Ef einhver hefði nefnt taubleyjur við mig fyrir nokkrum árum hefði ég grett mig og sagt ,,ojj, en ógeðslegt”. Ég var með þá ranghugmynd í hausnum að foreldrar sem notuðu taubleyjur á börnin sín væru með hendurnar í kúk allan daginn. Ég veit ekki af hverju, en þegar ég var ólétt af Hinriki Berg var ég alveg harðákveðin í að nota taubleyjur. Ég þekkti engan sem hafði notað þær og var þetta því algjörlega nýtt fyrir mér. En þrátt fyrir það var mjög sterk tilfinning innra með mér að þetta væri leiðin sem ég ætlaði að fara.
Núna er sonur minn rúmlega 6 mánaða og höfum við notað taubleyjur frá degi 1. Það er miklu minna mál en ég hélt og sé ég alls ekki eftir þessari ákvörðun. Mig langar að fara yfir kostina sem fylgja taubleyjunotkun því að taubleyjur komu mér mjög á óvart og held ég að það séu margar ranghugmyndir um þær þarna úti.
Ekki eins mikið vesen og maður heldur
Vissir þú að maður á alltaf að henda hægðum úr bréfbleyjum í klósettið áður en þú hendir þeim út í tunnu? Þetta vissi ég ekki og hef því miður aldrei gert. Það er ekki mikið öðruvísi að henda hægðum úr bréfbleyju í klósettið heldur en úr taubleyju. Þegar að barnið byrjar að borða þá losar maður hægðirnar úr taubleyjunum áður en maður skellir þeim í þvottavélina. En meðan að barnið er eingöngu á brjóstamjólk þarf maður ekki að skola bleyjurnar heldur hendir maður þeim beint í vélina. Síðan þegar að barnið byrjar að borða þá er hægt að nota t.d. sturtuhausinn til að skola hægðunum úr bleyjunni í klósettið og síðan geymir maður bleyjurnar í sérstökum poka sem að kemur í veg fyrir að lyktin af bleyjunum dreifist um íbúðina.
Taubleyjurnar þvær maður ca. annanhvern dag (fer eftir því hvað maður á margar) en bréfbleyjurnar þarf maður að skottast með út í ruslatunnu nokkrum sinnum á dag svo að heimilið lykti ekki illa. Þar sem að ég bý í blokk og það er langt að fara með ruslið kemur það sér afar vel fyrir mig að þurfa ekki að fara mörgum sinnum út með ruslið á dag.
Umhverfisvænna
Bréfbleyjur eyðast ekki upp í náttúrunni og er talað um að hvert barn noti a.m.k. 6500 bleyjur á fyrstu árunum. Þessar 6500 bleyjur safnast síðan upp í landfyllingu. Bréfbleyjur eru m.a. gerðar úr plasti, ilmefnum og litarefnum. Það er gengið á óendurnýjanlegar auðlindir við framleiðslu á bréfbleyjum en gríðarlegt magn af olíu er í bleyjunum. 1 bolli af óhreinsaðari olíu þarf til að framleiða plastið í eina bréfbleyju. Þú getur ýmindað þér hve mikið af olíu fer í að búa til einnota bréfbleyjur handa öllum börnum landsins.
Þrátt fyrir að það kosti bæði vatn og orku að þvo taubleyjurnar eru þær mun umhverfisvænni kostur heldur en bréfbleyjur. Í samanburði við taubleyjur þarf 2,3 sinnum meira vatn og 3,5 sinnum meiri orku í framleiðslu á bréfbleyjum. Önnur neikvæð umhverfisáhrif af völdum taubleyja eru vegna losun mengandi efna í vatn en eitthvað er um að óumhverfisvæn þvottaefni séu notuð til að þrífa taubleiurnar. Ég hvet því alla, hvort sem þeir nota taubleyjur eða ekki, til að vanda valið á þvottaefni svo að það sé bæði öruggt fyrir barnið og náttúruna.
Betra fyrir barnið
Aðalástæðan fyrir að ég nota taubleyjur er til að vernda barnið mitt frá skaðlegum efnum sem eru í bréfbleyjum. Bréfbleyjur eru m.a. úr plasti ásamt því að innihalda ilmefni, litarefni og önnur efni sem geta ollið ofnæmisviðbrögðum. Það er mjög algengt að þeir sem að hafa notað bréfbleyjur og skipta síðan yfir í taubleyjur sjá mikinn mun á húð barnanna sinna þar sem að þau voru gjarnari á að fá útbrot þegar að bréfbleyjurnar voru í notkun.
Húðin er stærsta líffærið okkar og allt sem að kemst í snertingu við hana á greiðan aðgang í blóðrásina okkar. Það skiptir því miklu máli hvaða vörur við notum á börnin okkar. Ég ætla ekki að fara ítarlega út í það hér hvaða varasömu efni eru í bréfbleyjum. En það eru m.a. skaðleg efni sem gera það að verkum að bleyjurnar geta dregið verulegt magn af vökva í sig án þess að barnið finni mikið fyrir því. Maður sér alltaf aftan á barninu þegar að bréfbleyjan er orðin full en það er ekki nokkur leið að sjá það á taubleyjum þar sem að þær draga ekki svona mikið í sig eins og bréfbleyjurnar. Taubleyjurnar leka samt alls ekki ef maður notar þær rétt en maður þarf að sjálfsögðu að skipta reglulega á þeim til að koma í veg fyrir að barnið fái útbrot eða roða.
Auðveldara að venja barnið af bleyjunotkun
Einn af kostunum við taubleyjur er að þegar að barnið pissar verður bleyjan rennandi blaut svo að barnið finnur vel fyrir því að það sé blautt. Það gerir það að verkum að það verður auðveldara að hætta með bleyju þegar að barnið verður eldra og finnur óþægindin sem fylgja því að gera þarfir sínar í bleyju. Margir foreldrar sem að nota taubleyjur notast við aðferð sem að heitir Elimination Communication sem að snýst aðallega um að læra inn á barnið á þann hátt að maður viti hvenær það þarf að gera þarfir sínar. Alveg eins og maður lærir þegar að barnið er þreytt eða svangt. Þegar að barnið þarf að gera þarfir sínar er það látið gera þær í kopp en þetta á þó alls ekki að vera neikvæð upplifun fyrir barnið og snýst mikið um að hafa ást og kærleika í fyrirrúmi. Ég er sjálf mjög spennt fyrir þessari aðferð og hlakka til að kynna mér hana nánar.
Hagstætt
Það borgar sig alltaf að nota taubleyjur peningalega séð. Stofnkostnaðurinn er misjafnlega hár eftir því hvort að maður kjósi að kaupa notaðar bleyjur eða nýjar. En nýjar bleyjur hef ég keypt á íslensku heimasíðunum hondihond.is og bambus.is og notaðar bleyjur hef ég keypt í Facebookhópnum taubleiutorg. Taubleyjugerðirnar eru misdýrar og misjafnt hvað hentar hverju barni fyrir sig. Þrátt fyrir það er alltaf mun ódýrara að kaupa taubleyjur heldur en að kaupa bréfbleyjur. Ef að maður passar vel upp á bleyjurnar er að sjálfsögðu hægt að nota sömu bleyjurnar á næstu börn og auðvelt er að selja þær aftur þegar að maður er hættur að nota þær.
Við erum öll að reyna okkar besta og er ég alls ekki að setja út á þá foreldra sem kjósa að nota bréfbleyjur á börnin sín. Mig langaði að fjalla um okkar reynslu af taubleyjum því að ég held að þær séu rosalega vanmetnar og margar ranghugmyndir í gangi hvað þær varðar. Eins eru bréfbleyjur ekki allar þar sem þær eru séðar bæði hvað umhverfið og barnið varðar. Langflestir nota bréfbleyjur á barnið og dettur því fáum í hug að það sé eitthvað slæmt við þær þar sem að allir eru að nota þær. Ég hvet alla til að kynna sér málið nánar og að vera alltaf spyrjandi í venjum sínum og íhuga af hverju við gerum hlutina eins og við gerum þá. Það er ekki endilega alltaf betra að elta hjörðina.
-Anna Guðný
No Comments