Njóttu Góðgætis Millimála

Melónuíspinnar

Það að gera holla íspinna er svo ótrúlega einfalt, fljótlegt og þægilegt. Ég mæli svo mikið með að eiga til heilnæma íspinna í frystinum allan ársins hring, það kemur sér allavega alltaf vel fyrir bæði mig og son minn. Við fáum okkur oft íspinna eftir skóla hjá honum og svo finnst okkur mjög skemmtilegt að fá okkur þá í forrétt í morgunmat um helgar. Einnig smellpassa þeir auðvitað í afmæli, veislur eða í kósýkvöldið. Það er mjög einfalt að útbúa íspinna sem innihalda ekki unna sætu né mjókurvörur. En uppskriftin sem ég ætla að deila með þér núna er af bleikrauðum íspinnum sem eru búnir til úr vatnsmelónu. Ég leyfi syni mínum að gera þá sjálfur en honum finnst gjarnan gaman að fá smá verkefni í eldhúsinu og ég get þá vaskað upp eða tekið til á meðan hann dundar sér að útbúa girnilegheitin. Win, win fyrir bæði móður og barn myndi ég segja.

Það er tvennt sem þarf að hafa í huga:

  • Íspinnaform: mín eru ekki lengur fáanleg á landinu en það eru oftast til íspinnaform í ikea og jafnvel söstrene grene.
  • Vatnsmelóna: Hafðu hana brakandi ferska og góða, það er alls ekki málið að nota óheppnaða melónu í svona ísa. Þeir verða einfaldlega ekki góðir og alltof slepjulegir.

Melónuíspinnar

  • 1 Rauð vatnsmelóna – notar 1/2-2/3 af henni
  • Fersk mynta
  • 1/4 tsk börkur af lífrænni sítrónu (má sleppa)

Aðferð:

Skerðu melónuna í tvennt og mokaðu svo allt upp úr henni yfir í blandara. Ef þú kýst að nota ferska myntu og sítrónubörkinn líka – endilega skeltu því með í blandarann. Láttu svo blandarann vinna í dágóða stund og helltu svo blöndunni í íspinnaform. Frystu yfir nóttu eða í a.m.k. 8 klst og leyfðu þér svo að njóta góðgætisins <3

Svona íspinna getur þú auðvitað gert með hvaða ávöxtum er og jafnvel bara með vatni og sett t.d. fersk ber, myntu, sítrónu, appelsínu, rósablöð, gúrku eða hvað sem þér þykir fallegt og skemmtilegt til skrauts. Leyfðu hugmyndarfluginu þínu að fara á flug og helst af öllu; leyfðu barninu þínu algjörlega að taka stjórnina hér og prufa sig áfram.

Njóttu elsku gull!

Ást,

Anna Guðný <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply