Nú þegar að styttist óðum í jólin langar mig að biðja þig um að staldra aðeins við og endurskoða tilgang jólanna og neysluna sem fylgir þeim.
Flest okkar tengja jólahátíðina við það að gefa og fá pakka. Í barnæsku mat maður það jafnvel sem svo að þeir sem gáfu manni dýrustu gjafirnar hlytu að elska mann mest. Sem að bæði ég og þú vitum að er langt frá sannleikanum. En samt hef ég undanfarin ár alltaf verið að rembast við að gefa öllum dýrar og fallegar gjafir, því ég elska fólkið mitt svo mikið og vildi sýna þeim það. Ég var með kvíða yfir því allt haustið hvernig ég ætti að fjármagna gjafirnar og vildi ekki fyrir mitt litla líf að fólkið mitt vissi að ég ætti ekki efni á gjöfunum og tók ég því oftar en ekki yfirdrátt fyrir þeim. Fyrir 2 árum síðan sá ég hversu brenglað þetta var og fór að reyna að gera gjafirnar á eins ódýran og nytsamlegan hátt og hægt væri. Ég gaf eitthvað matarkyns sem ég hafði útbúið sjálf, sjálfshjálparbækur eða upplifanir. En í ár er ég að taka mest spennandi skrefið hingað til og ætla ekki að taka þátt í jólagjöfum. Ég vil s.s hvorki fá gjafir né gefa gjafir.
Af hverju? Ástæðan fyrir því er margþætt.
Hvað erum við að styðja við?
Í hvert skipti sem við kaupum einhverja vöru þá erum við að styðja við framleiðslu hennar og aukin eftirspurn kallar á meiri framleiðslu. Sú framleiðsla gæti haft neikvæð áhrif á umhverfið, dýr eða starfsfólkið sem vinnur að við framleiðslu hennar. Fáir leiða hugann að því hver bjó til vöruna og hvort að það var einstæð móðir hinum megin á hnettinum að vinna við ömurlegar aðstæður til þess að geta séð fyrir börnunum sínum. Við vitum heldur ekki hvort að það voru eiturefni notuð við framleiðsluna og hvaða áhrif framleiðslan hefur á umhverfið. Einnig höfum við ekki hugmynd um hvort að varan var prufuð á dýrum eða að framleiðsla hennar hafði neikvæð áhrif á búsvæði þeirra. Þegar að við veljum ódýrasta kostinn þarf því miður einhver annar að borga fyrir það. Það er ástæða fyrir því að vörur sem eru með gæðavottanir og eru framleiddar við mannúðlegar aðstæður í sátt við umhverfið – eru dýrari.
Þurfum ekki meira
Hvort sem að það eru börn eða fullorðnir, þá hefur of mikið dót og drasl í kringum okkur streituvaldandi áhrif á heilsu okkar. Það er ekki gott fyrir okkur að drukkna í drasli sem að hefur engan tilgang. Flestir þurfa ekki meira af hlutum í líf sitt og því er miklu nær að styrkja t.d. gott málefni eða gefa upplifanir í staðin fyrir að fara út í búð og kaupa einhvern dauðan hlut. Staðreyndin er sú að ef við ætlum að bregðast við lofstlagsbreytingum þá þurfum við að draga úr framleiðslu í heiminum. Lofstlagsbreytingar munu hafa áhrif á lífsgæði barnanna okkar í náinni framtíð og við viljum ekki að neyslubrjálæði okkar bitni á þeim.
Hver er tilgangurinn?
Við þurfum að endurhugsa tilgang jólanna upp á nýtt. Það er ekki eðlilegt að vinna allan sólarhringinn til að eiga fyrir dýrum gjöfum handa börnunum okkar eða okkar nánustu. Hvaða skilaboð er maður að senda börnunum sínum með því? Að þau eigi að gera slíkt hið sama þegar þau verða eldri? Að þau eigi að slíta sig út til að eiga það dýrasta og flottasta? Að hlutir gera mann hamingjusaman? Þegar ég var yngri þá var ég alltaf svo sorgmædd þegar að ég var búin að opna pakkanna. Ég hugsaði oft hvort ég ætti að dreifa þessari gleði meira yfir jólin og geyma einhverja pakka til að opna seinna. Því ég hélt í alvörunni að pakkarnir væru tilgangur jólanna. Það eru ekki skilaboðin sem að ég vil senda syni mínum og ætla ég að leggja mikið upp úr góðum samverustundum og gera eitthvað skemmtilegt með honum.
Besta gjöfin er samvera. Það er að spila með fólkinu sínu, borða góðan mat, fara út í göngutúr og slaka á saman. Þegar á botninn er hvolft þá skiptir engu máli hvað maður gaf eða fékk í jólagjöf. Það sem maður man eftir eru minningarnar, tíminn sem maður átti með fólkinu sínu og kærleikurinn sem umvaf alla á þessum huggulega tíma. Hlutir gera okkur ekki hamingjusöm né sýna hversu mikið maður elskar viðkomandi. Ef þú vilt sýna einhverjum að þú elskir hann þá mæli ég með að þú eyðir tíma með viðkomandi, sýndu að hann skiptir þig máli, hlustaðu, gefðu athygli þína, ást og kærleik.
Umhverfisvæn jól – hvernig getur þú ollið sem minnstu kolefnisspori í desember?
Að lokum langar mig að koma með nokkra punkta til þess að hjálpa þér að tækla jólin á sem umhverfisvænasta máta.
Ef þú gefur jólagjafir mæli ég með að þú:
- Pakkir þeim inn í dagblöð og sleppir því að kaupa gjafapappír sem var framleiddur lengst út í heimi og fluttur hingað til lands með tilheyrandi kolefnisspori. Einnig er sniðugt að geyma alltaf gjafapappír sem þú færð og endurnýta þegar þú ætlar að gefa gjafir.
- Borgir meira fyrir gæðavörur sem framleiddar voru í sátt við dýr, umhverfið og starfsfólk.
- Gefir upplifanir eins og t.d. leikhúsmiða, gjafabréf út að borða, gjafabréf í spa, yogakort, gjafabréf í kakóhugleiðslu eða bara hvað sem þér dettur í hug.
- Gefðu eitthvað sem að viðkomandi hefur virkilega þörf fyrir og vantar.
- Búðu til gjafirnar sjálf/ur. Þú getur gert heimatilbúnar og umhverfisvænar snyrtivörur, búið til konfekt, granóla, pestó, sultur eða hvað sem er.
- Fyrir þá sem eiga allt og þú veist ekki hvað þú átt að gefa mæli ég með að kíkja inn á sannargjafir.is og styrkja gott málefni.
- Þrengir þann hóp sem þú gefur gjafir, oft erum við að gefa of mörgum gjafir út af einhverri hefð og erum að kaupa mikið af ódýru drasli bara til þess að gefa eitthvað. Vertu fyrri til að stinga upp á að þið sleppið gjöfum í ár, trúðu mér það verða allir fegnir.
Varðandi matarsóun þá mæli ég með að þú:
- Skipuleggir innkaupin vel og kaupir einungis það sem þú þarft til þess að koma í veg fyrir matarsóun. Búðirnar eru meira og minna opnar yfir hátíðarnar og því hægt að hoppa og kaupa ef eitthvað vantar.
- Bakir hæfilega skammta af smákökum. Það er í lagi þó að smákökurnar klárist og enginn þörf á að baka risastóra skammta af smákökum til þess að eiga yfir alla hátíðina. Leiðilegt yrði að standa frammi fyrir því að þurfa að farga þeim vegna þess að þú bakaðir of mikið.
- Njótir hvers bita og borðir hægt og rólega. Jólin eiga ekki að snúast um að borða 5x meira en venjulega og að geta varla staðið upp vegna þess að maður er svo saddur.
Svo að lokum vil ég minna á að við þurfum ekki nýtt jóladress, jólahár, jólaskó, jólaneglur – né jóla hitt og jóla þetta. Við erum látin trúa því að þetta sé allt svo nauðsynlegur partur af undirbúningi jólanna enda koma skilaboðin frá þeim sem að vilja viðskipti við okkur. Það er enginn skömm af því að nota sömu sparifötin oft og að vera ekki með splunkunýja hárgreiðslu. Við erum ekki að fara í forsíðumyndatöku á heimsfrægu tímariti á aðfangadag og flest okkar hoppa beint úr sparigallanum strax og búið er að opna pakkana.
Það er undir okkur sjálfum komið hvort að við tökum þátt í jólastressi, kaupæði og neyslubrjálæði. Við þurfum ekki að taka þátt í þessu og er núna kjörið tækifæri til að endurskoða hefðirnar og betrumbæta. Desember og jólahátíðin getur verið notalegur tími uppfullur af góðum minningum og ánægjulegum samverustundum.
Njóttu þín og þinna um jólin,
– Anna Guðný
No Comments