Ég hef ekki alltaf verið meðvituð um hvaða snyrtivörur ég nota. Hér áður fyrr keypti ég bara eitthvað sjampó út í búð, skellti því í hausinn á mér annan hvern dag án þess að pæla neitt frekar í því. En vissir þú að í sjampói sem og öðrum snyrtivörum leynast ýmis eiturefni sem að hafa skaðleg áhrif á líkamsstarfsemina okkar? Ekki nóg með það heldur fer sjampóið beina leið út í sjó eftir að hafa komið við í hárinu okkar og hefur þar með áhrif á lífríki sjávar líka. Í dag er ég sem betur fer orðin mjög meðvituð um þetta og vil aðeins nota það besta fyrir mig og jörðina okkar. Ég vil ekki nota neinar snyrtivörur sem að innihalda eitthvað sem að ég get ekki borið fram né veit hvað er. Einnig vil ég hafa innihaldsefnin fá & gæðamikil og að varan sé ekki prufuð á dýrum né innihaldi dýraafurðir.
Burt með plastið
Í mörg ár hef ég leitað leiða til þess að þvo hárið mitt á eiturefnalausan og umhverfisvænana máta. Ég hef prufað að nota ekkert sjampó í nokkra mánuði sem að gekk ágætlega en mér fannst samt vanta eitthvað fútt í það. Þá prufaði ég að þvo það bara með matarsóda og eplaediki sem að var allt í lagi en ég var samt ekki alveg sátt. En þetta gerði ég ekki bara til að forðast eiturefnin heldur einnig til að komast hjá umbúðum eins og plasti. Hvað ætli ég hafi hent mörgum plastbrúsum á ári hérni áður fyrr? Þeir hafa alveg verið þónokkrir og ennþá fleiri ef ég tel hárnæringarbrúsana með. En það sem skiptir mestu máli er að það er mikil vakning varðandi umbúðir og ég fer yfir mikilvægi þess að minnka umbúðirnar í daglegu lífi okkar hér.
Hárið aldrei verið betra
Ég er búin að hafa lengi auga með netversluninni mena.is sem að er einmitt með fullt af vörum til að hjálpa okkur að taka skref til þess að hjálpa okkur að lifa umbúðalausan lífsstíl. Þ.á.m. endalaust af skemmtilegum hárvörum og því pottþétt til eitthvað sem að hentar öllum. Ég fékk að prufa nokkrar vörur og ég hef aldrei verið jafn ánægð með hárið á mér, ég myndi aldrei velja neitt sjampó fram yfir þessar vörur sem ég er að nota núna og ég verð bara að deila þeim með ykkur ef það er einhver þarna úti sem er að reyna að finna umbúðalausar og eiturefnalausar hárvörur sem að virka.
Hársápustykki með bjór og lárviðarlaufi
Ég hafði engar væntingar fyrir þessu hársápustykki en það hefur farið langt fram úr væntingum. Það freiðir meira að segja! Ég bleyti hárið á mér í sturtunni og strýk stykkinu svo yfir hárið. Maður þarf alls ekki að nota mikið í hvert skipto og mun þetta því duga mér heillengi sem að er snilld. Hárið mitt verður svo tandurhreint og vellyktandi á eftir að hafa þvegið það með þessu snilldar hársápustykki. Þessi sápa er líka mjög hentug fyrir rakstur. Innihaldslýsingin hljómar mjög vel og auk þess er sápan vegan og er ekki prufuð á dýrum.
Hárnæringarstykki fyrir þurrt hár
Þetta hárnæringarstykki er algjör snilld. Maður þarf einmitt mjög lítið af því og ég nudda því bara í endana á hárinu mínu eftir að hafa þvegið það með hársápustykkinu. Gott er að láta hárnæringuna standa aðeins í hárinu áður en maður skolar hana úr. Ég er með frekar fíngert og þurrt hár og gerir þessi hárnæring mjög mikið fyrir það. Það verður mjúkt á eftir og maður sér bara hvað þetta stykki nærir endana vel. Ilmurinn af hárnæringunni er einnig mjög róandi og góður. Ég elska að geta loksins notað hárnæringu sem að er ekki í plasti.
Hárskol úr edikgrunni – fyrir ljóst hár
Þetta hárskol setur svo alveg punktinn yfir i-ið í hárrútínunni hjá mér. Ég elska ilminn af þessu og hárið mitt verður svo dásamlega mjúkt á eftir. Þó að brúsinn sé úr plasti þá mun hann endast mér mjög lengi og get ég gert mína eigin edikblöndu í honum þegar að hann klárast ef að ég freistist ekki í að kaupa hárskolið aftur. Þegar að ég er búin að skola hárnæringuna úr hárinu þá spreyja ég hárskolinu yfir og leyfi því að vera aðeins í hárinu áður en ég skola það úr með volgu vatni. Ég var alltaf með hárflækjur í hárinu eftir sturtu en þoldi ekki að greiða á mér hárið. Núna eru engar flækjur og ég greiði léttilega í gegnum hárið sem að eru stórtíðindi og mikið fagnaðarefni fyrir mig. Hárskolið inniheldur lífrænt eplaedik,te úr bláum malva blómum, sítrónu og lime ilmkjarnaolíu. Ásamt því er varan vegan og er ekki prófuð á dýrum
Eftir að ég byrjaði að nota þessar vörur þarf ég ekki að þvo hárið mitt jafn oft og ég var að gera. Ég þvæ það 1-2 sinnum í viku og skola það bara með vatni þess á milli.
Ég fékk vörurnar að gjöf frá mena.is en ég myndi aldrei mæla með vörum sem að mér líkar ekki. Ég er hæstánægð með þessar vörur og mun versla þær aftur sjálf þegar að þær klárast.
-Anna Guðný
No Comments