Elskaðu Umhverfið

Flokkar þú plast til endurvinnslu?

Það hefur orðið mikil vitundarvakning hvað varðar umhverfisvernd og hvað við mennirnir getum haft slæm áhrif á náttúruna. Við jarðarbúar ættum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að jörðin verði í góðu standi fyrir komandi kynslóðir. Við viljum ekki að afkomendur okkar þurfi að taka við afleiðingunum af sóðaskapnum í okkur og verðum því að taka ábyrgð á neysluvenjum okkar. Plastnotkun hefur farið upp úr öllu valdi í heiminum og hafa myndast heilu plastfjöllinn í sjónum vegna neysluvenja okkar.

Taktu ábyrgð á neysluvenjum þínum

Plast er óneitanlega stór þáttur af neysluvenjum okkar og miklu meiri þáttur en manni grunar. Plastið leynist víða en það er ekki einungis að finna utan um matvörur og í burðarpokum þar sem við sjáum það. Þá má t.d. finna plastagnir í hreinlætis- og snyrtivörum sem enda síðan út í sjó. Flíkur sem við kaupum út í búð eru t.d. hver og ein pakkaðar inn í plast þegar að þær lenda í búðunum. Einnig er plast í tyggjói, fataefnum, raftækjum, ökutækjum, tannburstum og flestum umbúðum. Sumt af þessu þurfum við og annað ekki. Fyrst og fremst þurfum við að hætta að kaupa einnota vörur, endurnýta það sem til er og kaupa vörur sem hafa góða endingu þegar að maður þarf að kaupa eitthvað.

Í hvert sinn sem við kaupum eitthvað erum við að styðja við ákveðna framleiðslu, við sem neytendur getum því haft gríðarlega mikil áhrif á það sem er í boði. Því fleiri sem kjósa að sniðganga plast, því fleiri bjóða upp á vörur sem innihalda ekki plast og eru ekki pakkaðar inn í plast. Ég hvet þig því til að skoða neysluvenjur þínar og vera vakandi fyrir því hvað þú ert að kaupa.

Eiturefni í plasti

Það eru ýmis efni í plasti sem eru skaðleg fyrir heilsu okkar. Þau eru talin vera hormónaraskandi og hafa m.a. verið tengd við hjartasjúkdóma og sykursýki. Ég ætla ekki að fara ítarlega í þau hér en langar að taka fram að þó að það sé til plast á markaðnum sem er laust við ákveðin eiturefni þá er það ekki endilega öruggt. Plastið getur samt innihaldið skaðleg efni og/eða það er búið að setja önnur skaðlegri efni í staðin. Þegar að við kaupum t.d. mat sem er pakkaður inn í plast leka eiturefnin í matinn okkar, sérstaklega þegar maður hitar matinn upp í plastinu. Einnig er talað um að það sé tenging á milli plastrusls í hafinu og hversu mengaðir fiskarnir eru. Ýmis eiturefni loða við plastið og berast því víða og menga lífríki á fjarlægum stöðum. Það er því líklegt að eiturefnin berist upp fæðukeðjuna og alla leið til okkar.

Má ekkert lengur?

Ég veit að það er stöðugt eitthvað í umræðunni sem að við eigum að sniðganga því að það er talið skaðlegt fyrir okkur og sumir röfla yfir því að það megi ekkert lengur – að það sé aldrei hægt að sniðganga allt það sem er skaðlegt fyrir okkur. Ég skil þá hugsun mjög vel enda snýst lífið um að njóta og að vera í núinu. En það þýðir samt ekki að maður eigi ekki að vera vakandi í neysluvenjum sínum og að vera upplýstur fyrir bæði sig og fjölskylduna sína. Það er mikilvægt að vera spyrjandi í lífinu og pæla af hverju við gerum hlutina eins og við gerum þá og hvort betra sé að gera þá öðruvísi.

Mikilvægt að endurvinna plast

Á vef umhverfisstofnunar kemur fram að:

Plast er framleitt úr olíu og þarf u.þ.b. 2 tonn af olíu til að framleiða 1 tonn af plasti. Niðurbrot plasts tekur hundruði ára og safnast það því upp á urðunarstöðum við förgun. Plast brotnar mjög hægt niður en þess í stað molnar það og dreifist um umhverfið.  Stór hluti plast  berst út í haf með regni, vindi eða ám.  Plast sem velkist um í hafinu berst auðveldlega í maga dýra, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og jafnvel kafnað. Eiturefni sem fyrirfinnast í plastinu eða sitja utan á því eiga greiða leið inn í vistkerfið og þar með í fæðukeðjuna.  Til að draga úr mengun og forðast óþarfa sóun auðlinda er mikilvægt að endurvinna eins mikið af plasti og mögulegt er.

Þegar að ég áttaði mig á mikilvægi þess að flokka ruslið mitt til endurvinnslu og þ.a.l að flokka plastið frá sá ég hversu mikið af plasti maður er að nota. Plastdallurinn fylltist skelfilega fljótt og fyllti það mig af metnaði til að minnka plastnotkunina á heimilinu. Ég hef tekið mörg skref í átt að minnkaðri plastnotkun og er draumurinnn að lifa alveg umbúðalausum lífsstíl. En það plast sem ég hef ekki ennþá fundið lausn á að sniðganga flokka ég frá og fer með í endurvinnslu.

Það þýðir ekki að hugsa að það sem ein manneskja gerir mun ekki hafa teljandi áhrif á heiminn. En pældu í því ef að allir myndu hugsa svoleiðis? Þá myndi ekkert jákvætt gerast. Þó að maður sjái áhrifin kannski ekki beint fyrir framan sig þá mun móðir jörð svo sannarlega finna fyrir þeim. Ef að allir leggja sitt af mörkunum vindur það upp á sig og áhrifin verða mikil – umhverfinu okkar til góðs.
Ég hvet þig til að flokka það plast sem fellur til eftir þig og fara með það til endurvinnslu. Það er miklu minna mál en þú heldur. Settu gott fordæmi fyrir fólkið í kringum þig og taktu ábyrgð á því að búa á þessari stórmögnuðu plánetu. Þú og þínar venjur skipta máli fyrir þig, umhverfið og allt lífríki jarðar.

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply