Ég veit ekki af hverju, en ég tengi ferskt og gott salat alltaf við sumartímann. En þegar að heitara er í veðri þá hef ég meiri löngun í salat heldur en yfir vetrartímann, ég er meira í súpunum þá. Í tilefni sumardagsins fyrsta þá langaði mig að deila með ykkur skemmtilegri uppskrift að salati sem að er bæði djúsí og bragðgott. Það þarf nefnilega alls ekki að vera leiðilegt að borða salat, það er vel hægt að gera það á lúxusmáta. En þetta salat er eitthvað sem að ég mæli heilshugar með og skora á þig að gera sem allra fyrst.
Það sem að þú byrjar á að gera er að undirbúa kalda sinnepssósu og mareningu á sveppina. Þessi marening á einnig vel við á portobellosveppi en ég elska portobellosveppi og hvað þeir setja allar máltíðir á hærra plan. Sinnepsósan kæmi sér líka vel í útileguna í sumar og myndi sennilega passa með hvaða máltíð sem er.

Sinnepsósa
- 150 g kasjúhnetur
- 2 dl vatn
- 1/2 tsk sinnep
- 1/2 tsk túrmerik
- 3 döðlur
- 1/4 tsk lífr. sítrónubörkur
- 1 msk sítrónusafi
- 1/4 tsk gróft salt
- Skelltu öllum innihaldsefnunum í blandara og láttu hann vinna þar til að sósan er orðin alveg kekkjalaus.
- Náðu þér í sleikju og skafaðu sósuna úr blandaranum í krukku, ekki láta neitt fara til spillis.
Sveppamarening
- 2 msk misomauk
- 1 msk tómatpúrra
- 1/2 msk döðlusíróp
- 3/4 msk tamarisósa
- Hrærðu innihaldsefnunum saman og legðu mareninguna aðeins til hliðar.
- Skerðu sveppina gróflega, 250 g er hæfilegt magn. Kastaníusveppir passa afar vel við þessa mareningu og við þetta salat.
- Makaðu mareningunni á sveppina og settu þá inn í ofn við 210°C á undir & yfir hita. Vertu með auga á þeim og hrærðu í þeim eftir 6 mínútur. Taktu þá síðan út þegar að þér finnst þeir vera tilbúnir en það fer eftir stærð þeirra.
- Þetta er ágætlega stór uppskrift af sinnepssósunni en það er gott að frysta helming af henni. Hún verður í góðu lagi eftir að hafa verið í frysti og kemur sér alltaf vel að eiga svona góða sósu í frysti.
Heslihnetur
Gott er að rista heslihnetur með salatinu, en þá setur þú þær við 150°C í ofn á blæstri í 15 mínútur. Leyfðu þeim svo að kólna og nuddaðu hýðið af þeim. Skerðu þær svo gróflega niður. Þú þarft u.þ.b. 100 grömm af þeim.

Ferskt hráefni:
Gulrætur
Ég var með u.þ.b. 200g gulrætur sem ég yddaði með grænmetisyddaranum mínum þannig að þær urðu að hálfgerðu spagettíi. Mágkona mín gaf mér minn fyrir mörgum árum en sýnist þessi hér vera svipaður. En það má líka sjálfsögðu bara rífa þær niður með rifjárni.
Salat & Brokkolí
Notaðu svo þitt uppáhaldssalat en ég mæli með að velja íslenskt bæði til að minnka kolefnissporið og að það sé nú sem ferskast & hreinast. Rífðu salatið niður. Skerðu svo niður brokkolí í lítil “blóm“ en ég hef það ferskt í þessu salati til að gefa því smá “kröns“.
Súrar gúrkur
Ég elska súrar gúrkur og sonur minn líka, við borðum þær oft beint upp úr krukkunni. En súru gúrkurnar frá biona eru þær bestu sem við höfum smakkað og elskum við að borða þær með hverju sem er. Mér fannst þær því setja punktinn yfir i-ið á þessu fallega salati og setja skemmtilegan svip á það.
Þú ræður svo hvort að þú skellir þessu öllu saman í stóra skál áður en þú berð þetta fram eða berð þetta fram aðskilið. Sjálf mæli ég með að hafa sveppina, sósuna og hneturnar til hliðar. Sniðugt er að blanda ferska hráefninu saman.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.

No Comments