Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Falafelskál

Ég elska svo mikið hvað það er auðvelt að nálgast allskyns holl hráefni í matvörubúðum landsins nú til dags, en það eru alls ekki mörg ár síðan að maður var í marga klukkutíma að búa til sína eigin grænmetisborgara, falafel og grænmetisbollur alveg frá grunni. Núna er auðvelt að fá þetta bara tilbúið sem frystivöru út í búð sem gerir það svo margfalt fljótlegra að setja saman hollar og girnilegar máltíðir.

Það að útbúa holla & girnilega fæðu í eldhúsinu er svo mikil ást fyrir mér. Ég elska að deila þessari ást með því að elda fyrir þá sem ég elska en líka fyrir mig sjálfa þegar að ég er ein. Þegar ég elda fyrir mig eina gefst einhvernveginn meiri tími til að nostra við hlutina og að skapa nýjar hugmyndir. Hugmyndin að þessari skál varð til því mig langaði svo ótrúlega mikið í falafelvefju en ég verð mjög þreytt þegar ég borða glúten svo mig langaði að gera þetta sjálf í salatformi. Það kom ótrúlega vel út og er þetta eitthvað sem ég mun gera aftur & aftur og mæli mikið með. 5 ára sonur minn, Hinrik Berg, elskar allan svona mat og þá sérstaklega þegar að hann fær að taka þátt í að útbúa hann. Svo leyfi ég honum alltaf að velja sjálfur hvað hann fær sér á diskinn og í hversu miklu magni. Þannig verður engin pressa við matarborðið og hann lærir að lesa í sinn líkama hverju sinni.

Til þess að fá börn til að borða meira grænmeti er mjög sniðugt að setja hráefnin saman á borðið og leyfa þeim að velja sjálf á diskinn sinn. Að þau setji saman sýna máltíð sjálf. Ef að þau velja bara 2 hráefni að þá er það bara flott og óþarfi að vera að pressa á þau að borða eitthvað sem að þau vilja ekki. Ef að maður skapar sjálfur það flæði að þau megi alveg ráða hvað þau borða af því sem að er í boði þá eru þau tilbúnari að smakka því að þau finna ekki fyrir pressu eða væntingum. Þau vita alltaf best hvað þau vilja hverju sinni og hversu mikið magn þau þurfa, aðalatrið er að treysta því og kenna þeim að hlusta á sinn líkama snemma.

Það sem að þú þarft:

  • Tómatar
  • Rauðlaukur
  • Rauðkál
  • Granatepli
  • Sætar kartöflur
  • Fersk paprika
  • Ferskt salat
  • Gúrka
  • Falafel
  1. Byrjaðu á því að skera niður sætar kartöflur og baka þær í ofni.
  2. Skerðu svo niður ferska grænmetið.
  3. Hitaðu falafelið í ofninum.
  4. Gerðu sósuna

Tahinisósa

  • 3 msk tahini
  • 2 msk ólífuolía
  • 1/2 msk sítrónusafi
  • 1 hvítlauksrif
  • 2 döðlur
  • 1 dl vatn
  • 1 tsk paprikukrydd
  • 1 msk tamarisósa
  • sítrónupipar
  • gróft salt

Skelltu öllum hráefnunum saman í litla blandarakönnu eða hrærðu þessu saman með písk í skál. Ef þú átt ekki litla blandarakönnu þá getur þú notað aðra sætu eins og t.d. smá hlynsíróp eða sleppt henni bara alveg. Ég nota sjálf glasið sem fylgdi með Ninja 3 in 1 Auto IQ mjög mikið til að gera svona sósur en það er alveg hægt að redda sér með gaffli/písk og skál.

Þegar öll hráefnin eru tilbúin skellir þú svo máltíðinni saman í skál og nýtur í botn með bestu lyst <3

Ást,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply