Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Unaðslegt kínóasalat

Hvað er betra en salat sem er djúsí, bragðgott og færir manni þægilega seddutilfinningu? Það er allavega fátt betra að mínu mati. Það skiptir svo miklu máli fyrir almennt heilbrigði og vellíðan að hlúa vel að því að borða holla og næringarríka fæðu. Lykilatriði til þess að það verði að auðveldri rútínu og lífsstíl er að hafa mataræðið fjölbreytt, girnilegt og mjög mjög mjööög bragðgott! Að vera opin/n fyrir því að prufa nýjar uppskriftir, festast ekki í því sama og setja það í forgang að eiga tíma til þess að geta búið til fyrir sig fallega fæðu.

Þetta er ein af bestu fjárfestingum lífs þíns, tíminn sem þú setur í að útbúa holla fæðu og það þarf alls ekki að vera svo langur tími. Aðalatriðið er að gefa sér hann og þá verður þetta svo spennandi, skapandi og hollt & girnilegt mataræði verður þá auðveldlega partur af lífsstílnum þínum.

Þetta salat sem mig langar að deila með þér núna er algjört æði og tilvalið til að gera stóran skammt í kvöldmatinn og eiga afganginn í hádegismat næsta dags. Minnsta mál að skella því í stálbox og hafa jafnvel sem nesti í vinnunna! Það er líka mjög sparilegt að mínu mati og má þess vegna vera í fallegu matarboði eða veislu.

Það sem þú þarft:

 • Spínatkál
 • Ólífur
 • Sólþurrkaðir tómatar/ferskir
 • Furuhnetur
 • Gúrku
 • Tófú
 • Rauðlauk
 • Döðlur

Svona gerir þú:

 1. Byrjaðu á því að sjóða kínóað, 1/2 bolli af kínóa á móti 1 bolla af vatni. Best er að ná að leggja kínóað í bleyti yfir nótt upp á að ná að melta það vel. Ef þú nærð því ekki núna, mundu það þá bara næst.
 2. Á meðan kínóað er að eldast er upplagt að skera tófúið niður í jafna teninga. Settu það svo í eldfast mót, skvettu tamarisósu og kryddum eftir smekk með því. Bakaðu við 180°C á undir & yfir hita. Fylgstu vel með því og taktu það út þegar það er aðeins byrjað að brúnast. Leyfðu því svo að kólna.
 3. Ef að furuhneturnar eru ekki ristaðar, endilega ristaðu þær með því að setja þær á pönnu eða þá í eldfast form og inn í ofn við 150°C í 10-15 mínútur.
 4. Skerðu niður ólífur, sólþurrkaða tómata, gúrku, rauðlauk og döðlur.
 5. Þegar kínóað, tófúið og allt er klárt þá hrærir þú þessu saman í skál.
 6. Þá er ekkert eftir annað en að N-J-Ó-T-A!

Magn hráefnisins fer eftir því hvað þú ert að gera salat fyrir marga, en ég mæli með að gera meira en minna því þetta er alveg jafn gott daginn eftir.

Það væri gaman að heyra frá þér í athugasemdum hér fyrir neðan ef þú prufar að útbúa þessi dásamlegheit elsku hjarta <3

Ást,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply