Njóttu Góðgætis Jólanna

Ómótstæðilegar súkkulaðitrufflur

Ég á engin orð yfir því hversu góðar þessar súkkulaðitrufflur eru. Þær hafa bókstaflega horfið í hvert skipti sem ég bý þær til þó ég sé alltaf að reyna að búa til stóran skammt með von um að hann verði til í einhvern tíma. En uppskriftinni af þessum trufflum var bókstaflega plantað inn í hausinn á mér og þurfti ég að fara strax í eldhúsið og prufa. Trufflurnar komu fullkomlega út í fyrstu tilraun – það er sko langt frá því að vera alltaf þannig þegar maður er að búa til sínar eigin uppskriftir.

Trufflurnar eru fullkomnar með kaffinu, teinu eða bara einar og sér. Það er gaman að bjóða gestum og gangandi upp á góðgæti sem maður hefur útbúið sjálfur. Skemmtilegast af öllu er svo að tilkynna þeim að trufflurnar séu lausar við mjólkurvörur, glúten og unninn sykur. En svo er annað mál hvort að þú tímir að gefa þessar trufflur með þér, svo góðar eru þær.

Súkkulaðitrufflur

Trufflurnar

 • 1 biona kókosmjólk (notar bara kókosþykknið – ekki kókosvatnið)
 • 1 dl hrákakó
 • 4 msk kókosolía
 • 8 msk hlynsíróp
 • 30 g kasjúhnetur
 • hnífsoddur salt
 1. Best er að láta kókosmjólkina inn í ísskáp í 12 klst ef þú hugsar fram í tímann, annars myndi ég skella henna í frystirinn í 1-2 klst.
 2. Helltu kókosvatninu úr kókosmjólkurdósinni í krukku og legðu til hliðar- þú getur notað kókosvatnið seinna t.d. í þeyting. Þú notar bara kókosþykknið í þessa uppskrift.
 3. Settu öll innihaldsefnin í blandara.
 4. Blandaðu þangað til blandan er silkimjúk.
 5. Settu blönduna í lítið ílát og inn í frysti.
 6. Þegar að blandan hefur stífnað mótar þú kúlur með höndunum.
 7. Leggðu kúlurnar á slétt ílát og settu þær aftur í frysti áður en þú hjúpar þær.

Súkkulaðihjúpurinn

 • 50 ml kakósmjör
 • 150 ml kókosolía
 • 2 dl hrákakó
 • 75 ml hlynsíróp
 • 1/5 tsk vanilluduft
 • hnífsoddur salt
 1. Bræddu kakósmjör og kókosolíu.
 2. Hrærðu síðan öllum innihaldsefnunum saman.
 3. Láttu standa aðeins til að hjúpurinn kólni og þykkni aðeins.

Njóttu í botn!

            Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu. 

You Might Also Like

4 Comments

 • Reply Bryndís 14. desember, 2017 at 20:42

  Hvar fær mađur kakósmjör?

  • Reply heilsaogvellidan 17. desember, 2017 at 11:47

   T.d í bónus frá Himneskt, oft neðarlega í hillunni. Annars fæst það í öllum heilsudeildum og heilsubúðum 🙂

 • Reply Bryndís 19. desember, 2017 at 21:02

  Takk en vanilluduft? Eg hef ekki fundiđ þađ. Þađ er ekki sama og vanillusykur er þađ?

  • Reply heilsaogvellidan 20. desember, 2017 at 12:41

   Það er til t.d. í Heilsuhúsinu, heilsudeild Krónunnar og heilsudeild Nettó 🙂

  Leave a Reply