Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar Jólanna

Jólamáltíðin mín

Hvort sem að þú kýst að sniðganga dýraafurðir eða ekki, þá hafa allir gott af því að þreifa fyrir sér í grænmetismatargerð og að prufa eitthvað nýtt. Nú eru jólin framundan og er ég ákveðin í að hafa hnetusteik á boðstólnum en hún er orðin ómissandi partur af jólunum hjá mér. Ég veit að það eru margir sem gretta sig við tilhugsunina að fá sér hnetusteik en hún er svo 1000x betri en maður heldur. Það er ekki svo langt síðan að ég iðaði af tilhlökkun yfir því að fá mér svínahamborgarahrygg um jólin en núna er það hinsvegar það síðasta sem mig langar í. Ég veit það af eigin raun að það virðist flókið að breyta um jólamatsseðil og fara út af vananum. En það er einmitt þess vegna sem ég ætla að deila með þér uppskriftum að hinni fullkomnu jólamáltíð.

Það er bæði dýrara og tímafrekara að gera sína eigin hnetusteik heldur en að kaupa hana tilbúna út í búð. En það er svo miklu skemmtilegra að gera hana sjálfur. Þá getur maður valið sitt uppáhaldshráefni, maður veit 100% hvað maður er að borða og að mínu mati er alltaf bragðbetra að elda sjálfur frá grunni. Eins hefur maður svo gott af því að kúpla sig frá jólastressinu og dúlla sér í eldhúsinu, það er mjög góð leið til að hugleiða og öll þurfum við á hugleiðslu að halda í annríkum mánuði. Þú þarft ekki að gera hnetusteikina sama dag og þú ætlar að borða hana, þú getur gert deigið daginn áður og eldað hana svo daginn eftir.

Hnetusteik

  • 200 g heslihnetur
  • 150 g kasjúhnetur
  • 80g möndlur
  • 3 dl soðnar svartar baunir
  • 1 dl hýðishrísgrjón
  • 1 laukur
  • 1/2 rauðlaukur
  • 150g kastaníusveppir
  • 1 rauð paprika
  • 1 hvítlauksrif
  • 2 sætar kartöflur (350g)
  • 2 tsk sambal oelek
  • 1 msk hnetusmjör
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 1 msk tamarisósa
  • Handfylli ferskt timían
  • 2 tsk salt
  • 1/4 tsk múskat
  • 1/4 tsk broddkúmen
  1. Ef að þú ætlar að sjóða baunirnar sjálf/ur þá skalt þú byrja á því að leggja þær í bleyti yfir nótt. Daginn eftir skolar þú þær og sýður baunirnar í 40 mín.
  2. Settu hýðishrísgrjónin í pott ásamt 3dl af vatni. Láttu þau sjóða í 40 mín í potti og leyfðu þeim síðan að kólna.
  3. Settu hneturnar á ofnplötu með bökunarpappír og inn í ofn í 13 mín við 150 °C. Þegar þær hafa kólnað grófmalar þú þær í matvinnsluvél.
  4. Settu sætu kartöflurnar heilar inn í ofn og hafðu þær í 30 mín eða þangað til að þær eru orðnar mjúkar inn í. Þegar þær eru eldaðar í gegn og búnar að kólna aðeins skalt þú skera þær í tvennt og taka innan úr þeim með skeið. Settu til hliðar.
  5. Skerðu niður rauðlaukin, sveppina, paprikuna og hvítlaukinn. Steiktu þetta upp úr ólífuolíu á heitri pönnu.
  6. Taktu 1/3 af hýðishrísgrjónunum, 1 dl af svörtu baununum og settu í matvinnsluvél.
  7. Settu nú öll hráefnin í stóra skál og blandaðu þeim vel saman með höndunum. Þegar að allt er blandað vel saman er gott að leyfa blöndunni að kólna aðeins í ísskáp áður en þú mótar sneiðarnar.
  8. Mótaðu 7 kassalaga sneiðar með höndunum og skreyttu þær með heslihnetuflögum. Reyndu að hafa allar sneiðarnar jafnþykkar og jafnstórar svo að þær eldist jafnt.
  9. Bakað í ofni við 190°C  í 30 mín.

Sveppasósa

  • 1/2 laukur
  • 250 g sveppir
  • 100g kastaníusveppir
  • 250 ml vatn
  • 200 ml kókosmjólk
  • 1 msk tamari sósa
  • 2 tsk gróft salt
  1. Byrjaðu á því að steikja laukinn á hæsta hita í potti með ólífuolíu. Þegar að laukurinn er byrjaður að brúnast skellir þú sveppunum út í (ekki kastaníusveppunum samt). Hrærðu vel í þessu og passaðu að þetta brenni ekki við.
  2. Þegar að sveppirnir eru eldaðir setur þú vatnið og kókosmjólkina út í og leyfir þessu að malla í ca. 20 mínútur. Sniðugt er að útbúa eitthvað annað á meðan.
  3. Taktu sósuna og maukaðu hana í blandara. Maukaðu hana í dágóðan tíma eða þangað til hún er orðin silkimjúk.
  4. Skerðu kastaníusveppina gróft niður, steiktu þá í pottinum upp úr olíu.
  5. Skelltu síðan sósunni í pottinn.
  6. Bættu tamarisósunni og saltinu saman við.
  7. Leyfðu þessu að malla í ca. 10 mín í viðbót. Því lengur sem þú leyfir þessu að malla því betri verður sósan.

Rauðkál

  • 200 ml rauðvínsedik (fæst t.d. í bónus)
  • 500g ferskt rauðkál
  • 4 msk kókospálmasykur
  • 2 msk sykurlaust appelsínumarmelaði (ég nota frá St. Dalfour)
  • 1 tsk salt
  • 1 kanilstöng
  • 4 negulnaglar
  1. Settu öll innihaldsefnin í pott á hæsta hita og láttu suðuna koma upp.
  2. Hrærðu reglulega í þessu til að byrja með og lækkaðu síðan hitan.
  3. Settu lok á pottinn og leyfðu þessu að malla í 2 klst.
  4. Settu þetta í 400ml krukku ef það á ekki að borða þetta strax.
  5. Geymist í ísskáp og er hitað aðeins upp í potti þegar það á að borða það.

Waldorf salat

  • 1,5 dl útbleyttar kasjúhnetur
  • 1 dl vatn
  • 2 tsk sítrónusafi
  • 1/4 tsk vanilla
  • 1 tsk hlynsíróp
  • 1/4 tsk salt
  • 30g valhnetur
  • 1 grænt epli
  • 4 msk þurrkuð trönuber
  • 1 sellerístöngull
  1. Leggðu kasjúhneturnar í bleyti yfir nótt.
  2. Byrjaðu á því að setja valhneturnar í ofn við 150°C í 15 mín.
  3. Settu kasjúhnetur, vatn, sítrónusafa, vanillu, hlynsíróp og salt í blandara. Láttu blandarann vinna í dágóða stund eða þangað til að blandan er orðin silkimjúk og falleg.
  4. Skerðu eplið og selleríið niður og settu það í skál.
  5. Nuddaðu mesta hýðið af valhnetunum og brjóttu þær niður með höndunum.
  6. Blandaðu síðan öllu saman í skál og skreyttu með trönuberjunum. Ef þú hrærir þeim saman við salatið verður salatið fjólublátt.

Það er síðan upplagt að bera fram með þessu bakað grænmeti en það er þó alls ekki nauðsynlegt að mínu mati. Ekki vera feimin við að gera uppskriftina að þínu og notaðu það sem þú átt til heima í skápunum. Uppskriftirnar eru fyrir 4-5 fullorðna.

Njóttu vel og eigðu gleðileg jól.

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply