Elskaðu Umhverfið

20 leiðir til að minnka plastnotkun

Ég hef fjallað um skaðsemi plasts og mikilvægi þess að flokka það til endurvinnslu. En þegar að maður byrjar að flokka plast til endurvinnslu sér maður hversu mikið af plasti maður er að kaupa í raun og veru. Þegar að ég byrjaði að flokka plastið heima hjá mér varð mér brugðið hvað plastdallurinn fylltist skelfilega fljótt og hvatti það mig til að minnka plastnotkunina á heimilinu. Í dag hef ég tekið mörg skref til að minnka plastnotkun og er draumurinn að lifa algjörlega umbúðalausum lífsstíl.

Þó að það sé mikilvægt að flokka plastið frá öðru rusli til að það fari í endurvinnslu er þó best af öllu að sniðganga plastið alveg eins og maður getur. Því að á meðan maður er að kaupa vörur sem eru úr plasti eða er pakkað í plast styður maður plastframleiðslu. En um leið og maður sýnir með neysluvenjum sýnum að maður vilji sniðganga plastið mun með tímanum framboðið verða meira af umbúðalausri matvöru og framleiðsla á plasti minnka.

Hér deili ég með þér 20 leiðum til að minnka plastnotkun;

 1. Farðu með fjölnota innkaupapoka í búðina
  Ég viðurkenni það að ég það tók sinn tíma að muna alltaf eftir að hafa fjölnota poka með í búðina en það er loksins að takast. Sniðugt er að ganga alltaf frá pokanum og setja hann strax í töskuna þína, bílinn eða á einhvern annan stað sem að tryggir að þú gleymir honum ekki.
 2. Verslaðu umbúðalaust
  Ég elska búðir sem bjóða t.d. upp á lífræna ávexti og grænmeti sem er ekki pakkað inn í endalaust af plasti. Búðir sem að bjóða upp á gott úrval af umbúðarlausu lífrænu grænmeti og ávöxtum á höfuðborgarsvæðinu eru t.d. Heilsuhúsið, Rabbar Barinn, Bændur í bænum og Frú Lauga.
 3. Fylltu á eigin ílát
  Hnetur, fræ, þurrkaðir ávextir, olíur og fl. má stundum finna umbúðalaust. Ef að þú átt reglulega leið hjá Akranesi þá er Matarbúr Kaju með umbúðalausa þurrvöru sem maður kaupir eftir vigt. Heilsuhúsið í Kringlunni er einnig nýkomið með umbúðalausa matvöru og er það mikið fagnaðarerindi fyrir höfuðborgarbúa.
 4. Notaðu taubleyjur á börnin
  Talað er um að hvert barn noti 5000-6000 bréfbleyjur á fyrstu árunum sem m.a. innihalda plastefni og fleiri ónáttúruleg efni sem eru ekki góð fyrir litla kroppa. Það er bæði ódýrara að nota taubleyjur og umhverfisvænna. Hvað ætli það taki 1 bréfbleyju langan tíma að eyðast upp í náttúrunni? Meira um það hér.
 5. Gerðu blautþurrkur handa börnunum
  Hefðbundnar blautþurrkur sem pakkaðar eru inn í plastumbúðir út í búð eru ekki einungis óumhverfisvænar heldur geta þær einnig innihaldið ilm- og rotvarnarefni sem geta haft áhrif á hormónakerfið og verið ofnæmisvaldandi. Hér eru þær sem ég útbý.
 6. Gerðu meira frá grunni í eldhúsinu heima
  Tilbúinn matur er oftast í plastumbúðum og er langbesta lausnin á þeim vanda að elda sjálfur heima frá grunni. Það er miklu betra fyrir heilsuna að elda sjálfur þar sem að það er miklu hollara.
 7. Gerðu þínar eigin heimilis – og hreinlætisvörur
  Það er engin vandi að gera sínar eigin og má finna mikið af uppskriftum og ráðum á netinu. Hvað var notað hér áður fyrr áður en öll þessi hreinsiefni komu á markaðinn?
 8. Vertu með fjölnota vatnsflösku á þér
  Þegar maður er á ferðinni er upplagt að vera með vatn á sér í staðin fyrir að kaupa það í plastflösku í næstu sjoppu.
 9. Hættu að nota plaströr
  Hægt er að kaupa fjölnota stálrör í kokku.
 10. Mættu með þín eigin ílát
  Ertu að fara að kaupa þér eittvað matarkyns til að taka með? Mættu með krukku eða eitthvað annað ílát og fáðu matinn í það.
 11. Notaðu ferðamál
  Mættu með þitt eigið ferðamál á kaffihúsið til að taka kaffið með. Það fást ótrúlega falleg ferðamál í Heilsuhúsinu sem eru gerð úr bambus.
 12. Notaðu eldspýtur í stað kveikjara
  Kveikjarar eru úr plasti svo að eldspýturnar koma í staðin fyrir þá.
 13. Endurnýttu krukkur
  Hreinsaðu krukkurnar þegar að þú ert búin/n að klára úr þeim og geymdu þær. Þú getur geymt matarafganga í þeim, uppáhalds hummusinn þinn eða jafnvel notað þær sem skálar og/eða drykkjarílát. Það er líka algjör snilld að taka nesti með í sér í krukkum.
 14. Notaðu nestisbox 
  Ef þú ert ekki til í að taka krukkustílinn alla leið hvet ég þér til að fá þér umhverfisvænt og eiturefnalaust nestisbox t.d. úr stáli. Slík nestisbox fást m.a. í Vistveru, Mistur.is og Mena.is.
 15. Ekki velja snyrtivörur sem innihalda plastagnir
  Veldu hreinar og umhverfisvænar snyrtivörur. Ég mæli með þessum hér.
 16. Ekki kaupa plastdót handa börnunum
  Veldu frekar dót úr eiturefnalausum við eða úr lífrænni bómul. Börn setja dót gjarnan upp í sig og vil ég persónulega ekki að barnið mitt setji plast upp í sig sem inniheldur skaðleg efni. Verslanir sem ég mæli með að kíkja á eru hrisla.is, bambus.is, söstrene grene og petit.is.
 17. Veldu frekar vörur sem eru í pappa eða gleri
  Vertu vakandi þegar þú verslar inn og spáðu í úr hverju varan er áður en þú kaupir hana.
 18. Segðu bless við tyggjóið!
  Veistu hverju tyggjó er gert úr? Plasti! Það er ekki furða að tyggjó sé fast á götum og gangstéttum. Það er betra fyrir þig og umhverfið ef þú kýst að segja alveg bless við tyggjóið. Til að fríska upp á andardráttinn getur þú fengið þér vatn með piparmyntubragðdropum eða piparmyntute.
 19. Skiptu yfir í bambus tannbursta
  Ég keypti minn í heilshuhúsinu. Bambus brotnar niður í náttúrunni ólíkt plasti. Árlega enda næstum 2 milljarðar af tannburstum í landfyllingu.
 20. Hættu að nota einnota rakvélar
  Einnota rakvélar eru úr plasti og mæli ég með því að kaupa endingargóðar rakvélar sem þú skiptir bara um blað í. Ég fjárfesti í þessari hér fyrir löngu síðan sem ég mæli heilshugar með. Núna er netverslunin mena.is og verslunin vistvera í Grímsbæ komnar með fallegar stálrakvélar sem ég mæli með að þú kíkir á.

Þessi listi er langur en þó alls ekki tæmandi. Sniðugt er að velja sér 1-2 atriði og taka fyrir í einu til að koma að varanlegum breytingum. Aðalatriðið er að vera meira vakandi fyrir umbúðum og taka ákvarðanir sem eru bæði þér og umhverfinu til góðs.

Gangi þér vel!

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply