aftur, en uppskriftin af því kemur héðan.
-Anna Guðný
No Comments