Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Næring í skál, fyrir líkama & sál

Líf mitt varð svo miklu einfaldara þegar ég hætti að spyrja sjálfa mig að því hvað ég ætti að hafa í matinn. Þetta var spurning sem ég spurði sjálf móður mína mjög snemma dags mögulega alla daga í æsku því ég var alltaf svo spennt hvað yrði fyrir valinu, enda elskaði ég (og geri enn) að borða góðan mat. Núna þegar ég er sjálf með heimili að þá áttaði ég mig á því með tímanum að það sem að er í matinn þarf ekki endilega að heita eitthvað eins og það var kannski þegar ég var sjálf barn. Það býr oft til óþarfa pressu og væntingar.

Í dag er ég miklu meira að skoða hvað ég elda út frá næringarinnihaldi og því sem er til í ísskápnum. Hér áður hefði það reyndar heitið ,,samtíningur og sitthvað” sem er ekki nógu spennandi heiti – svo nafnlausar máltíðir eru algjörlega málið!

Það sem er mjög oft í bæði kvöldmat og hádegismat á mínu heimili er bakað & ferskt grænmeti saman í skál ásamt fleiri innihaldsefnum sem gerir þetta allt ennþá næringarríkara og bragðbetra. Lykilatriði er auðvitað að maturinn bragðist dásamlega, sé girnilegur og styðji við heilbrigði mitt & vellíðan.

Formúlan í svona skálum hjá mér er oftast þessi:

 • Bakað grænmeti
 • Soðið kínóa/hýðishrísgrjón
 • Ferskt grænmeti
 • Salat
 • Kjúklingabaunir/Tófú
 • Salatdressing

Svona skálar eru mjög barnvænar og slá alltaf í gegn á mínu heimili því þá hefur sonur minn tækifæri til að segja hvað hann vill í sína skál og hvað ekki. Hann fær að segja 100% til um það sjálfur hvað fer á diskinn sinn og í hvaða magni það er. Með því að gefa honum ábyrgðina þarna lærir hann bæði að hlusta á sinn eigin líkama og það hvetur hann í leiðinni til að klára það sem hann valdi sér. Einnig ýta svona máltíðir undir sköpunarkraft og meira hugmyndaflug hjá okkur báðum.

Í þessari skál hér er ég með eftirfarandi samsetningu:

 • Eldað: Brokkolí, bakaðar sætar kartöflur
 • Kornvörur: Soðið kínóa
 • Ferskt: Avacado, ferskir tómatar, rauðlaukur, kóríander
 • Kál: Spínatkál
 • Kjúklingabaunir
 • Tahinisósa, uppskrift fyrir neðan.
 1. Mér finnst æði að baka sætar kartöflur alveg heilar í ofninum. Stilli þá ofninn á 180°C og set kartöflurnar í eldfast mót og baka þær þangað til ég get skorið í gegnum þær. Ég versla lífrænar sætar kartöflur sem eru þá í þannig stærð sem henta vel í þetta. 
 2. Brokkolíið baka ég við 200 °C í örstuttan tíma, mér finnst mikilvægt að fylgjast vel með því svo það brenni ekki við og verði stökkt & gott.
 3. Kínóa mæli ég með að leggja í bleyti yfir nótt/dag og skola svo & sjóða. Þetta gerir það auðmeltanlegra. Ég sýð það í hlutföllunum 1 bolli kínóa á móti 2 bollum af vatni.
 4. Kjúklingabaunir rista ég stundum í ofni, legg þær þá á ofnplötu, þurrka þær með hreinu viskastykki. Krydda þær með paprikudufti, salt & pipar og tamarisósu. Baka þær þá á 180°C í svona 20 mínútur eða þar til þær eru orðnar fallega gylltar á litinn.

Tahinisósa

 • 2 msk hvítt tahini
 • 7 msk heitt soðið vatn
 • 1 msk tamari sósa
 • 1/2 hvítlauksrif
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 1/2 tsk paprikuduft
 • Sítrónupipar
 1. Byrjaðu á því að sjóða vatn.
 2. Settu svo öll innihaldsefnin saman í skál og hrærðu þessu vel saman með písk.
 3. Leyfðu sósunni svo að kólna áður en þú berð hana fram. Það má vel gera 3x stærri skammt af þessari sósu og eiga í ísskápnum í 3-4 daga til að skella út á salöt eða svona skálar.

Það má auðvitað leika sér endalaust með svona tahinisósur en mér finnst þær gera gott enn betra! Lykilatriði að mínu mati er að nota gott ljóst tahini og það helst lífrænt. Ég kaupi mitt í Bónus í heilsudeildinni þar en það fæst pottþétt á fleiri stöðum.

Ég vona hjartanlega að þessi uppskrift veiti þér innblástur og hvetji þig áfram í því að næra þig á næringarríkan og bragðgóðan máta.

Ást & hlýja,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply