Þetta súkkulaði geri ég oft og á í frystinum. Það klárast hrikalega hratt enda er það svo rosalega gott. Það er enginn vandi að gera sitt eigið súkkulaði og er gaman að bjóða gestum og gangandi upp á heimagert súkkulaði. Það er oft allskonar aukaefni í súkkulaði sem maður kaupir út í búð í dag og hrikalega erfitt að finna eitthvað sem er laust við unninn sykur og mjólkurvörur. Ég skora því á þig að prufa að gera þitt eigið súkkulaði og get lofað þér því að þú verður húkt.
Heimagert súkkulaði
- 100g kókosolía
- 50g kakósmjör
- 60 g kakó
- ½ dl hlynsíróp
- ¼ tsk vanilla
- 1/4 tsk salt
- 30 g goji ber
- 30g mórber
- 30 g smátt skornar döðlur
- 60 g möndlur
- 10 g kókosflögur
- Skerðu döðlurnar smátt og möndlurnar gróft niður.
- Skelltu kókosolíunni og kakósmjörinu í pott og láttu bráðna við vægan hita.
- Hrærðu síðan kakóinu, hunanginu, vanillunni og saltinu saman við. Smakkaðu til.
- Taktu pottinn af hellunni og blandaðu restinni af innihaldsefnunum saman við með sleif.
- Klæddu lítið eldfast mót með bökunarpappír og settu síðan blönduna ofan í mótið og inn í frysti.
- Þegar að súkkulaðið er tilbúið (eftir ca. 2-3 klst) skalt þú taka það út og skera það niður í bita. Geymdu það í loftþéttu íláti í frystinum og gæddu þér á þessu beint þaðan þar sem að súkkulaðið bráðnar strax þegar það er látið standa við stofuhita.
Þessi uppskrift er ekki heilög og hvet ég þig til að smakka hana til á meðan þú gerir hana. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikla sætu og hversu sterkt kakóbragð má vera. Einnig er misjafnt hvað manni langar að setja í súkkulaðið sitt og hvet ég þig til að velja þurrkaða ávexti og hnetur eftir þínum smekk.
Verði þér að góðu og njóttu í botn!
Ást og friður,
-Anna Guðný
No Comments