Þegar að maður undirbýr komu fyrsta barnsins síns vill maður gera allt 100% rétt og er mikið sem maður les sér til um. Eitt af því sem ég ákvað á meðgöngunni var að ég syldi hafa barnið mitt á taubleyjum og að ég myndi gera heimatilbúnar blautþurrkur.
Af hverju?
Ég hef orðið fyrir mikilli vakningu sjálf hvað varðar snyrtivörur og læt því ekki neitt á mig nema að ég sé örugg um að varan innihaldi engin skaðleg efni. Húðin er okkar stærsta líffæri og það sem við berum á hana á greiðan aðgang inn í blóðrásina okkar og hefur þ.a.l. áhrif á líkamsstarfsemina alla. Ég mun því alltaf velja það besta fyrir barnið mitt líkt og ég geri fyrir mig. En í blautþurrkum sem við kaupum út í búð eru skaðleg efni sem ég kæri mig ekki um að nota á viðkvæma bossa barnsins míns. Þegar ég les á innihaldslýsingar vil ég hafa örfá innihaldsefni, helst þekkja þau öll og best er að þau séu lífræn líka. Besta leiðin til að vera örugg/ur um að maður noti vöru með fáum og gæðamiklum innihaldsefnum er að gera hana sjálfur. En það þarf alls ekki að vera neikvætt né leiðilegt þar sem að það er mikið frelsi þegar að maður er ekki háður því að hoppa út í búð þegar að blautþurrkurnar klárast.
Einfaldara en þú heldur
Ég viðurkenni það alveg að ég hélt að þetta yrði basl og myndi krefjast mikillar fyrirhafnar að gera mínar eigin blautþurrkur. En það er alls ekki raunin – sem betur fer! Það tekur enga stund að útbúa blautþurrkurnar og dugar skammturinn í allavega sólarhring. Maður notar nefnilega miklu færri blautþurrkur á barnið þegar að maður gerir þær sjálfur. Ég nota mesta lagi 2 við bleyjuskipti en oftast bara eina. Það fer auðvitað eftir stærðinni á þurrkunum sem maður kýs að nota, hversu margar þurrkur maður þarf.
Hvað þarf ég?
- Lífræna kókosolíu
- Box undir þurrkurnar
Ég mæli ekki með plasti þar sem að skaðleg efni úr plastinu geta auðveldlega losnað úr því þegar að maður setur heitt vatn í það. Ég nota þetta box hér. - Fjölnota þurrkuklúta
Ég keypti tvær tegundir af heimasíðunni bambus.is. Ég keypti panda bambus klúta sem eru stórir og þægilegir og getur maður vel komist af með einn svoleiðis við hver bleyjuskipti. En þar sem að þeir klútar kosta sitt þá ákvað ég líka að kaupa þurrkuklúta frá bumgenius með. Mér finnst fullkomið að eiga báðar tegundirnar saman en panda bambus klútarnir eru þó mun betri.
Sumir nota lífrænar ilmkjarnaolíur í svona þurrkur og er það mjög sniðugt þegar að börnin eru eldri. En meðan að maður á lítið kríli vil ég ekki nota neina lykt til að halda í fersku og góðu ungbarnalyktina.
Hvað geri ég?
- Þú byrjar á því að sjóða vatn,ca. 250 ml, fer auðvitað eftir því hversu margar þurrkur þú ert með og hverstu stórt boxið þitt er.
- Á meðan að vatnið sýður er sniðugt að brjóta fjölnota þurrkurnar fallega saman í boxið svo að þær komist vel fyrir.
- Settu 1 tsk af kókosolíu í bolla og helltu síðan sjóðandi heitu vatninu í bollan. Blandaðu vel saman og helltu blöndunni yfir þurrkurnar þegar að kókosolían er bráðin í vatninu.
- Þegar að þurrkurnar hafa kólnað þá rúlla ég þeim upp í boxinu og vind þeim aðeins saman svo að þær séu örugglega allar blautar.
Hvað svo?
Þar sem að ég nota taubleyjur þá skelli ég heimatilbúnu blautþurrkunum í þvottavélina með taubleyjunum og koma þær tandurhreinar til baka. Þegar að maður er með krílið eingöngu á brjósti er ekki hægt að tala um að þetta séu hægðir svo að það er akkurat ekkert ógeðslegt við að setja þetta í þvottavélina. En þegar að barnið fera að smakka mat þá skolar maður vel úr þessu áður en maður setur þetta í vél.
Það er síðan hægt að útbúa svona klúta til margra annarra nota. Maður getur m.a. haft þá með sér í ferðalagið til að þvo skítugar hendur eða t.d. notað sem hreinsiklúta í andlitið. En maður myndi náttúrulega ekki henda þeim klútum með í taubleyjuþvottinn heldur þvo sér.
Það eru margir kostir sem fylgja því að gera blautþurrkurnar sjálfur en það er t.d. mjög umhverfisvænt þar sem að maður er ekki að kaupa eitthvað pakkað inn í plast eins og flestar blautþurrkur eru. Blautþurrkurnar sjálfar fara heldur ekki í ruslið hjá manni líkt og með einnota blautþurrkur. Eins er það mjög hagkvæmt að gera blautþurrkurnar sínar sjálfur, þetta er mjög ódýr og sparsöm leið. Þú getur rétt ýmindað þér magnið af blautþurrkum sem að maður notar á eitt bleyjubarn og hvað það kostar. En langstærsti kosturinn af því að gera blautþurrkurnar sjálfur er að enginn útbrot eða roði hefur sést á bleyjusvæðinu eins og svo oft vill gerast þegar að maður notar einnota blautþurrkur.
Ég vona að þú látir á það reyna að gera blautþurrkurnar þínar sjálf/ur fyrir bæði barnið þitt og umhverfið. Það er ekkert mál, trúðu mér!
-Anna Guðný
No Comments