Njóttu Góðgætis Millimála

Kætandi mangóís

Þá er loksins komið að því að gefa þessum mangóís þann heiður sem hann á skilið; sérfærslu hér á blogginu. En uppskriftina birti ég upphaflega á instagram og hefur hún fengið mjög mikla athygli. Allir virðast elska þennan ís sem að prufa að útbúa hann, enda er þetta mjög góður og hollur ís sem ég sjálf fæ mér nánast daglega.

Ég elska hvað hann kætir mig og bætir; ég verð svo full af bæði orku og lífsgleði. Það er mjög gott að fá sér hann um miðjan dag til þess að hressa sig við ef að þreytan læðist aftan að manni. Fyrir mér er þetta snilldarleið til að fá sól í hjarta, þessi fallegi guli mangóís.

Mangóísinn inniheldur aðeins 3 hráefni og þegar að maður lærir að útbúa hann þá er eins og það opnist nýjar dyr fyrir manni. Allt í einu muntu sjá að það er ótrúlega auðvelt að útbúa þinn eigin sorbet bara úr ávöxtum. Það eina sem þú þarft er matvinnsluvél og frosnir ávextir. Galdurinn er að nota eins lítið af vökva og hægt er; þannig færðu ísáferðina. Þess vegna útbý ég ísinn í matvinnsluvél, ég þyrfti meiri af vökva ef ég myndi útbúa hann í blandara og þá yrði þetta bara að þeytingi.

Mangóís

  • 2 bollar frosið mangó
  • 2 bollar frosinn ananas
  • Safi úr 1/2 – 1 appelsínu

Aðferð:

  1. Byrjaðu á því að kreista safan úr appelsínunni og settu svo öll hráefnin saman í matvinnsluvél. Byrjaðu á að setja helminginn af appelsínusafanum.
  2. Þá er komið að því að kveikja á tryllitækinu, settu lokið á og haltu vel við.
  3. Leyfðu matvinnsluvélinni að vinna í smá stund þar til að þetta verður að kurli.
  4. Ef þetta er mjög frosið þá er gott að leyfa þessu að standa í örlitla stund.
  5. Kveiktu svo aftur og láttu hana vinna. Þá ætti ísinn að byrja að myndast neðst í vélinni. Gott er þá að skafa úr hliðunum með sleif með reglulegu millibili.
  6. Ef þér finnst þurfa; bættu við seinni helmingnum af appelsínusafanum.

Fyrir áhugasama má sjá myndband af því hvernig ég útbý ísinn með því að ýta á hlekkina hér að neðan.

View this post on Instagram

A post shared by Heilsa og Vellíðan (@heilsaogvellidan)

Það er í góðu lagi að fá sér eins mikið af þessum ís og þig lystir til. Hann inniheldur ekkert nema ávexti og ávextir eru einmitt það sem við eigum að fá okkur þegar að við fáum langanir í sætindi. Þá er líkaminn að kalla á ávexti því að þar er fullt af vítamínum og næringarefnum sem að við þurfum á að halda. Endilega hlustaðu á líkamann þinn og hans þarfir, það er eina leiðin fyrir þig til að vita hvað gerir þér gott og hvað ekki.

Ef það er afgangur af ísnum þá er mjög hentugt að frysta hann og gæða sér á seinna; hann geymist mjög vel í frysti og er alls ekki síðri þegar maður borðar hann eftir frystingu. Það er einnig sniðugt að frysta hann í íspinnaformum fyrir litla orkubolta.

Njóttu í botn elsku demantur!

Ást,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply