Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Gómsæt rauðrófuskál

Ég elska að deila með ykkur einföldum og bragðgóðum uppskriftum. Þó að ég elski að borða hollan mat þá nenni ég ekki alltaf að eyða miklum tíma í eldhúsinu þó að stundum sé ég í stuði fyrir það. En það koma stundum dagar þar sem að ég nenni ekki að útbúa flókna máltíð og vil geta skellt í einfalda og holla máltíð. Að þessu sinni ætla ég því að deila með þér gómsætri rauðrófuskál sem að bragðast ekki bara eins og sælgæti heldur líður manni eins og maður geti sigrað heiminn eftir að hafa borðað hana.

Rauðrófu og eplasalat

  • 200 g bakaðar rauðrófur
  • 100g lífrænt epli

Sósan

  • 2 msk möndlusmjör
  • 2 tsk sítrónusafi
  • 2 msk kaldpressuð ólífuolía
  • 2 tsk hlynsíróp
  • 1/4 tsk gróft salt
  1. Ég mæli með að þú byrjir á að baka rauðrófur í ofni. Bakaðu þær bara heilar við 180°C á blæstri í u.þ.b. 40-50 mín eða þar til að þær eru alveg bakaðar í gegn. Leyfðu þeim að kólna og afhýddu þær síðan. Skerðu þær í teninga og eplið líka.
  2. Hrærðu síðan öllum innihaldsefnum sósunnar vel saman með gaffli eða í lítilli matvinnsluvél.
  3. Blandaðu svo sósunni saman við rauðrófurnar og eplið

Ég bar þetta svo fram með fersku lambhagasalati, soðnu kínóa, ferskri lárperu(avacado), gufusoðnu brokkolíi(það má líka baka það í ofni) og ristuðum kókosflögum en þær setja alveg punktinn yfir i-ið. Ég ristaði þær í ofni við 150°C í 10 mínútur.

Það skemmtilega við þessa máltíð er að þú getur þess vegna undirbúið hana daginn áður eða jafnvel kvöldið áður. Bara með því að eiga bakaðar rauðrófur og soðið kínóa í ísskápnum ertu komin langleiðina með því að útbúa þessa máltíð. Eins má alveg gera sósuna daginn áður líka.

Ég elska að skella mínu uppáhalds grænmeti í skál og hversu vel manni líður á eftir. Eftir að ég hætti að borða dýr þá hef ég fengið að sjá að maður þarf alls ekki að liggja afvelta með grjót í maganum eftir allar máltíðir því að maður er svo saddur. Það besta sem ég veit er að vera svona þægilega södd og geta gengið strax frá eftir matinn og haft orku í allt sem að mig langar að gera strax eftir matartímann.

Njóttu vel!

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply