Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Útilegutacos

Það er eitthvað svo heillandi við það að útbúa heilsusamlega og bragðgóða máltíð undir berum himni í fallegri náttúru. Þegar ég fer í útilegur á sumrin þá er það fyrsta sem ég hugsa um er hvaða gúmmelaði er hægt að gæða sér á í útilegunni. Hvert ég er að fara og hvernig veðrið er bara aukatriði (djók – samt ekki) En það þarf samt alls ekki að vera flókið né fyrirhafnarmikið að útbúa skemmtilegar máltíðir í útilegu. Þar er nefnilega einfaldleikinn alltaf bestur með dass af skipulagi. Best er nefnilega að ákveða áður en maður fer af stað hvað maður ætlar að borða – allavega í kvöldmat og hádegismat svo maður geti keypt bara í þær máltíðir. Annars er hætt við að maður kaupi alla búðina fyrir brottför og sitji uppi með allt of mikið af mat sem tók allt plássið í bílnum.

En í þessari færslu ætla ég að deila með þér minni uppáhalds-útilegumáltíð sem hefur alltaf slegið í gegn. Fallegar grænmetistaco’s eru ekki bara sjúklega girnilegar heldur myndast alltaf skemmtileg stemming við það að borða þær með fólkinu sínu. Vindum okkur í verkið!

Útilegu tacos

Guacamole

  • 2 stór avacado
  • 1/2 lítill laukur
  • límónusafi
  • salt

Stappaðu niður avacadoin með smá límónusafa og salti. Mikilvægt að vera duglegur að smakka til hér og aðlaga þetta að þínum bragðlaukum. Svo er gott að skera ferskan lauk smátt niður og hræra saman við.

Gulrætur

  • Rifnar gulrætur
  • Lime safi og
  • Lime börkur
  • Steinselja (eða önnur fersk kryddjurt)

Rífðu niður gulræturnar með rifjárni og kreistu smá límónusafa yfir. Gott er að rífa svo smá börk af límónu yfir og bera þetta fram með saxaðari steinselju.

Ferskt salsa

  • Granatepli
  • Kiwi (gott að setja mangó ef þú átt ekki kiwi)
  • Mynta

Grænmeti á grillið

  • Kúrbítur
  • Paprika
  • Cumin fræ
  • Paprikuduft
  • Óreganó
  • Salt & pipar

Skerðu niður kúrbítinn & paprikuna og veltu þeim upp úr smá kókosolíu og vatni. Kryddaðu síðan með ofantöldum kryddum og nuddaðu þeim vel á. Skelltu þessu svo á grillið eða í ofninn ef þú ert heima.

Svo bar ég þetta fram með kasjúsósu og í glútenlausum tacovefjum (fást í krónunni). Uppskriftina af kasjúsósunni finnur þú hér. Ég mæli með að vera búin/n að útbúa kasjúsósuna fyrir útileguna því að maður þarf blandara til þess.

Ég elska skipulag og allan matarundirbúning, sérstaklega þegar maður er á miklu flakki og lítill tími gefst til þess að útbúa mat. Það er auðvitað lítið mál að græja þessa máltíð í útilegunni og væri þess vegna hægt að skipta verkum í undirbúningnum. En ef maður veit að maður verður á miklu flakki að þá er þess vegna hægt að vera búin/n að grilla grænmetið heima, útbúa guacamoleið og gera kasjúsósuna. Þá er það eina sem þú þarft að gera er að hita aðeins grænmetið og tacoið sjálft upp á grillinu ásamt því að útbúa gulræturnar og salsað.

Njóttu vel!
– Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply