Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Mexíkanskt lúxussalat

Ég elska að borða litríkan mat og finnst mér salöt vera snilldar leið til að búa til litríkan disk. En það þarf alls ekki mikla fyrirhöfn til að útbúa fallegt og bragðgott salat. Það er upplagt til að hafa það í kvöldmat í miðri viku þegar að maður á annríkt og jafnvel grípa afganginn af því með sér í nesti næsta dag. Salat er nefnilega frábær leið til að borða fæðu sem er stútfull af næringarefnum og vítamínum sem gerir gott fyrir kroppinn okkar. Ég elska líka hversu vel manni líður alltaf eftir að hafa borðað gott salat, það er alls ekki of þungt í magann en samt er maður saddur. 

Mexíkanskur matur er í miklu uppáhaldi hjá mér og gæti ég borðað hann í öll mál ef það væri í boði. Í þetta sinn ákvað ég því að gera mexíkanskt salat sem að er algjört lostæti. Salat þarf nefnilega alls ekki að vera þurrt og leiðilegt, það er vel hægt að gera það djúsí og bragðgott. En þetta unaðslega mexíkanska salat er t.d. upplagt að bjóða upp á í matarboði því að það krefst lítillar fyrirhafnar en er á sama tíma mjög gott og hálfgert spari. 

Salatið

Það sem þú þarft
  • Mild salsasósa
  • Gular baunir
  • Svartar baunir
  • Sæt kartafla
  • Kirsuberjatómatar
  • Paprikukrydd
  • Lífræn Sítróna
  • Rauðlaukur
  • Sveppir
  • Lambhagasalat
Það sem að þú gerir
  1. Byrjaðu á því að skera niður sætu kartöfluna í teninga og settu hana í eldfast mót ásamt olíu. Kryddaðu hana með paprikukryddi og salti. Bakaðu hana síðan í ofni og rífðu yfir hana lífrænan sítrónubörk þegar að hún kemur úr ofninum.
  2. Meðan að sæta kartaflan bakast er sniðugt að skera niður rauðlaukinn og tómatana.
  3. Því næst skalt þú steikja sveppi á pönnu.
  4. Settu sveppina, rauðlaukin, tómatana, sætu kartöfluna, lambhagasalatið, svörtu baunirnar, gulu baunirnar og 2-3 msk af salsasósunni saman í stóra skál og blandaðu saman.

Á toppinn

Guacamole

  • 2 lífræn avocado (200g)
  • 1 msk sítrónusafi
  • 3 msk lífræn kaldpressuð ólífuolía
  • 1/2 tsk gróft salt
  1. Settu öll innihaldsefnin í matvinnsluvél þar til að þetta er orðið silkimjúkt. Ef þú átt ekki matvinnsluvél er auðvitað hægt að blanda þessu saman í skál með því að stappa avacadoið niður.

Sýrður kasjú”rjómi”

  • 200g kasjúhnetur lagðar í bleyti yfir nótt
  • 160 ml vatn
  • 2 tsk eplaedik
  • 3 msk sítrónusafi
  • 2/3 tsk salt
  1. Hreinsaðu kasjúhneturnar með vatni. Settu síðan kasjúhneturnar, vatn og salt í blandara og láttu vinna lengi eða þar til að þetta er orðið alveg silkimjúkt.
  2. Smakkaðu eplaedikið og sítrónusafan til, svo að þetta sé aðlagað að þínum bragðlaukum.
  3. Geymist í ísskáp í 5-7 daga.

Svo er algjört lykilatriði að bera salatið fram með ferskum kóríander og glútenlausum tortilla flögum.

                     Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu. 

 

You Might Also Like

2 Comments

  • Reply Þórólfur Ingi Þórsson 28. desember, 2017 at 10:07

    Ég prófaði Mexíkanska salatið og það er mjög gott, mæli með því.
    Það þarf að bæta “tómötum” í upptalninguna á því sem þarf (uppskriftina) 😉

    • Reply heilsaogvellidan 15. janúar, 2018 at 10:32

      Gaman að heyra, takk fyrir ábendinguna. Ég kippi því í lag 😉

    Leave a Reply